Hafnarfjarðarkirkja Sjómannanna sem fórust í Halaveðrinu var minnst í gær, nöfn þeirra lesin upp og kertaljós tendruð í minningu þeirra.
Hafnarfjarðarkirkja Sjómannanna sem fórust í Halaveðrinu var minnst í gær, nöfn þeirra lesin upp og kertaljós tendruð í minningu þeirra. — Morgunblaðið/Íris Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Minningarstund var haldin í gær í Hafnarfjarðarkirkju um sjómenn sem fórust í Halaveðrinu mikla 7.-8. febrúar 1925, fyrir 95 árum. Jafnframt var opnuð sögusýning um Halaveðrið í safnaðarheimili kirkjunnar. Hægt verður að skoða sýninguna næstu vikur.

Minningarstund var haldin í gær í Hafnarfjarðarkirkju um sjómenn sem fórust í Halaveðrinu mikla 7.-8. febrúar 1925, fyrir 95 árum. Jafnframt var opnuð sögusýning um Halaveðrið í safnaðarheimili kirkjunnar. Hægt verður að skoða sýninguna næstu vikur. Safnaðarheimilið er opið virka daga kl. 10-16 og á föstudögum kl. 10-12.

Í guðsþjónustunni var sérstaklega minnst 35 sjómanna sem fórust með togaranum Field Marshal Robertson. Sex þeirra voru breskir og 29 íslenskir. Nafn hvers og eins var lesið upp og tendruð kertaljós við minningartöflu í kirkjunni. Sungnir voru sömu sálmar og við minningarathafnir um týndu sjómennina 10. mars 1925.

Hundruð börðust fyrir lífi sínu

Togarinn Field Marshal Robertson var gerður út frá Hafnarfirði af útgerðarfélagi Hellyersbræðra í Hull. Einnig fórust 33 sjómenn með togaranum Leifi heppna frá Reykjavík og sex menn með vélbátnum Sólveigu sem fórst við Stafnes. Fleiri létust bæði á sjó og á landi.

Þegar veðrið skall á voru 16 togarar á Halamiðum og þurftu 400-500 sjómenn að berjast fyrir lífi sínu. Mikil leit var gerð að togurunum tveimur sem týndust og stóð hún frá 12. febrúar og til 5. mars 1925. Haldnar voru minningarstundir í Hafnarfjarðarkirkju og Dómkirkjunni. Á allraheilagramessu 1926 afhenti útgerð Field Marshal Robertson Hafnarfjarðarkirkju minningartöflu um skipverjana 35 sem fórust með togaranum. Taflan er varðveitt í kór kirkjunnar.

Sögusýning um sjóslysin

Séra Þorvaldur Karl Helgason og Egill Þórðarson loftskeytamaður undirbjuggu sögusýningu sem var opnuð í gær í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Þar koma fram ýmsar nýjar upplýsingar.

Séra Þorvaldur grófst fyrir um ættir og uppruna íslensku sjómannanna sem fórust með Field Marshal Robertson. Einnig aflaði hann gagna um landssöfnun sem efnt var til í kjölfar sjóslysanna, minningarathafnirnar sem voru haldnar og fleira. Hann flutti hugleiðingu við minningarstundina og greindi frá því sem hann hafði safnað saman. Gerð er grein fyrir hverjum og einum íslensku skipverjanna á sögusýningunni.

Leiðarbók sýnir leitina

Egill Þórðarson loftskeytamaður vann veggspjöld um Halaveðrið og flutti ávarp við opnun sýningarinnar. Kristinn Halldórsson aðstoðaði hann við að gera samanburð á Field Marshal Robertson og nútíma 45 metra löngu línuskipi hvað stærð og sjóhæfni varðar. Einnig er fjallað um veiðislóðina, veðurþjónustuna, fjarskiptin og áföllin.

Spjald sem gert var með aðstoð Trausta Jónssonar veðurfræðings sýnir veðurathugandir og veðurspár daginn sem Halaveðrið brast á. Einnig er þar nýleg endurgreining á Halaveðrinu sem bandaríska haf- og loftfræðistofnunin NOAA gerði.

Á þriðja spjaldinu er gerð grein fyrir þremur leitum sem gerðar voru að Field Marshal Robertson og Leifi heppna. Í henni tóku þátt danska varðskipið Fylla og meira en 20 togarar. Egill skoðaði leiðarbók Fyllu á skjalasafni í Kaupmannahöfn og gat því sett út siglingu skipsins á kort. gudni@mbl.is