Svanhildur Erla Jóhannesdóttir Levy, fyrrverandi kaupmaður og húsmóðir í Reykjavík, fæddist á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu 4. september 1937. Hún lést 31. desember 2019 á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Erla ólst upp í Hrísakoti á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru Jóhannes Helgi Eggertsson Levy, bóndi í Hrísakoti og oddviti, f. 29. maí 1910, d. 26. maí 1981, og Marsibil Sigurrós Jenný Jóhannesdóttir Levy, bóndi í Hrísakoti og húsmóðir, f. 9. ágúst 1910, d. 26. ágúst 1996. Bræður Erlu eru Agnar Rafn Jóhannesson Levy, f. 30. janúar 1940, og Eggert Ósmann Jóhannesson Levy, f. 26. apríl 1947.

Eftirlifandi eiginmaður Erlu er Gunnlaugur Guðmundsson, fyrrverandi kaupmaður í Reykjavík, f. 8. febrúar 1931 í Vesturhópshólum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Börn þeirra eru:

1) Garðar, f. 11. desember 1956. Börn hans og Helgu Leifsdóttur, f. 7. júlí 1957 fyrrverandi sambýliskonu hans eru Gunnlaugur, f. 14. apríl 1984, í sambúð með Hjördísi Gullu Gylfadóttur, f. 2. desember 1982. Synir þeirra eru Garðar Freyr, f. 21. ágúst 2014, og Sigurður Darri, f. 17. desember 2016; Anna, f. 24. maí 1988.

2) Drengur, f. 29. desember 1957, dáinn 31. desember 1957.

3) Gunnlaugur Sævar, f. 29. desember 1958, kvæntur Önnu Júlíusdóttur, f. 12. mars 1960. Börn þeirra eru Þórunn, f. 18. september 1981, gift Friðbirni Orra Ketilssyni, f. 13. október 1983. Börn þeirra eru Friðbjörn Orri, f. 16. september 2009, Anna Margrét, f. 10. apríl 2011 og Þórey, f. 2. júní 2016; Erla, f. 5. mars 1984, gift Loga Hrafni Kristjánssyni, f. 5. júní 1982. Börn þeirra eru Snorri, f. 30. janúar 2005, Anna, f. 25. desember 2012 og Auður, f. 25. júlí 2017; Anna Lára, f. 16. desember 1985, gift Arnóri Ingimar Þorsteinssyni, f. 16. júní 1986. Börn þeirra eru Sævar Ingi, f. 16. apríl 2011 og Lára, f. 8. september 2014; Edda, f. 15. janúar 1991, gift Jóni Hauki Jónssyni, f. 6. desember 1989. Sonur þeirra er Jón Þór, f. 4. maí 2015; Pétur Emil Júlíus, f. 8. júlí 1993, í sambúð með Andreu Björk Elmarsdóttur, f. 27. maí 1994; Gunnlaugur Sævar, f. 25. júní 2002.

4) Hildur, f. 25. júní 1965, gift Arnari Sölvasyni, f. 18. mars 1966. Börn þeirra eru Gunnlaugur Freyr, f. 6. júní 1992, í sambúð með Guðbjörgu Pálsdóttur, f. 10. febrúar 1993; Arnar Þór, f. 13. október 1997; Hildur Katrín, f. 19. desember 2000.

5) Áslaug, f. 23. október 1973, gift Ágústi Sæmundssyni, f. 31. desember 1970. Börn þeirra eru Auður, f. 27. apríl 2001; Erla, f. 4. september 2004; Sæmundur, f. 7. apríl 2010.

Erla flutti til Reykjavíkur 1954 og var í vist hjá fjölskyldu Birgis Kjaran á Ásvallagötu 4 í Reykjavík. Þá starfaði hún um skeið við fiskvinnslu hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur og safnaði fyrir skólavist í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Erla stundaði nám við skólann 1955-1956.

Erla og Gunnlaugur ráku um áratugaskeið mat- og nýlenduvöruverslunina Gunnlaugsbúð, sem lengst af starfaði á Freyjugötu 15 á horni Baldursgötu en síðar í verslunarmiðstöðinni við Hverafold 1 til 5 í Grafarvogi, en þau reistu það hús og áttu að stærstum hluta um árabil. Þá ráku þau söluturninn Foldaskálann í Hverafold og Sportbúð Grafarvogs.

Erla var virk í starfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og sat um árabil í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Smáíbúða- og Fossvogshverfi. Þá tók hún virkan þátt í starfi Kvenfélags Bústaðasóknar og sat í stjórn þess um árabil.

