Vaxtarrækt Sumir íþróttamenn hafa freistast til að nota stera.
Vaxtarrækt Sumir íþróttamenn hafa freistast til að nota stera. — Morgunblaðið/Golli
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Afar brýnt er að endurskoða heimildir einstaklinga til innflutnings á ávana- og fíknilyfjum og sterum til eigin nota, að mati tollgæslustjóra.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Afar brýnt er að endurskoða heimildir einstaklinga til innflutnings á ávana- og fíknilyfjum og sterum til eigin nota, að mati tollgæslustjóra. Vill tollgæslustjóri þrengja umræddar heimildir verulega í ljósi mála sem hafa komið upp undanfarin ár og hefur lagt fram tillögur þess efnis til heilbrigðisráðherra. Í umsögn sinni um ný lyfjalög, sem undirrituð er af Hjalta B. Árnasyni lögfræðingi, gagnrýnir tollgæslustjóri að lítið sé vikið að reglum um þetta.

Grunsamlegar ávísanir lækna

Ný lyfjalög eru nú í meðförum Alþingis og hefur verið kallað eftir umsögnum víða að. Ætlunin er að breyta regluverki lyfjamála hér á landi, meðal annars vegna breytinga á íslensku heilbrigðiskerfi og ýmissa tilskipana og reglugerða frá ESB sem tekið hafa gildi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Gert er ráð fyrir að lyfjagreiðslunefnd verði lögð niður og verkefni hennar flutt til Lyfjastofnunar og Landspítala, svo dæmi séu tekin.

Í umsögn tollgæslustjóra er ennfremur getið að skynsamlegt væri að tollayfirvöldum verði heimilt að upplýsa Lyfjastofnun eða Embætti landlæknis um grunsamlega lyfjaávísun lækna í málum þar sem grunur leikur á að brotið sé gegn núverandi reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota. Upp hafi komið tilvik þar sem grunur leikur á að einstaka læknar hafi útvegað fólki síðbúið vottorð eða lyfseðil fyrir slíkan innflutning.