Hassan Rouhani, forseti Írans, kallaði eftir því í sjónvörpuðu ávarpi sínu í gær að íranska þjóðin sýndi „samstöðu“ eftir mótmæli síðustu daga.

Hassan Rouhani, forseti Írans, kallaði eftir því í sjónvörpuðu ávarpi sínu í gær að íranska þjóðin sýndi „samstöðu“ eftir mótmæli síðustu daga. Þá sagði Rouhani nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á stjórnarfari landsins og að yfirvöld þyrftu að útskýra hvers vegna þau hefðu ekki viðurkennt strax að þau hefðu skotið niður farþegavélina sem hrapaði í nágrenni Teheran í síðustu viku.

Hvatti Rouhani kjörstjórn Írans til þess að leyfa öllum sem vildu bjóða sig fram í þingkosningum, sem fram fara í næsta mánuði, en frambjóðendur til þingsins þurfa alla jafna að sleppa í gegnum nálarauga klerkastjórnarinnar til að fá að bjóða sig fram. „Fólkið er herrar okkar og við erum þjónar þess,“ sagði Rouhani og bætti við að landinu gæti ekki verið stjórnað af einum væng stjórnmálanna.

Rouhani hafnaði einnig hugmyndum Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um að gert yrði nýtt samkomulag um kjarnorkumál Írans, sem að þessu sinni yrði eftir höfði Donalds Trump Bandaríkjaforseta. „Það eina sem Trump hefur gert er að brjóta alþjóðasáttmála og -lög,“ sagði Rouhani í ávarpi sínu.