Útför Erlu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. janúar 2020, og hefst athöfnin kl. 15.

Blíð, kjarkmikil og staðföst athafnakona kemur helst upp í hugann þegar ég minnist móður minnar Svanhildar Erlu Jóhannesdóttur Levy sem jarðsett er í dag. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund hinn 31. desember 82 ára að aldri.

Hún ólst upp í Hrísakoti á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Til þess að gera litlu koti en grasgefnu og með nokkrum veiðihlunnindum. Foreldrar hennar Jóhannes Helgi Eggertsson Levy og móðir Marsibil Sigurrós Jóhannesdóttir Levy ólust upp á næsta bæ hvort við annað. Hann að Ósum hún í Hrísakoti.

Við bræður nutum þess alla okkar æsku að vera sendir í sveit til afa og ömmu og dvöldum þar frá því skóla lauk og þar til hann hófst aftur að hausti. Við nutum hverrar stundar við störf og leik. Við fengum því örlitla nasasjón af því lífi sem foreldrar okkar ólust upp við þó að nokkrar framfarir hafi orðið frá þeirra æsku. Við fengum þó að kynnast lífi án rafmagns og almennum sveitastörfum.

Móðir mín fékk það sama uppeldi og önnur börn á þessum tíma. Það var vinna og aftur vinna. Skipti þá engu hvort um karl eða konu væri að ræða, strák eða stelpu þó vitaskuld gengi hver til þeirra verka sem hann hafði burði til. Lífsbaráttan var hörð við Húnaflóann vestanverðan og gustaði um. Er ekki að efa að skapferli fólks af þessum slóðum hafi mótast af veðráttunni og lífsbaráttunni.

Faðir okkar Gunnlaugur Guðmundsson kaupmaður er úr sömu sveit og hlaut svipað veganesti og sömu viðhorf til lífsins og vinnunnar. Þau voru samhent hjón, staðráðin í að standa sig í stykkinu. Þau höfðu bæði staðfasta trú á frelsi til athafna og að í því væri fólgin vonin um bætt kjör og betra líf. Þau töldu brýnt að ungt fólk menntaði sig en hvorugu þeirra stóð það til boða.

Þau ráku nýlenduvöruverslunina Gunnlaugsbúð við Freyjugötu og síðar við Hverafold í áratugi, en faðir minn hafði tekið við þeirri verslun af föðurbróður sínum og nafna okkar Gunnlaugi Jónssyni við andlát hans árið 1958.

Við bjuggum á efstu hæð í lítilli íbúð og verslunin var á jarðhæðinni. Við höfðum því foreldra okkar báða innan seilingar fyrstu rúmu 10 árin en þá fluttum við í Fossvoginn. Þau voru samhent í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Þjónustulundin og lipurðin voru þeirra aðalsmerki. Orðið viðskiptavinur átti vel við um samband þeirra við þá sem við þau versluðu. Þegar þau höfðu reist mikið verslunarhús við Hverafold í Reykjavík jukust mjög umsvif þeirra. Þau leigðu hluta hússins út, ráku um tíma þar Gunnlaugsbúð, söluturninn Foldaskálann og Sportbúð Grafarvogs sem var sérstakt dálæti móður minnar og hún rak um árabil.

Þrátt fyrir mikla vinnu og langan vinnudag þá gaf móðir mín sér tíma til að sinna áhugamálum sínum. Þannig var hún virk í starfi kvenfélags Bústaðakirkju um árabil og var það starf og tengslin við kirkjuna henni mikils virði.

Hún var mikill baráttujaxl og trúði á frelsið. Hún trúði á frelsi til athafna og var í nöp við óþarfa afskipti ríkisins. Hún fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum alla tíð og fékk þær skoðanir og þau viðhorf til lífsins í veganesti af Vatnsnesinu í ríkum mæli.

Hún sinnti flokksstarfinu af áhuga og kappi. Hún starfaði í kosningum í þágu Sjálfstæðisflokksins og þau voru ófá prófkjörin þar sem hún lagði sig alla fram í stuðningi við frambjóðendur sem hún taldi töggur í og veðjandi á. Í því sem öðru var hún hamhleypa til vinnu.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég móður mína. Ég stend í ævarandi þakkarskuld við hana eftir 61 árs samfylgd. Hún var okkur öllum traustur bakhjarl, yndislegur uppalandi og hvatamaður. Viðkvæðið var oftar en ekki „Það þýðir ekki að gefast upp á þurru landi“ og það verður hver „að koma til dyranna eins og hann er klæddur“. Hafðu þökk fyrir allt.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson.

