Helgi R. Einarsson orti eftir leik tvö: Af skynsemi vörðust og skutu, skoruðu' og niður þá brutu. Í djöfulmóð er nú dulítil þjóð. Í duftið því Rússarnir lutu.

Helgi R. Einarsson orti eftir leik tvö:

Af skynsemi vörðust og skutu,

skoruðu' og niður þá brutu.

Í djöfulmóð

er nú dulítil þjóð.

Í duftið því Rússarnir lutu.

Skagfirðingurinn Jón Gissurarson skrifaði í Leirinn á mánudag: „Hér er nú norðanstormur, skafrenningur og tveggja gráðu frost. Ljósin á bæjunum í Blönduhlíðinni blasa við augum þegar ég lít út um gluggann“:

Þó að föl sé foldarrósin

og fjúki mjöll í skugganum.

Blönduhlíðar blessuð ljósin

blasa við úr glugganum.

Sigmundur Benediktsson svaraði um hæl:

Þó að mynd við mjallarlín

mótist köldum vetri,

hærri yfir hérað sýn

hafa fáir betri.

Þetta kveikti í Skírni Garðarssyni:

Hríðar veður húsin skaka,

heljar skafl á stöðli rís.

Skírnir þó með skóflu og haka,

skylmist títt við hröngl og ís.

Vísunni fylgdu baráttukveðjur: „Á Fornastöðli álpuðust menn til að gróðursetja nokkur tré, þetta veldur geipilegum skafli þar, þvert á veginn, þótt jörð sé að öðru leyti næstum auð. Barátta mín við þetta fyrirbæri er aðdáunarverð, en auðvitað vonlaus.“

Á þriðjudaginn hélt Skírnir áfram: „Hér eystra eru engar skepnur lengur, kúabúskapur aflagður, sauðfjárbúskapur á „hold“ vegna niðurskurðar og hross engin á bænum.

Sauðfjárrækt var sett á „hold“

og sóma hestar dauðir.

Fýkur nú bæði fönn og mold

og flestir básar auðir.

Garðsláttuvél tjóðruð í einum básanna reyndar, O tempora, O mores!“

Sigmundur Benediktsson svaraði:

Sæll vertu séra Skírnir

sannur í von og trú.

Svo að frá harmi hýrnir

hugleiddu ráð mín nú.

Elskaðu ís og snjó!

Drottins sá harði hlekkur.

hita að neðan slekkur.

Dýrðleg tré er dafna frjó.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is