Steindór Sverrisson fæddist 8. júní 1959. Hann lést 7. janúar 2020.

Útför Steindórs fór fram 15. janúar 2020.

Í dag kveðjum við ástkæran bróðurson minn, Steindór Sverrisson, hinstu kveðju. Í 11 ár eða rúmlega það er hann búinn að heyja harða baráttu við krabbamein. Alveg frá greiningu meinsins var Steindór alltaf opinn um veikindi sín og ræddi um þau sem verkefni sem þyrfti að takast á við. Mér þótti vænt um að hann hringdi eða kom þegar urðu breytingar á meininu. En alltaf horfði hann fram á við. Það var bara tvennt í hans huga; „annaðhvort heldur maður áfram eða leggst með tærnar upp í loft og drepst,“ sagði hann. Ef maður spurði frétta var alltaf allt gott, en við vitum að þetta var mikil þrautaganga. Hann var einstaklega jákvæður og tókst á við veikindin af miklu æðruleysi. Margar skurðaðgerðir og hvert lyfið á fætur öðru sem virkuðu misvel, en virkuðu þó lengst af.

Ég dáðist að þeim hjónum hve yfirveguð þau voru í baráttunni, aldrei nein uppgjöf. Hann var mjög þakklátur fyrir tímann sem hann lifði, talaði oft um hvað hann hefði fengið að upplifa þessi 11 ár, eignaðist fjögur barnabörn og nýtti vel tímann sem hann átti með þeim, enda var hann vinsæll hjá þeim og elskaður.

Þau Hjördís ferðuðust mikið, og öll fjölskyldan, bæði innanlands- og utan. Hann passaði vel upp á að allur barnahópurinn ætti og væri í réttum búningum þegar horft var á boltann, það eru skemmtilegar myndir til frá þessum stundum og þar eru sko allir í réttum klæðnaði. Eitt af áhugamálum hans var stangveiði og var hann farinn að kenna barnabörnunum réttu handtökin.

Heimili Steindórs og Hjördísar er alltaf öllum opið og ófáar máltíðirnar og góðar stundir sem ég hef notið, jafnt virka daga sem aðra. Í mörg ár buðu þau í skötuveislu á Þorláksmessu og á aðfangadags- og gamlárskvöld hefi ég verið boðin og notið þess að vera með þeim. Steindór var listakokkur, sælkeri og mikill matmaður. Hann var lengi kokkur til sjós.

Hugurinn reikar til jóla bernskunnar, jólagjafir hans til ömmu og afa valdi hann alltaf sjálfur, þær voru sérstakar og fallegar. Hugurinn reikar víða þegar litið er til baka í minningabankanum; samvera á Sólbakka fyrr og síðar, ættarmót, veislur, ferðalög, alltaf var Steindór hrókur alls fagnaðar og gott og gaman að vera með honum. Það er erfitt að sætta sig við að stundunum með honum sé lokið.

Það var notalegt seinni árin, á leið í eða úr búðarferð, að koma við í Álfhólunum og fá kaffibolla og spjall. Við sem eftir erum munum reyna að halda vel utan um sameiginlegan barnahópinn okkar og Mikael son Báru. Við erum mörg sem eigum barnafjársjóðinn saman, ég veit að hans verður vel gætt, afar, ömmur og aðrir ástvinir, svo og eldri börnin líka. Allt er þetta fólk sem er til staðar fyrir fjölskylduna, vonandi getum við veitt þeim og hvert öðru styrk og ástúð.

Ég lýk hugleiðingum um kæran frænda. Hann er kominn í Sumarlandið og búinn að hitta þá sem farnir voru. Ég á eftir að sakna Steindórs mikið. Notum vel tímann sem okkur er gefinn í lífinu. Innilegar samúðarkveðjur elsku fjölskylda og Dóra og Ríkharður, ykkar er missirinn mestur.

Votta líka öllum þeim sem þótti vænt um hann samúð mína. Guð geymi Steindór.

Ingibjörg Steindórsdóttir.

Með söknuði kveð ég æskufélaga minn og vin, Steindór Sverrisson. Hann var bekkjarbróðir Hafdísar, eiginkonu minnar, í Barnaskóla Selfoss í austurbæjardeild 1959-árgangsins. Enginn engill frekar en margir aðrir bekkjarfélagar þeirra sem ég kynntist á unglingsárunum og urðu fyrirferðarmiklir í hópi unglinga á Selfossi á þeim tíma. Glókollurinn af Birkivöllunum var öflugur.