Það var feimin unglingsstúlka sem fór að venja komur sínar á heimili Erlu til að heimsækja son hennar Sævar. En feimnin rann fljótlega af stúlkunni er hún fór að kynnast henni sem síðar varð tengdamóðir hennar.

Mér var strax vel tekið, mér fannst ég vera velkomin og fljótlega var ég búin að gera mig heimakomna. Það var sérstaklega gaman að koma í eldhúsið þar sem mikið var til af öllu og aldrei fór nokkur maður svangur þaðan.

Erla var afskaplega dugleg kona, hörð af sér og sérstaklega ósérhlífin. Hún átti til að taka að sér of mikið en alltaf leysti hún verkefnin bæði fljótt og vel. Hún var oft mjög upptekin því auk þess að sinna stóru heimili vann hún við rekstur Gunnlaugsbúðar með miklum myndarbrag.

Erla var létt í lund og það var alltaf þægilegt andrúmsloft þar sem hún var. Hún hafði sterkar skoðanir á stjórnmálum og gaf ekkert eftir þegar pólitíkin var rædd.

Hún hefur skilað þessum dugnaði til afkomenda sinna, barna og barnabarna sem eru orðin ærið mörg og fer sem betur fer fjölgandi.

Ég kveð þessa dugnaðarkonu og minnist hennar með mikilli hlýju.

Anna Júlíusdóttir.

Amma mín Erla á skilið fallegustu minningargrein sem skrifuð hefur verið og ég vildi að ég gæti skrifað hana. Hún kenndi mér og öllum í kringum sig alltaf að gera eins vel og maður gæti eða annars sleppa því. Hún fór út á náttkjólnum og hjálpaði til við að skafa af bílnum ef einhverjum datt í hug að skafa bara rétt af framrúðunni áður en þeir lögðu af stað enda hafði hún ekki þolinmæði fyrir meðalmennsku. Þannig hreif hún fólk með sér á hærra plan og minnti fólk á að gera hlutina almennilega. Amma mín var afrekskona og ég leit upp til hennar. Hún var líka yndislega hlý og góð og ég elskaði hana. Þótt hvatningarorðin og innblásturinn sem hún veitti fylgi manni og veiti styrk alla ævi er það fallega brosið hennar og hlýja faðmlagið sem er efst í huga mér núna.

Anna Garðars.

Elsku einstaka amma Erla. Þvílík gæfa að hafa átt þig að. Hlýja þín og kærleikur í okkar garð var takmarkalaus.

Við minnumst margra ánægjulegra stunda með þér og afa Gunnlaugi í Haðalandinu. Þú dróst fram dótakassana og bauðst okkur upp á alls konar góðgæti sem nóg var til af. Á þínu heimili áttu allir að vera saddir og sælir. Gestagangurinn í Haðalandinu var mikill. Vini og frændfólk bar að garði og allir voru velkomnir. Þú og afi voruð samhent hjón sem báruð hag fjölskyldu ykkar sérstaklega fyrir brjósti. Við vitum að til margra ára stóðuð þið vaktina saman í Gunnlaugsbúð og voruð þess fyrir utan nánast öllum stundum saman.

Þú sagðir okkur oft sögur frá uppvaxtarárum þínum í Hrísakoti á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem þú ólst upp ásamt yngri bræðrum þínum hjá yndislegum foreldrum sem þú talaðir oft um. Þú sagðir okkur líka stolt frá því þegar þú eltir drauma þína og ákvaðst ung að flytja suður til Reykjavíkur. Þú vannst fyrir þér með því að starfa í fiskvinnslu og safnaðir þannig fyrir skólavist í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Þú nefndir oft að þú hefðir gjarnan viljað mennta þig meira hefðir þú haft tækifæri til þess. Af þeirri ástæðu lagðir þú ríka áherslu á það við okkur að við værum dugleg í skólanum því í menntun fælist máttur.

Það sem einkenndi þig elsku amma var góðmennskan, hjálpsemin og dugnaðurinn. Þú varst alltaf boðin og búin að veita fólki aðstoð þína. Jafnvel eftir að heilsu þinni hafði hrakað mikið talaðir þú um að koma einhverju í verk eða bauðst fram aðstoð þína til góðra verka. Þú varst dugnaðarforkur og drifkraftur þinn var engu líkur. Þú hvattir okkur áfram og minntir okkur á að gefast aldrei upp, gjarnan með orðunum „það er bannað að gefast upp á þurru landi“. Við munum minnast þessara orða þinna og þau munu áfram verða okkur og öðrum afkomendum þínum hvatning í lífinu.

