Eftir Líf Magneudóttur: "Ef við höldum svona áfram munum við horfa upp á óafturkræfar hörmungar sem komandi kynslóðir súpa seyðið af."

Sumarið 2018 fór fjölskyldan í sumarfrí til Englands. Á meðan við dvöldum þar gekk yfir mikil hitabylgja. Í samtali við ungan starfsmann í skemmtigarði, sem spurði hvaðan við værum, göntuðumst við með að við í Reykjavík hefðum aldeilis fengið rigninguna þeirra. Hann bað okkur vinsamlegast um að skila henni. Og svo flissuðum við yfir fáránleikanum.

En þetta var auðvitað ekki fáránlegt. Þetta er blákaldur raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir: Loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Veðuröfgar og afleiðingar þeirra magnast um allan heim. Ástralía berst nú við fordæmalausa skógarelda eftir að hafa þurft að glíma við mesta þurrkatímabil landsins árið 2019. Milljarður dýra hefur drepist. Þúsundir hafa misst heimili sín. Eldurinn hefur eyðilagt svæði á stærð við Ísland. Ekkert verður aftur eins.

Það dylst engum sem vill vita, hvað það er sem veldur þessum veðuröfgum. Það er losun gróðurhúsalofttegunda: Kolabrennsla, olíubrennsla og olíuframleiðsla, stóriðja, iðnaðarlandbúnaður, flug- og bílaumferð og bráðnandi sífreri svo eitthvað sé nefnt. En þrátt fyrir þær staðreyndir sem blasa við hafa valdamenn um allan heim ákveðið að loka augunum. Það á einnig við um forsætisráðherra Ástralíu. Hann sér enga beina tengingu milli þess hörmungarástands sem nú ríkir og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þess má geta að Ástralía er stærsti útflytjandi kola í heiminum auk olíu og málma.

Og það er sama sagan alls staðar. Peningaöflin keppast við að loka augunum fyrir afleiðingum gjörða sinna undir verndarvæng stefnulausra og fáfróðra stjórnmálamanna. Þeir vilja hvorki skilja né sjá að stundargróðinn er dýru verði keyptur. Ef áfram heldur sem horfir verður ekkert eftir til að græða á. Engin náttúra, engar auðlindir – ekki neitt. Og við töpum öll.

Við erum svo vön því að hugsa innan okkar eigin landamæra að okkur hættir til að gleyma að við búum öll á sama stað, jörðinni. Afleiðingar skógareldanna í Ástralíu berast þannig til annarra landa. Þegar Brasilía ryður regnskóga Amazon skaddast „lungu heimsins“. Bráðnandi jöklar á norðurslóðum hækka yfirborð sjávar og stuðla að því að lönd sökkvi í sæ. Ef við höldum svona áfram munum við horfa upp á óafturkræfar hörmungar sem komandi kynslóðir súpa seyðið af.

Þeim fer sem betur fer fækkandi sem vilja loka eyrunum fyrir varnaðarorðum vísindamanna og það er ekki síst ungu kynslóðinni að þakka, sem hefur bent á að rústir heimsins verða arfur þeirra ef ekkert verður að gert. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru margar þjóðir einhuga um að sporna við þessari uggvænlegu þróun. Við á Íslandi megum ekki sitja hjá í þeirri baráttu. Við megum heldur ekki glepjast af þeirri hugsanavillu að við séum stikkfrí á eyjunni okkar lengst norður í höfum – ef eitthvað er ætti einmitt nándin við náttúruna og hvað hún minnir oft og áþreifanlega á sig í daglegu lífi okkar að hvetja okkur til dáða til að gera betur. Og það skulum við gera.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í Reykjavík.

Höf.: Líf Magneudóttur