Þegar barnaskóla sleppti töldu margir sig fullorðna nánast á einni nóttu. Við Steindór urðum vinir á þeim tíma og síðan vinnufélagar. Við áttum það sameiginlegt að staldra ekki lengur við í menntastofnunum en skyldan bauð. Námshæfileikarnir voru samt í góðu lagi og eflaust hefði getað orðið eitthvað allt annað úr okkur ef þeir hefðu fengið að njóta sín.

Fjölskylda Steindórs fluttist í Laufhagann en bjó um tíma á Írafossi. Hann fékk sumarstarf við gatnagerð á Selfossi og ári síðar vinnu í Steypuiðjunni þar sem við áttum eftir að starfa saman í nokkur ár. Áhugi hans á að reyna fyrir sér til sjós kom fram og sjómannsferillinn tók við, samhliða sumarvinnu hjá okkur og fleiri fyrirtækjum í fyrstu.

Áratugum síðar, árið 2004, kom Steindór aftur til starfa í Set hf. Okkur þótti vænt um að endurheimta vorboðann eins og fyrrum og hann reyndist okkur mjög góður samstarfsmaður og stjórnandi.

Þau Hjördís héldu áfram að mæta á viðburði starfsfólks eftir að hann lét af störfum og hann heimsótti okkur reglulega. Þær stundir eru mér dýrmætar minningar.

Mér kom ekki á óvart hvað Steindór tókst á við erfiðasta verkefni sitt af miklu raunsæi og hafði mikinn andlegan styrk. Hversu vel honum tókst til við það og hversu lengi það varði kom hins vegar á óvart. Honum tókst ætlunarverkið; að staldra miklu lengur við en ætlað var og sjá börn sín vaxa úr grasi og barnabörnin bætast við efnilegan hóp afkomendanna.

Hjördísi, fjölskyldunni og öðrum ættingjum þeirra Steindórs sendum við Hafdís og okkar fólk innilega samúðarkveðju.

Bergsteinn Einarsson.

Nú hefur félagi minn og vinur Steindór Sverrisson kvatt eftir áralanga baráttu við illvígan sjúkdóm. Við Steindór þekktumst síðan við vorum strákar á Selfossi, að minnsta kosti vissum við lengi vel hvor af öðrum. Vinátta okkar hófst þó ekki fyrr en á unglingsárunum. Báðir á fullri ferð í lífsins leit að áhugaverðum hlutum, eins og einbeittir ungir menn hafa hug til.

En lífið skiptist í tímabil og hvert þeirra tekur enda og nýtt tekur við, með öðrum skyldum, öðrum áhugamálum og öðrum áherslum. Á einu þessara tímabila varð því miður aðeins of langt á milli okkar, ég meðal annars í Danmörku og síðar búsettur í Kópavogi, en hann að rækta sinn garð á Selfossi. En eins og oft vill verða þá sækja hlutirnir í sama farið og er óhætt að segja að það hafi gerst eftir að við stofnuðum fjölskyldur. Steindór varð svo lánsamur að giftast Hjördísi Ásgeirsdóttur og eignast með henni yndislegt heimili og tvö börn, Báru og Sverri, en fyrir átti Hjördís dótturina Andreu, sem Steindór leit alla tíð á sem eitt af sínum börnum. Steindór varði miklum tíma með fjölskyldunni, og sinnti hugðarefnum sínum af áhuga, fótbolti og veiði ásamt ferðalögum var það sem hann unni. Ekki skipti það máli hvenær komið var í heimsókn, hvort heldur heima eða heiman, alltaf voru móttökurnar eins og vænta mátti, og sjaldan nein lognmolla. Þau hjónin hafa alla tíð verið dugleg að rækta samskipti við vini og ættingja enda stór hópur sem fylgdi þeim. Eins og gengur gafst ekki alltaf tími til að skjótast yfir heiðina en þá var síminn nýttur til að ræða málefni líðandi stundar, en á þeim hafði Steindór oftar en ekki ákveðnar skoðanir og var fylginn sér.