Við þökkum þér af öllu hjarta alla þá ást, umhyggju og hvatningu sem þú veittir okkur. Við erum lánsöm að eiga góðar minningar um þig sem munu lifa með okkur. Takk fyrir allt elsku besta amma Erla.

Þín barnabörn,

Auður, Erla og Sæmundur.

Elsku amma.

Við kveðjum þig með söknuði og full þakklætis.

Þú varst einstaklega dugleg kona og hafðir ávallt velferð annarra í fyrirrúmi. Okkur leið vel í návist þinni og vorum svo heppin að fá oft að gista hjá ykkur afa þegar við systkinin vorum lítil. Við munum sérstaklega vel eftir góðu lyktinni af nýþvegnu rúmfötunum sem þú viðraðir á snúru í garðinum. Mest spennandi þótti okkur að fá að fara með ykkur afa annaðhvort að opna eða loka Foldaskálanum og fá að velja okkur morgunmat eða nammi til að taka með heim. Ef við sváfum lengur en þú og misstum af þér gátum við verið viss um að þú kæmir með góðgæti fyrir okkur þegar þú komst til baka.

Þú naust þín vel í garðinum þínum í Haðalandinu og hugaðir vel að öllu því sem þar óx, þá sérstaklega bóndarósunum sem þú lagðir mikla natni við að rækta. Við fengum oft að hjálpa til við garðvinnuna, sem var afar skemmtilegt verkefni á sólríkum dögum í Fossvoginum.

Við eldri systurnar vorum svo lánsamar að fá að vinna hjá þér bæði í Foldaskálanum og í Sportbúð Grafarvogs. Þú kenndir okkur margt tengt afgreiðslustörfum og var viðhorf þitt að viðskiptavinur ætti alltaf að ganga glaður úr versluninni. Þú kenndir okkur einnig snemma þá meginreglu í viðskiptum að viðskiptavinurinn hefði alltaf rétt fyrir sér.

Við eigum líka margar góðar minningar með ykkur afa á Gelti, fallegu jörðinni sem þér leið svo vel á. Við fengum að leika frjáls í sveitinni og gátum svo treyst á að fá nýbakaðar pönnukökur eða annað bakkelsi þegar hungrið sagði til sín.

Í seinni tíð þegar við komum í heimsókn í Haðalandið fengu börnin okkar að kynnast langömmu sinni. Þú dróst fram heilu leikfangakassana inn í stofu og leyfðir börnunum að leika með dótið um allt hús, kvartaðir hvorki yfir látunum í þeim né draslinu sem þeim fylgdi.

Það var erfitt að fylgjast með þér smám saman verða veikari og veikari því sterkari og duglegri kona er vandfundin. Aldrei mátti heyra þig kvarta yfir einu né neinu. Æskuminningarnar frá Vatnsnesinu hurfu ekki úr huga þér og áttir þú allmargar sögur sem við þreyttumst ekki á að heyra. Sögurnar endaðirðu oftar en ekki á orðunum „enginn verður óbarinn biskup“.

Elsku amma – við þökkum fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman og minningarnar munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Þórunn, Erla, Anna Lára, Edda, Pétur Emil Júlíus

og Gunnlaugur Sævar.

Aðfaranótt gamlársdags dreymdi mig að ég væri staddur hér sunnan við blómagarðinn og horfði að húsum. Sé ég þá að hvítur blettur kemur á hillu sem þar var kominn og finnst mér að sé rjúpa. Hann stækkar svo og verður stór sem svanur, án þess að ég sæi hausinn sem lá niðri. Hrekk þá upp rétt um kl. 5 og veit um leið að Erla systir er dáin.

Segja má að ég hafi haft hugann við það þar sem hún lá við dauðans dyr, en það skrýtna var þetta með svaninn. Ekki hafði ég haft hann í huga eða áður, en tók sem tákn.

En Erla var skírð að fyrsta nafni Svanhildur, eftir dóttur Þorsteins Erlingssonar, en hitt eftir Erlu úr kvæði Stefáns frá Hvítadal, en þeir voru í miklu uppáhaldi hjá föður okkar.

Svanhildarnafnið var aldrei notað, fyrr en síðustu árin sem hún var á elliheimilinu Grund, þar þekktist hún ekki undir öðru nafni.

Erla fæddist á Ægissíðu, en á fyrstu búskaparárum foreldranna voru þau á hrakhólum með jarðnæði uns þau fluttust að Hrísakoti 1941.

