Leikskólar Breyta á starfstímum leikskóla Reykjavíkurborgar þannig að þeir verði opnir frá 7.30 til 16.30. Áður voru þeir opnir til klukkan 17.00.
Leikskólar Breyta á starfstímum leikskóla Reykjavíkurborgar þannig að þeir verði opnir frá 7.30 til 16.30. Áður voru þeir opnir til klukkan 17.00. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við teljum að það sé hægt að spara með öðrum hætti en að minnka þjónustuna við barnafólk,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðun skóla- og frístundaráðs um að stytta opnunartíma leikskóla borgarinnar...

„Við teljum að það sé hægt að spara með öðrum hætti en að minnka þjónustuna við barnafólk,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðun skóla- og frístundaráðs um að stytta opnunartíma leikskóla borgarinnar um hálftíma á dag.

Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sagði í samtali við mbl.is í gær að með þessu væri ætlunin að minnka álag á starfsfólk og börn.

Eyþór segir að ýmsar leiðir séu færar í þá áttina en styttur opnunartími sé ekki rétta leiðin enda opnunartími ekki það sama og viðverutími.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa mótmælt ákvörðun sem á að taka gildi 1. apríl næstkomandi.

„Við leggjumst gegn þessari breytingu. Síðasta úrræðið á að vera að úthýsa börnunum.“

Eyþór segir að ákvörðunin komi á óvart vegna þess að hún sé andstæð kosningaloforðum meirihlutans. „Þetta kemur mörgum á óvart vegna þess að þetta var ekki eitt af því sem var á dagskrá fyrir kosningar. Þá voru flokkarnir sem eru í meirihluta að tala um að auka þjónustuna við barnafjölskyldur. Þetta bitnar helst á barnafjölskyldum, vinnandi fólki og jafnvel frekar á konum en körlum.“

Kjósa áfram gegn styttingu

Eyþór segir ýmsar leiðir vænlegri til sparnaðar.

„Það er svolítið skrýtið í nútímanum að fara þessa leið á meðan við erum með stjórnkerfi sem kostar marga milljarða á ári og notast enn við pappír frekar en rafræna þjónustu. Það væri hægt að spara þar frekar en með því að stytta opnunartíma leikskólanna.“

Eyþór segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins muni halda áfram að berjast gegn þessari breytingu.

„Við greiddum atkvæði gegn þessu í skólaráði og munum greiða atkvæði gegn þessu í borgarráði og borgarstjórn. Vonandi verður þetta dregið til baka. Það er stutt í að þetta taki gildi svo þetta er ansi bratt.“

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra. ragnhildur@mbl.is