Þegar maður horfir til baka sést hvað tíminn líður ótrúlega fljótt, upp í hugann koma þær mörgu góðu samverustundir sem við áttum, og þá sérstaklega voru veiðiferðirnar til mikillar gleði. Það var okkur öllum því mikið áfall þegar hann greindi frá veikindum sínum fyrir meira en áratug. Sorgin og óvissan sem fylgir slíku hefur mikil áhrif á alla og þá sérstaklega fjölskylduna. En þá komu bestu eiginleikar Steindórs í ljós; að gefast aldrei upp. Strax frá fyrsta degi var stefnan tekin á lækningu með jákvæðu og einbeittu hugarfari. Þetta ótrúlega viðhorf hreif okkur og sýndi að með viljann að vopni má ná lengra en maður getur ímyndað sér. Á þessum árum hefur hann náð að sjá fjölskylduna vaxa og dafna, sín eigin börn verða að fullorðnu fólki og njóta samverustunda með barnabörnunum fjórum. En baráttan við sjúkdóminn tók sinn toll og lagði að endingu vin minn að velli hinn 7. janúar síðastliðinn. Við sendum fjölskyldunni hlýjar hugsanir og vinarkveðjur á erfiðum tíma, þið vitið að við Sigga verðum til taks þegar þarf á að halda.

Vertu sæll vinur, ég mun alltaf sakna þín.

Jóhann Þórmundsson.

Fallinn er frá vinur okkar, Steindór Sverrisson, eftir hetjulega og langvarandi baráttu við krabbamein. Við höfum verið svo heppin að fá að fylgja Steindóri að í fjöldi ára. Eiginmaður, pabbi og síðast en ekki síst afi voru allt hlutverk sem Steindór uppfyllti með miklum sóma og ást hans á fjölskyldunni stýrði flestu eða öllu sem hann gerði. Ættingi, vinur og félagi voru einnig hlutverk sem honum fórust einstaklega vel úr hendi, hann var afar vinamargur og fjöldi sem vissi hversu gott var að leita til hans með margvísleg mál eða bara til að spjalla.

Margar góðar minningar hafa leitið á okkur, fjölskylduna, síðustu daga og mörg tár fallið. Útilegur þar sem allir fengu að njóta sín, fjölskylduveiðiferðir á ýmsa staði þar sem hann gætti þess að allir sem langaði að veiða, veiddu, því hann var mikil aflakló, fótbolti og fótboltamót, mataráhuginn, grillveislur og spilakvöld svo eitthvað sé nefnt. Steindór var óþreytandi við að hjálpa börnunum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, óháð því hversu gáfulegar þær voru, börnin vissu sem var að ef vantaði að búa eitthvað til eða gera við eitthvað var hann maðurinn sem best var að leita til. Erfði hann þann eiginleika og hugsanlega einnig verkfærakassana frá föður sínum sem hefði áður gegnt þessu hlutverki. Það var alltaf stutt í gleðina og húmorinn og prakkarasvipurinn sem einkenndi hann mun halda áfram að gleðja þá sem hann átti samleið með.

Elsku Hjördís, við höfum fylgst með baráttu ykkar fjölskyldunnar full aðdáunar og lotningar yfir þeim styrk og samheldni sem þið hafið sýnt allt til loka. Á þeim tíma hafa börnin ykkar stækkað og þroskast og fjögur barnabörn fæðst sem hafa notið samvistanna við afa sinn og hann við þau. Við erum óendanlega þakklát fyrir allar þær minningar sem við eigum með Steindóri og víst er að við eigum eftir að halda áfram að rifja upp sögur af Steindóri og gleðjast saman yfir. Missirinn er mikill en minningin lifir.

Elsku Hjördís, Andrea, Bára og Sverrir, og aðrir fjölskyldumeðlimir, okkar innilegustu samúðarkveður.

Emil, Ingibjörg, Ásta Þyri, Arna Ýr og Emil Ásgeir.

Kveðja frá knattspyrnu-deild UMF Selfoss

Félagi okkar, Steindór Sverrisson, er fallinn frá langt um aldur fram.

Hverju samfélagi sem og frjálsum félagasamtökum er lífsnauðsyn að eiga öfluga stuðningsmenn og bakhjarla sem standa vaktina og eru tilbúnir að svara kalli um aðstoð þegar það kemur. Þetta eru liðsmennirnir sem halda þessum samtökum gangandi.

Þannig liðsmann átti knattspyrnudeild UMF Selfoss einmitt í Steindóri Sverrissyni sem alltaf svaraði kallinu, stóð vaktina í miðasölu, flaggaði í bænum á leikdegi, eldaði ofan í leikmenn og gestalið eftir heimaleiki og svo mætti áfram telja.

Steindór var sjálfur iðkandi hjá knattspyrnudeildinni á yngri árum, kappsamur og ákveðinn eins og ávallt þegar kom að íþróttinni hjá honum. Í seinni tíð stóð hann svo vaktina sem foreldri á hliðarlínunni og sjálfboðaliði, ávallt jafn hvatvís og jákvæður.