Þar sem Erla var eldri var hún í því að passa mig og veitti ekki af, því að ég var uppátækjasamur og sótti í að leika mér í bæjarlæknum og hún bjargaði mér oft þaðan og átti ég henni þar vafalaust lífið að launa.

Leikir okkar í æsku voru fjölbreyttir og margir í boði þar sem og inni. Við höfðum bú í Háabarðinu og sem búsmala leggi og skeljar og riðum út á kústsköftum. Þar voru bakaðar í sólskininu blómskreyttar drullukökur sem hún var afar flink við og þá séð hvert stefndi með húsmóðurstörf. Sem og kom í ljós eftir Húsmæðraskólanám og hún fór að búa í Reykjavík ásamt Gunnlaugi eiginmanni sínum. Var heimili þeirra frábært að myndarskap og öllum búnaði.

Þau eignuðust 5 börn, eitt dó nýfætt og einmitt þennan sama dag og hún. Afkomendur í dag eru fjölmargir, allt einstakt fyrirmyndarfólk. Á vetrum var mikið spilað og um 20 tegundir í boði, líka var teflt og mamma lét okkur skanderast. Oftast vorum við svæfð á kvöldin við margar og langar þulur sem pabbi kunni. Eftir að Eggert bróðir fæddist var það hlutverk okkar að svæfa hann með því að raula allar vísur sem við kunnum. Allt slíkt er löngu hætt hjá fólki, nú sitja börnin bara sem dáleidd yfir snjallsíma sínum.

Eftir að ég fór suður að vinna og stunda íþróttir var ég í húsnæði og fæði hjá þeim Erlu og Gunnlaugi við einstaklega gott atlæti. Er það öruggt að ég hefði aldrei getað náð þeim árangri sem ég náði án þess.

Nú við fráfall Erlu rifjast þetta allt og ótal annað upp og við fyllumst djúpum söknuði en jafnframt innilegri þökk fyrir allt.

Sendum Gunnlaugi, börnum, tengdabörnum og öllum afkomendum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kalt er haustið: hússins sólarljómi

horfinn er að Alvaldsdómi,

litum bregður loft og jörð og sær.

Móðir, systir, kona, kvennasómi!

Kalt er lífið, horfinn allur blómi,

drúpir sveit, en hnípir höfðingsbær.

Hjartans pakkir, hjartans vinan kæra!

hjartað ríka, stóra, hvílstu nú.

Glóðheit tár þér grátnir vinir færa:

Guð þér launi dyggð og trú!

(M. Joch.)

Hlíf og Agnar.

Árið endaði miður vel í þetta sinn. Elskuleg frænka mín lét mig vita að móðir hennar hefði látist aðfaranótt lokadags ársins. Erla frænka mín var mér ákaflega kær alla tíð. Mæður okkar voru systur og mér fannst hún alltaf vera hálfgerð stóra systir mín sem ég eignaðist aldri.

Sumar eftir sumar var ég í sveitinni hjá móðursystur minni. Átti hún þrjú börn og var Erla þeirra elst. Eldri bróðir hennar var jafngamall mér, vorum þremur árum yngri en hún og alveg einstakt hvað hún þoldi okkur og var okkur góð, þótt við hljótum að hafa verið erfið á stundum.

Skólaganga var ekki löng, en það kom ekki að sök, hún var bráðvel gefin og alveg sama hvað hún tók sér fyrir hendur; allt jafn hnitmiðað og vel gert. Hún var hamhleypa til verka hvort sem það var innan dyra eða í heyskap.

Ung að árum fór hún að renna hýru auga til sveitunga síns, ungs rauðhærðs pilts sem bauð af sér góðan þokka. Flutti hann fljótt suður í höfuðstaðinn og hún fór í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði námið með bravör. Nú varð ekki aftur snúið, hún giftist sínum draumaprinsi og þau fóru að fjölga sér. Afraksturinn varð fimm yndisleg börn og var fjölskyldan afar samhent. Eitt skyggði þó á því þau misstu eitt af sínum börnum rétt eftir fæðingu, en hver kemst í gegnum lífið án áfalla?

Með dugnaði og elju eignuðust þau „herragarð“ í Grímsnesinu, þar undu þau hag sínum vel enda ekki hægt annað.

Með aldrinum fór minnið að gefa sig, dvínaði það smátt og smátt. Þegar við sátum tvær einar á Elliheimilinu Grund, en þangað var hún komin, urðum við aftur tvær litlar telpur. Samræðurnar snerust um búið hennar/okkar uppi í Barði, þar sem við gátum dundað okkur tímunum saman.

Þessa frænku mína kveð ég nú eftir sjötíu og fimm ára samveru sem aldrei hefur skugga á borið.

