Flugsýn Stór hluti Súðavíkurþorps var í rúst eftir snjóflóðið sem kom úr Traðargili. Byggð var í framhaldinu reist á nýjum stað.
Flugsýn Stór hluti Súðavíkurþorps var í rúst eftir snjóflóðið sem kom úr Traðargili. Byggð var í framhaldinu reist á nýjum stað. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Í dag, 16. janúar, er liðinn réttur aldarfjórðungur frá því snjóflóð féll á byggðina í Súðavík sem tók með sér fjórtán mannslíf.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í dag, 16. janúar, er liðinn réttur aldarfjórðungur frá því snjóflóð féll á byggðina í Súðavík sem tók með sér fjórtán mannslíf. Ætla má að öllum sem fylgdust með fregnum af þessum atburðum séu þeir í fersku minni, en snjóflóðin tvö á Vestfjörðum árið 1995 eru einn mesti harmleikur sem orðið hefur í íslensku þjóðlífi. Atburðurinn er af þeirri stærðargráðu að flestir muna efalaust hvar þeir voru staddir þegar fréttin barst; andrúm stundarinnar lifir í vitundinni.

„Það versta gerðist“

Snjóflóðið í Súðavík sem var um það bil 200 metra breitt féll kl. 6.25 að morgni á mitt kauptúnið, sem þó hafði ekki verið talið snjóhættusvæði. Fyrr um nóttina höfðu hús innar í þorpinu verið rýmd í varúðarskyni. Þar heitir Traðargil og þar átti snjóflóð eftir að falla síðar á þessum degi og falla á hús, sem þá höfðu verið rýmd. Húsin sem snjóflóðið mikla féll á voru við Túngötu, Nesveg og Njarðarbraut. Í þeim voru 26 manns og fórust 14 þeirra. Þar af voru átta börn og þrjú þeirra systkini. Tólf manns var bjargað, en síðastur fannst á lífi tólf ára drengur 23 klukkutímum eftir að snjóflóðið féll. Leit var lokið að kvöldi 17. janúar, en þá fannst tveggja ára drengur látinn.

„Við erum öll mjög hljóð og döpur. Áfallið kemur sjálfsagt síðar... Og það versta gerðist sem getur gerst í svona. Börn misstu foreldra sína og foreldrar misstu börn,“ sagði Sigríður Hrönn Elíasdóttir, sveitarstjóri í Súðavík, í samtali við Morgunblaðið, 17. janúar.

Umfangsmiklar björgunaraðgerðir

Hamförum þessum olli óvenjulega mikil ofankoma í norðvestlægri átt svo snjó kyngdi niður í fjallshlíðinni. Staðkunnugum var ljóst að hættan var til staðar en bíða átti birtingar á hinni köldu janúarnótt og sjá hvort rýma þyrfti hús, sem reyndist um seinan.

Líkt og kemur fram hér til hliðar hófust aðgerðir heimamanna við leit nokkrum mínútum eftir að flóðið féll og þungi þeirra varð meiri þegar björgunarsveitarmenn, læknar, hjúkrunarfræðingar og lögregla frá Ísafirði náðu á staðinn. Í hjálparliði þessu voru meðal annars menn með sérþjálfaða leitarhunda og er talið að þeir hafi skipt sköpum við aðgerðir og bjargað lífi nokkurra. Alls á fjórða hundrað manns víða af landinu komu að þessum umfangsmiklu björgunaraðgerðum, meðal annars fjölmennt lið sem varðskipið Týr flutti, læknar, hjúkrunarfólk, björgunarsveitarmenn og hjálpargögn. Skipið fór vestur í kröppum sjó og foráttuveði og hafa margir þeir sem voru um borð lýst því hve erfið ferðin var þeim.

Íbúum í þorpinu fækkaði

Hættuástandi í Súðavík var aflýst fyrst fjórum dögum eftir flóðið.

Fáum dögum efir snjóflóðið var farið að huga að nýrri framtíð í Súðavík. Á útmánuðum voru smáhýsi eða sumarhús flutt vestur og þar gat fólk komið sér fyrir til bráðabirgða. Síðar á árinu 1995 hófust svo framkvæmdir við nýja íbúðabyggð í þorpinu, það er á svokölluðu Eyrardalssvæði innar við Álftafjörð á svæði utan snjóflóðahættu. Fólki sem átti hús á skilgreindu hættusvæði bauðst að fá þau greidd út fyrir opinbert fé – og voru alls 55 hús keypt upp. Einnig munaði mikið um aðstoð almennings en í landssöfnuninni Samhugur í verki strax í kjölfar flóðanna söfnuðust um 290 millj. kr. – um 800 millj. kr. reiknað til núvirðis. Þá veitti ríkisstjórnin framlag til uppbyggingar á staðnum sem svarar til 440 millj. kr. á verðlagi líðandi stundar.

Þegar snjóflóðið féll fyrir aldarfjórðungi bjuggu 228 manns í Súðavík em 204 núna. Hamförunum verður ekki einum kennt um undanhald byggðarinnar. Þar koma til fleiri þættir, svo sem breytingar í sjávarútvegi, en fólksfækkunin varð þó efalaust hraðari sakir þess hvað gerst hafði.

Fylgir mér alla ævi

• Í Súðavík í snjóflóðinu fyrir 25 árum • Situr í huga • Torvelt björgunarstarf • Gekk í mál og gerði mitt besta „Snjóflóðið og allt sem því tengist voru hrikalegir atburðir sem munu fylgja mér alla ævi. Tæpast líður sá dagur að eitthvað því tengt komi ekki upp í hugann,“ segir Garðar Sigurgeirsson í Súðavík. Honum eru hamfarirnar fyrir aldarfjórðungi í fersku minni og rifjar þær hér upp.