Steindór var kraftmikill og glaðlyndur félagi. Hann hafði mikla ástríðu fyrir fótboltanum, tók fullan þátt í gleðistundum þegar vel gekk, nú síðast sl. haust er fyrsti stóri titill deildarinnar vannst, bikarmeistaratitill kvenna. Enda var hann gallharður Selfyssingur og vildi sjá liði sínu ganga sem best. Hann mætti á nánast alla leiki og studdi við bakið á liðinu í blíðu og stríðu. Steindór var heldur ekki feiminn við að segja sína skoðun og það var gaman að ræða við hann um fótbolta. Hann var duglegur að hrósa því sem vel var gert en líka gagnrýninn ef honum þótti ástæða til. Hann hafði líka efni á því, var kröfuharður á sitt lið en ekki síður á sjálfan sig. Það var hverjum manni ljóst er þekkti hann og fylgdist með harðvítugri baráttu hans um árabil við hinn illvíga sjúkdóm sem felldi hann að lokum.

Nú kveðjum við þennan öfluga liðsmann okkar af auðmýkt og með djúpu þakklæti. Hans verður sárt saknað. Mestur er þó missir fjölskyldunnar og sendum við Hjördísi og börnum þeirra okkar einlægustu samúðarkveðjur og megi þau öðlast styrk til að takast á við sorg sína.

Blessuð sé minningin um okkar góða félaga Steindór Sverrisson.

F.h. knattspyrnudeildar UMF Selfoss,

Jón Steindór Sveinsson formaður.

Hvað er að frétta! þetta var það fyrsta sem Steindór sagði þegar hann kom í heimsókn eða maður bara hitti hann fyrir utan húsið okkar en við búum í raðhúsi og vorum við því nágrannar. Steindóri kynntumst við fyrir 15 árum og fjölskyldu hans þegar við fluttum á Selfoss, var okkur strax tekið vel frá fyrsta degi. Hann var mjög góður nágranni. Við máttu t.d. aldrei borga í sláttuvélinni og kerran var alltaf laus fyrir okkur, auðvitað reyndum við að borga til baka með því að slá fyrir hann annað slagið. Steindór vildi allt fyrir alla gera. Hann hjálpaði Símoni með að gera klárt fyrir veiði hvort sem var bara hnýta öngla eða bara hvetja hann áfram í veiðinni, hann sjálfur var mjög svo mikill veiðimaður. Steindór var duglegur að fylgjast með veiðinni og ef hann vissi að Símon væri að veiða í Hvítánni kom hann til að vita hvað væri að frétta eða segja hvar fiskur veiddist í gær. Helena var einnig mjög duglega að spyrja hann út í eldamennsku enda var hann mikil kokkur. 27. des. gaf hann henni síðustu ráðin. Mjög oft er elduð kjúklingasúpan sem hann sendi í Dagskrána um árið og núna mun þessi súpa heita Steindórssúpa á mínu heimili. Nokkur gamlárskvöld vorum við með honum og hans fólki úti að skjóta upp rakettum og eftir það var yfirleitt endað inni hjá þeim eitthvað fram á nótt. Barnapössun fyrir okkur var ekkert mál hjá honum. Þegar Sigmar var pínulítill sofandi út í vagni eða vakandi var ekkert mál fyrir Helenu að spyrja Steindór hvort hann væri til í að hlusta eftir honum eða jafnvel hvort hann mætti verða aðeins hjá honum á meðan hún skryppi út í búð. Drengirnir okkar þrír máttu alltaf leita til hans og Hjördísar ef við vorum ekki heima og var maður alltaf mjög öruggur með það. Alltaf er gaman að koma yfir í kaffisopa og spjall og munum við halda því áfram, því alltaf er kaffisopinn góður en því miður munt þú ekki koma gangandi inn í stofu og spyrja okkur hvað sé að frétta? Mikið var rætt um fótbolta þó að þeir Steindór og Símon væru ekki á sama máli um hverjir væru bestir í fótbolta, Steindór sagði Man. Utd en Símon Liverpool. Steindór, við eigum mikið eftir að sakna þín, að fá þig ekki í heimsókn til að tala um fótbolta stjórnmál eða lífið og tilveruna. Hvíldu í friði, kæri vinur.

Hjördís, Andrea, Bára og Sverrir og aðrir ættingjar, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Ykkar nágrannar,

Helena Sif og Símon.