Sendum við Sigurgeir fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Jóhanna G. Halldórsdóttir..

Ég kynntist Erlu er við hjónin fluttum til Reykjavíkur á vormánuðum árið 1972. Eiginmaður minn heitinn, Eggert Hjartarson, og Erla voru systkinabörn, á svipuðum aldri og þekktust frá barnæsku. Hún ólst upp í Hrísakoti á Vatnsnesi en Eggert, sem átti heima á Hvammstanga, var mikið í sveit á næsta bæ, Ósum, þar sem afi og amma hans og Erlu bjuggu. Erla og Gunnlaugur, maki hennar, sem einnig er úr Húnaþingi, ráku lengi matvöruverslunina Gunnlaugsbúð á Freyjugötu 15 í Reykjavík. Þegar við hjónin fluttum suður árið 1972 höfðu þau nýlega byggt sér hús í Haðalandi 17 í Fossvogi en Eggert hafði fengið lóð í Haðaland 21. Við leigðum húsnæði nokkru ofar í Fossvoginum meðan Eggert byggði húsið okkar. Ekki var matvörubúð í næsta nágrenni en Eggert hafði samband við frænku sína sem tók stundum með sér matvöru til okkar á heimleið. Ég man þegar Erla, sem var hörkudugleg, hress og hagsýn kona, kom með fyrsta matvörukassann. Hún opnaði frystihólfið á kæliskápnum og benti mér á að ég gæti komið hálfum lambsskrokki þar inn – það væri mun ódýrara að kaupa hálfan skrokk heldur en í eina máltíð. Svo baðst hún afsökunar á afskiptaseminni en ég þakkaði henni fyrir og hef síðan farið eftir þessum góðu leiðbeiningum.

Annað dæmi um greiðvirkni Erlu og Gunnlaugs er að stuttu eftir að yngri sonur okkar fæddist sumarið 1974 þurftum við hjónin að lakka stórt parketgólf. Veðrið var gott og gátum við verið með opið út yfir daginn en þótti varasamt að láta drengina sofa í húsinu meðan lakkið var blautt. Leituðum við þá til þeirra hjóna. Þau buðu okkur umsvifalaust vera með drengina hjá sér og sváfum við þar öll fjögur í einar tvær nætur.

Yngsta barn þeirra hjóna, Áslaug, er fætt árið 1973, en drengir okkar Eggerts 1972 og 1974. Þau þrjú voru eins og systkin og léku sér oftast saman, ýmist inni eða úti á milli heimilanna. Áslaug gætti líka oft með þeim bræðrum dóttur okkar sem fæddist 1979. Þau fjögur voru og eru perluvinir.

Þegar þau hjón héldu upp á fermingar, útskriftir o.fl. var það oftast heima og sá Erla um veislurnar. Hún bakaði líka glæsilegar kransakökur í fermingarveislur barna okkar Eggerts. Þau hjón voru höfðingjar heim að sækja og dugnaði þeirra var við brugðið, eins og framkvæmd þeirra í Hverafold í Grafarvogi, uppbygging á Gelti og endurnýjun heimilisins ber vott um.

Við bjuggum í Haðalandinu rúm 34 ár og aldrei bar nokkurn skugga á vináttuna við þau hjón. Eggert vann oft fyrir Gunnlaug og skrapp iðulega yfir til þeirra og þá voru rifjaðar upp skemmtilegar minningar frá bernskuárum í Húnaþingi. Eftir að Eggert veiktist studdu þau okkur ómetanlega. Á seinni árum færðu þau Eggert konfekt og vínflösku á gamlársdag og eftir að hann flutti á hjúkrunarheimili fóru þau einfaldlega þangað með konfektið.

Ég og börnin munum ávallt minnast Erlu með þakklæti og gleði. Hún var einstök kona, hreinskiptin og heil. Við vottum Gunnlaugi, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum einlæga samúð okkar. Blessuð sé minning Erlu Levy.

Guðrún Pálsdóttir.

