Ásta S. Helgadóttir
Ásta S. Helgadóttir
Umboðsmaður skuldara svarar með grein í Morgunblaðinu í gær umfjöllun Staksteina frá því á mánudag þar sem bent var á að ekki væri lengur þörf á stofnuninni en samt sem áður legðu skattgreiðendur enn til hennar nærri 280 milljónir króna.

Umboðsmaður skuldara svarar með grein í Morgunblaðinu í gær umfjöllun Staksteina frá því á mánudag þar sem bent var á að ekki væri lengur þörf á stofnuninni en samt sem áður legðu skattgreiðendur enn til hennar nærri 280 milljónir króna.

Um þetta segir umboðsmaðurinn: „Þetta er beinlínis rangt þar sem gjaldskyldir aðilar (fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög) standa straum af kostnaði en ekki skattgreiðendur.“

Í lögum um embættið kemur einmitt fram að þessir aðilar „skulu standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds í samræmi við ákvæði laga þessara sem rennur í ríkissjóð.“

Þarna er sem sagt um að ræða skatt á þessa aðila sem vitaskuld er svo á endanum greiddur af viðskiptavinum þessara aðila, almenningi.

Sú fullyrðing umboðsmannsins að þjónustan sé „ókeypis“ er auðvitað fjarstæða.

Raunar þarf ekki að fara í lögin til að sjá þetta, því í ársreikningi embættisins sjálfs segir að „framlög ríkisins“ nemi 275.900.000 kr.

Mikilvægt er að ríkisstarfsmenn, ekki síst forstöðumenn, hvað þá þeir sem starfa við að veita ráðgjöf um fjármál, átti sig á þessu samhengi hlutanna.