Kennari Líta verður á fjármálafræðslu sem forvörn. Að ungt fólk hefji ekki lífið í mínus bara vegna þess að það skorti almenna yfirsýn, kostnaðarvitund og þekkingu, segir Þórunn Elva Bjarkadóttir hér í viðtalinu.
Kennari Líta verður á fjármálafræðslu sem forvörn. Að ungt fólk hefji ekki lífið í mínus bara vegna þess að það skorti almenna yfirsýn, kostnaðarvitund og þekkingu, segir Þórunn Elva Bjarkadóttir hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leiðsögn um frumskóg! Laun, lán, sparnaður vextir, fasteignakaup og heimilisbókhald. Fjármálafræðsla nýtur vinsælda sem sérstakt fag við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Mikilvægt, segir kennarinn.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Þörfin á því að efla fjármálalæsi unga fólksins hefur reynst mikil,“ segir Þórunn Elfa Bjarkadóttir, kennari í samfélagsgreinum við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Í gegnum tíðina hefur verið reiknað með að þekking á þessu sviði komi eiginlega af sjálfu sér og síist inn með reynslu sem lífið færir fólki. Allir fjármálagjörningar í dag eru hins vegar mjög flóknir og hraðinn mikill, svo að skólarnir hafa þurft að bregðast við.“

Vinsælt valfag

Frá haustinu 2018 hefur í FB verið boðið upp á sérstakan áfanga í fjármálum, sem er valfag meðal nemenda. Raunar er fjármálafræðsla í einhverri mynd nú í boði í flestum framhaldsskólum, rétt eins og vera ber samkvæmt aðalnámsskrá. Víða er þetta efni þó kennt með öðru, til dæmis lífsleikni sem grunnfag sem nemendur taka yfirleitt á fyrstu önnum framhaldsskólanámsins þótt vissulega bjóði einhverjir skólar upp á sér fjármálaáfanga.

Í FB er fjármálaáfanginn kenndur tvisvar í viku á önn, klukkustund í senn og gefur tvær námseiningar til stúdentsprófs. Stuðst er við bókina Lífið er rétt að byrja eftir Gunnar Baldvinsson og út frá henni hefur Þórunn svo unnið ýmis verkefni, dæmi og fleira slíkt sem nýtist við kennsluna.

Fræðslan sé óháð

Leiðsögn um fjármál eins og bankarnir hafa boðið upp á fyrir ungt fólk á sér langa sögu. Þórunn Elfa segir allt gott um slíkt að segja en mikilvægt sé að fræðsla þessi sé á vegum óháðs aðila en ekki starfsmanna tiltekinna fjármálafyrirtækja. Lengi vel hafi námsefni hins vegar skort en nú hafi verið leyst úr þeim vanda.

„Þegar við í FB ákváðum að bjóða upp sér áfanga í fjármálafræðslu haustið 2018 vorum við fyrst og fremst að svara kalli. Á skólafundi sem hér er haldinn einu sinni á önn kom fram sú ósk hjá nemendum, sem endurspeglar að krökkunum finnst slíkt skipta máli,“ segir Þórunn, sem kynnir fyrir nemendum hvernig vextir á inn- og útlán reiknast, fer yfir uppbyggingu sparnaðar, þætti í heimilisbókhaldi, fasteignakaup og svo framvegis. Einnig þær leikreglur sem gilda á vinnumarkaði út frá kjarasamningum.

Þórunn segist oft heyra á nemendum sínum að þeim finnist sem því sé tekið sjálfgefnu að þeir kunni til dæmis að lesa launaseðla og hvaða skyldur og réttindi þau hafa gagnvart vinnu. Svo sé þó ekki og þar sem vinna með skóla sé algeng sé mikilvægt að ungmenni hafi grunnatriði vinnuréttarins á hreinu.

„Almenn kostnaðarvitund er sömuleiðis nokkuð sem lærist ekki endilega af sjálfu sér,“ segir Þórunn. „Mörgum reynist erfitt að fóta sig í frumskógi fjármálanna þar sem gylliboðin eru mörg og ekki alltaf auðvelt að sjá skóginn fyrir trjám. Kannski hefur fjármálafræðsla í gegnum tíðina verið einn af þessum þáttum sem ungmenni lærðu í nærumhverfi sínu. Nú eru tímarnir breyttir og í fjölbreyttu samfélagi dagsins í dag hafa ekki allir þá þekkingu og getu sem þarf til að rata í gegnum flókin fjármál.“

Lífið byrji ekki í mínus

Í fjármálafræðslunni í FB koma nemendur gjarnan með sögur og dæmi úr sínu daglega lífi sem á stundum eru tekin til rökræðu og lært af. „Stúlka sem var hjá mér í tímum gerði verkefni um heimilisbókhald og sýndi síðan móður sinni, sem hafði ekki gert slíkt áður. Í framhaldinu ákváðu þær mæðgur í sameiningu að taka þann hátt upp, sem gafst vel,“ segir Þórunn og bætir við að lokum: „Svo hefur maður heyrt um krakka sem eru í ógöngum með fjármál sín. Því þarf bókstaflega að líta á fjármálafræðslu sem forvörn. Það gengur ekki upp að ungt fólk hefji lífið í mínus bara vegna þess að það skorti almenna yfirsýn, kostnaðarvitund og þekkingu á skilmálum lána svo eitthvað sé nefnt. Því er svo óendanlega mikilvægt að fræða krakkana um þessi mál og með þekkingu eru þeim flestir vegir færir í leik jafnt sem starfi.“