Ég var svo heppin að fá að alast upp í Fossvoginum frá sex ára aldri og í næstu götu við okkur Bensa, tvíburabróður minn, Haðalandi, bjuggu jafnaldrar okkar næstum í hverju húsi. Í Haðalandi 17 átti Hildur heima en við urðum góðar vinkonur sem brölluðum ýmislegt saman ásamt öllum hinum skemmtilegu krökkunum í götunni. Við vorum alltaf velkomin inn á heimili Hildar, tjalda í garðinum, leika okkur á lóðinni, búa til karamellur eða hvað við vildum, stundum fylgdi því reyndar að passa Áslaugu litlu systur hennar þar sem Erla og Gunnlaugur voru oft upptekin í búðinni. Búðin, Gunnlaugsbúð á Freyjugötunni, varð svo sá staður sem ég hef unnið einna lengst á, utan kennslustofunnar. Erla og Gunnlaugur voru einstaklega samhent hjón og gerðu allt fyrir kúnnann; ef varan var ekki til þá var því bara reddað, ef einhver fékk vitlausa pöntun þýddi það bara aðra hjólaferð heim til viðkomandi og aldrei var rukkað fyrir þessar heimsendingar, allt gert með glöðu geði hver sem kúnninn var. Það er ekki skrýtið þótt nokkrar eldri konur í Þingholtunum hafi brostið í grát þegar Gunnlaugsbúð flutti upp í Grafarvog. Á þessum 10 árum sem ég vann með skóla í búðinni hlakkaði ég alltaf til að mæta í vinnuna. Mér var treyst til að skrifa niður tímana sem ég vann og svo fyrsta hvers mánaðar fór ég í Haðalandið þar sem Erla reiknaði saman tímana og borgaði mér með ávísun. Búðin virkaði oft eins og besta félagsmiðstöð fyrir íbúa hverfisins. Fastakúnnarnir áttu reikning í búðinni og þekkti maður auðvitað alla með nafni og öllum var treyst til að greiða skuldir sínar um mánaðamótin, sem oftast gekk eftir. Allt var svo persónulegt og átti Erla ansi stóran þátt í því að kenna okkur sem unnum í búðinni að bjóða öllum góðan dag, þakka fyrir viðskiptin og sýna einstaka kurteisi, kúnninn hafði alltaf rétt fyrir sér. Í dag er maður bara skammaður fyrir ef það er óvæntur hlutur á pokasvæði! Þegar búðinni var lokað á hádegi á laugardögum fékk ég iðulega að fara með fjölskyldunni heim í SS-pylsur og appelsín, það þótti mér æðislegt, ef vel bar í veiði fengum við Pipp-súkkulaði á eftir.

Erla var skemmtileg, dugleg og klár kona sem gekk í öll verk, hvort sem var í búðinni, bókhaldinu eða á heimilinu. Þótt ég hafi lítið umgengist þessa góðu fjölskyldu seinni ár bý ég alltaf að því sem Erla og Gunnlaugur kenndu mér og þakka ég innilega fyrir það.

Elsku fjölskylda, Gunnlaugur, Garðar, Sævar, Hildur, Áslaug, tengdabörn og afkomendur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar.

Helga Sveinsdóttir.

