Stofustáss Þorsteinn Sigurðsson og Lilja Kristinsdóttir hafa varðveitt fallbyssukúluna undanfarin ár, eða þar til lögreglan tók hana í sína vörslu.
Stofustáss Þorsteinn Sigurðsson og Lilja Kristinsdóttir hafa varðveitt fallbyssukúluna undanfarin ár, eða þar til lögreglan tók hana í sína vörslu. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Báðar fallbyssukúlurnar sem fundust í Þrídröngum við Eyjar á árinu 1938 eru komnar í leitirnar. Komið hefur í ljós að kúlan sem fannst í geymslu Sagnheima – byggðasafns Vestmanneyja – er önnur þessara kúlna. Hin hefur verið í vörslu fjölskyldu í Vestmannaeyjum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Báðar fallbyssukúlurnar sem fundust í Þrídröngum við Eyjar á árinu 1938 eru komnar í leitirnar. Komið hefur í ljós að kúlan sem fannst í geymslu Sagnheima – byggðasafns Vestmanneyja – er önnur þessara kúlna. Hin hefur verið í vörslu fjölskyldu í Vestmannaeyjum. Landhelgisgæslan telur líklegast að kúlurnar tvær séu úr fallbyssu fransks herskips enda er til heimild um að slíkt skip hafi notað Þrídranga sem skotmark við æfingar.

„Þetta er stórmerkileg saga,“ segir Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Enginn veit hvernig eða hvenær fallbyssukúlan komst í Sagnheima. Önnur kúla, alveg eins, hefur verið varðveitt í fjölskyldu Þorsteins Sigurðssonar á Blátindi í Vestmannaeyjum. Þorsteinn var einn þeirra þriggja ofurhuga sem klifu snarbrattan klettinn á árinu 1938 til að útbúa uppgönguleið til undirbúnings byggingar vitans í Þrídröngum. Tók hann aðra kúluna með sér og varðveitti alla tíð.

Sprengisveitin tók kúluna úr Sagnheimum í sína vörslu strax og hún fannst, og lögreglan fór í gær að beiðni Landhelgisgæslunnar og tók í sína vörslu kúlu Þorsteins. Sigurður segir að þótt margt bendi til þess að kúlurnar séu tómar sé það ekki víst og betra að þær séu geymdar á öruggum stað þar til úr því fæst skorið.

Franskt herskip að skjóta

Kúlurnar sem mennirnir tóku í Þrídröngum voru lausar en í frásögnum þeirra kemur fram að margar kúlur af sömu gerð voru kafreknar í bergið. Sigurmundur Gísli Einarsson í Vestmannaeyjum sá skotin þegar hann var að leika sér á bát við Þrídranga með félögum sínum árið 1974. „Þá sagði afi minn, Gísli Jónsson á Arnarhóli, frá því að franskt herskip hefði verið inni í eyjum að skjóta á Þrídranga. Hann mundi vel eftir þessu. Þetta hefur verið fyrir fyrri heimsstyrjöldina,“ segir Sigurmundur en segir að það kunni einnig að hafa verið á tímum heimsstyrjaldarinnar. Þess má geta að á þessum tíma var fjöldi franskra fiskiskipa að veiðum við landið, meðal annars við Eyjar, og voru aðstoðarskip oft með þeim.

Sigurður hefur verið í sambandi við danska samstarfsmenn sína til að reyna að komast að því úr hvaða skipi eða skipum, eða fallbyssugerð, kúlurnar eru. Þeir hallast að Frakklandi og hafa leitað þangað eftir upplýsingum. Sigurður vill helst ekki þurfa að eyðileggja kúluna til þess að athuga hvort sprengiefni leynist í henni enda verði hún merkur safngripur þegar saga hennar verður ljós.

Börnin léku sér með kúluna

Þorsteinn Sigurðsson, húsasmíðameistari og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, geymdi fallbyssukúluna úr Þrídröngum alltaf í skrifstofu sinni, Káetunni, í húsi sínu Blátindi. Húsið fór undir hraun í eldgosinu en eftir að hann byggði sér nýtt hús eftir gos var kúlan áfram höfð á skrifstofunni. „Mamma og systir hennar léku sér með þessa kúlu þar og við barnabörnin. Börnin mín og barnabörn hafa leikið sér með hana hér í stofunni,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, dóttursonur Þorsteins á Blátindi. Hann segir að mamma hans og systir hennar hafi ekki viljað taka kúluna til sín þegar þær voru að skipta búinu. Afi hans hafi raunar beðið hann sérstaklega fyrir kúluna, þegar hann heimsótti hann einhverju sinni á dvalarheimilið, og ítrekað að hann vildi ekki að hún færi á byggðasafnið.