Síminn á heimili Garðars og Önnu Lindar Ragnarsdóttur konu hans á Nesvegi 11 hringdi fljótlega upp úr klukkan hálfsjö að morgni 16. janúar. Í símanum var Auðunn Karlsson nágranni hans, sem komst svo að orði að húsið sem stóð ofan við hans hefði greinilega tekið ofan í snjóflóði og væri að hálfu komið upp á þakið á sínu húsi. Eitthvað alvarlegt hefði gerst eins og kom á daginn. Í umræddu húsi áttu heima þau Sveinn Salomonsson og Hrafnhildur Þorsteinsdóttir, sem létust bæði. Tveir menn aðrir sem voru í húsinu, sem var nyrst í jaðri snjóflóðsins, sluppu lifandi.

„Við konan mín fórum út og hittum Bjarna Auðunsson og Fjalar Gunnarsson, formann björgunarsveitarinnar. Við gengum inn eftir Nesveginum og á stað þar sem við sáum vel yfir – og gerðum okkur þá ljóst að snjóflóðið hafði fallið yfir allan miðhluta þorpsins og brotið fjölda húsa. Þetta var hrikalegt að sjá, en þegar hér var komið sögu hafði óveðrinu slotað um stund. Það breyttist þó fljótlega og næstu fjóra daga var iðulaus stórhríð sem torveldaði mjög allt björgunarstarf,“ segir Garðar.

Gekk í málin af æðruleysi

Frystihúsið í Súðavík varð afdrep þorpsbúa eftir snjóflóðið og miðstöð björgunarstarfs. Með skóflum og stöngum hófu heimamenn leit, en skriður á aðgerðir komst á ellefta tímanum um morguninn þegar djúpbáturinn Fagranes náði til Súðavíkur frá Ísafirði með björgunarsveitarmenn. Ferjan fór svo til baka síðdegis og með honum fjöldi Súðvíkinga, enda þótti í ljósi aðstæðna ráðlegast að flytja sem flesta á brott. Garðar og nokkrir fleiri voru þó áfram á staðnum. Leiðsögn staðkunnugra var björgunarmönnum mikilvæg og auðveldaði störf þeirra, svo sem við að bera kennsl á fólk sem fannst látið.

„Við aðstæður eins og þarna voru uppi hefur maður ekkert val, heldur bara gengur í málin af æðruleysi og gerir sitt besta. Í svona verkefnum kemur líka fljótt í ljós úr hvaða efni fólk er gert, þó að ég geri hreint ekki lítið úr því að sumum sé þetta um megn. Ég á til dæmis erfitt með að setja mig í spor fólksins sem þarna missti nákomna ættingja og börnin sín. Sjálfur slapp ég vel að því leyti, “ segir Garðar sem dvaldist fram á laugardag í Súðavík. Var þá viðstaddur fjölsótta minningarathöfn um þá sem létust, en henni var útvarpað og þjóðin hlustaði.

Hvatningin var mikilvæg

„Langflestir sem bjuggu hér í snjóflóðinu völdu að vera hér áfram. Þar réði miklu sá stuðningur sem við fengum. Ekki síst höfðu mikið að segja yfirlýsingar og hvatning Vigdísar Finnbogadóttur, þá forseta Íslands, og Davíðs Oddssonar forsætisráðherra,“ segir Garðar, sem býr enn í dag í Súðavík, það er í hverfinu sem var reist eftir snjóflóðin. Er Garðar meðal eigenda Vestfirskra verktaka á Ísafirði og sækir þangað vinnu daglega en reynslan hefur þó kennt honum að gæta vel að veðri á viðsjárverðri leið.

Flóð um miðja nótt féll 19 hús sem í voru 45 manns

Aðstæður í snjóflóðinu á Flateyri í fyrrinótt hafa um margt sama svip og gerðist haustið 1995. Þá féll flóð kl. 4.07 aðfaranótt 26. október þegar flestir íbúanna voru í fastasvefni. Flóðið þá sem kom úr svonefndri Skollahvilft í fjallshlíðinni ofan við bæinn féll á nítján íbúðarhús sem í voru 45 manns. Tuttugu létust. Leit og björgunaraðgerðir heimamanna hófust þá þegar en undir hádegi komu björgunarmenn frá Ísafirði á staðinn. Þeir fundu fjóra á lífi í rústunum, en 21 bjargaðist af eigin rammleik eða með aðstoð nágranna áður en skipulagðar björgunaraðgerðir hófust.

Vel á fjórða hundrað björgunarsveitarmenn héldu til Flateyrar sem meðal annars komu vestur með varðskipi. Aðgerðir tóku alls um hálfan annan sólarhring, en þær voru torsóttar meðal annars sakir þess að snjór var þéttur og harður. Ellefu ára stúlku, Sóleyju Eiríksdóttur, var bjargað eftir að hafa verið níu klukkustundir í köldum snjónum. Sóley er í dag sagnfræðingur og hefur meðal annars skrifað bók um snjóflóðið, Nóttin sem öllu breytti, sem kom út árið 2016.

Varnargarðir reistir

Aðeins efsta húsið, af þeim sem flóðið á Flateyri hreif með sér, taldist á hættusvæði. Sú staðreynd kallaði bæði á umræðu og aðgerðir og í kjölfarið voru reistir miklir varnargarðar á þeim stað þar sem flóðið kom. Sú framkvæmd sannaði fljótt gildi sitt – og enn betur í atburðum líðandi viku.