Mig langar til að minnast Erlu með nokkrum orðum. Í brúðkaupi Þórunnar, elsta barnabarns Erlu, var dreift auðum miðum, þar sem gestir áttu skrifa niður heilræði handa brúðhjónunum. Ég man að við Kristín heitin vorum einhuga um hvað við ættum að skrifa sem var eitthvað á þá leið að brúðhjónin ættu að hafa hjónaband Erlu og Gunnlaugs að leiðarljósi og þá mundi þeim vel farnast. Ef minnst er á Erlu þá er Gunnlaugur aldrei langt undan. Við Kristín ræddum oft um það hvað þau væru skemmtileg og samrýnd hjón. Þau störfuðu samhent í verslunarrekstrinum þótt þau væru komin yfir miðjan aldur og hefðu dregið úr umsvifum í matvöruversluninni höfðu þau alltaf nóg annað fyrir stafni. Þau voru að stækka húsið í Haðalandinu, kaupa jörð í Grímsnesi, setja upp sportvöruverslun í Grafarvogi, innrétta hesthúsið, starfa innan Sjálfstæðisflokksins, svo nokkuð sé nefnt. En það voru ekki bara framkvæmdirnar, það var hugurinn á bak við þær, gleðin og ánægjan með viðfangsefnin sem ég hreifst af. Þau höfðu gaman af að sýna og segja frá viðfangsefnum sínum en ekki síður vildu þau vita um allt sem við vorum að gera og fannst mikið til þess koma. Erla og Gunnlaugur voru einlægir sjálfstæðismenn, gerðu sér öðrum betur grein fyrir mikilvægi einkaframtaks og atvinnufrelsis.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Erlu og Gunnlaugi fyrir um 40 árum. Það var um það leyti sem nýlenduvöruverslunin hætti á Fjölnisvegi 2 og foreldrar mínir hófu viðskipti við Gunnlaugsbúð og um svipað leyti kynntist ég syni þeirra Gunnlaugi Sævari og hefur sú vinátta varað síðan. Ég minnist þess að foreldrum mínum varð tíðrætt um hversu gott væri að versla í Gunnlaugsbúð, hvað hjónin sem þar stóðu vaktina hefðu góða nærveru og veittu góða þjónustu. Svo var þeim einnig umhugað um hag foreldra minna, spurðu frétta og reyndu að liðsinna eftir mætti. Þeim var annt um viðskiptavini sína. Foreldrar mínir báru alla tíð mikinn hlýhug til þeirra hjóna og aldrei kom annað til greina en að versla í Gunnlaugsbúð. Margar minningar koma upp í hugann. Maður minnist þess t.d. þegar maður kom ríðandi í Haðalandið í Fossvoginum sem var hægt í þá daga. Hestar bundnir fyrir utan og maður leiddur inn að veisluborði sem Erla hafði útbúið. Hestarnir mínir voru dásamaðir sem miklir gæðingar og á slíkum stundum þá fann maður vel hvað sveitin þeirra Vatnsnesið í Húnavatnssýslunni skipaði stóran þess í lífi þeirra þegar rifjaðar voru upp sögur af hestum og mönnum fyrir norðan. Stundum var bikar með sem ekki spillti fyrir. Maður fór alltaf glaðari og hressari af þessum fundum en þegar maður kom og mér fannst ávallt eins og ég væri á miklu betri hestum þegar ég fór úr Haðalandinu heldur en þegar ég kom þangað. Svo var það árviss viðburður í mörg ár að hittast á uppskeruhátíð hestamanna þar sem Erla og Gunnlaugur voru fastir gestir í góðra vina hópi. Þegar við hittum þau þar þá var Erla oft fyrri til að segja: „Gunnlaugur, ertu búinn að bjóða þeim upp á gin og tónik?“ Það var ekki valkostur að segja nei við slíku kostaboði. Þetta urðu ávallt fagnaðarfundir og vil ég þakka fyrir að fá að kynnast þeim og eiga að vinum Erlu og Gunnlaug og þeirra fjölskyldu. Sú vinátta hefur reynst mér dýrmæt.

Ég sendi Gunnlaugi, börnum hans og hans stóru fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur og bið þeim öllum Guðs blessunar.

Sigurbjörn Magnússon.

Ef hægt er að segja um einhverja konu að hún hafi verið lífið og sálin í sínum félagsskap þá var hægt að segja það um hana Erlu. Sem félagskona í Kvenfélagi Bústaðasóknar lét hún sér ekkert óviðkomandi. Í mörg ár var hún þar í stjórn og tók þátt í öllu og leysti allt jafn vel af hendi. Ef eitthvað þurfti að gera var hún ævinlega fyrst til að bjóða fram krafta sína. Alltaf til í að baka fyrir fundi og jólakökurnar hennar slógu virkilega í gegn. Hún var líka einn af stofnendum kvennakórsins Glæða og söng lengi með kórnum. Þegar safna þurfti vinningum hjá fyrirtækjum fyrir happdrætti félagsins lét hún ekki sitt eftir liggja. Hún safnaði flestum vinningunum og keypti síðan marga miða sjálf ásamt manni sínum Gunnlaugi sem stóð ótrauður við bakið á henni í félagsstarfinu. Sem dæmi um það má nefna að þegar hún gat ekki lengur sinnt þessu vegna veikinda aðstoðaði hann félagið við þetta verkefni og styrkti þar með fjáröflun kvenfélagsins.

Þegar við kvenfélagskonur fórum eitt sinn í sumarferðalag austur í sveitir bauð hún okkur öllum til sín, en þau hjón eiga þar jörðina Gölt. Áttum við þar yndislega kvöldstund með þeim hjónum. Eitt sinn þegar kvenfélagið ætlaði að halda fund í safnaðarheimili Bústaðakirkju bilaði hitakerfi hússins svo ekki var álitlegt að halda fundinn þar. Erla bauð strax að halda fundinn heima hjá sér og þangað var fundurinn fluttur með hraði og þar nutum við einnig gestrisni hennar. Við í Kvenfélagi Bústaðasóknar þökkum henni fyrir áratuga óeigingjarnt starf, sem hefur skipt miklu máli fyrir félagið. Hennar sæti verður vandfyllt.

Við vottum Gunnlaugi og fjölskyldunni og öðrum ættingjum og vinum innilega samúð við fráfall hennar.

Guð blessi minningu hennar.

F.h. Kvenfélags Bústaðasóknar,

Laufey E. Kristjánsdóttir.