Sævar Sigursteinsson fæddist á Selfossi 6. júlí 1941. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 2. febrúar 2020.

Foreldrar Sævars voru Guðrún Dagbjört Gissurardóttir húsmóðir, f. 1910, d. 1990, og Sigursteinn Ólafsson mótoristi, bílstjóri og síðast afgreiðslumaður, f. 1914, d. 2010.

Sævar ólst upp hjá foreldrum sínum í húsinu Múla á Selfossi, en vegna veikinda móður sinnar sem barðist við berkla var hann langdvölum í æsku hjá föðurfólki sínu á bænum Syðra-Velli í Flóa. Sævar hóf árið 1957 nám í rafvirkjun og fór á námssamning hjá Kaupfélagi Árnesinga. Starfaði þar næstu 16 árin og þá mikið úti í sveitunum. Árið 1973 fór Sævar svo til starfa hjá Rafveitu Selfoss sem HS veitur tóku seinna yfir og vann þar til sjötugs.

Eftirlifandi eiginkona Sævars er Sigrún Gerður Bogadóttir, f. 20. apríl 1948, sjúkraliði á Selfossi. Foreldrar hennar voru Bogi Nikulásson bóndi á Hlíðarbóli í Fljótshlíð og seinna verkamaður á Selfossi, f. 1912, d. 1996, og Ragnhildur Sigurðardóttir bóndi og matráðskona, f. 1918, d. 2011.

Börn Sævars og Gerðar eru: 1) Sigurður Bogi, f. 19. janúar 1971, blaðamaður á Morgunblaðinu. 2) Sigursteinn Gunnar, f. 10. mars 1974, flugvirki hjá Icelandair, búsettur í Sandgerði í Suðurnesjabæ. Eiginkona hans er Nikki Kwan Ledesma, f. 1985. Börn þeirra eru Elías Atli, f. 2018, og Margrét Ólöf, f. 2019. Dætur Sigursteins úr fyrri sambúð eru Alexandra, f. 1994, Ísabella Diljá, f. 2001, Emilíana Eik, f. 2005, og Karólína Katrín, f. 2010. 3) Ragnhildur, f. 22. júní 1982, bú- og náttúrufræðingur, búsett á Hjálmsstöðum í Laugardal í Bláskógabyggð. Eiginmaður hennar er Daníel Pálsson, f. 1981, bóndi og smiður. Börn þeirra eru Kári, f. 2007, Védís, f. 2012, og Dagur Steinn, f. 2015.

Útför Sævars fer fram frá Selfosskirkju í dag, 10. febrúar 2020, og hefst klukkan 13.

Íslandskort, Öldin okkar og Nonnabækurnar sem pabbi minn, Sævar Sigursteinsson, átti opnuðu mér ungum undraheima. Frásagnir fylgdu með og vöktu óstöðvandi áhuga ungs drengs á að kynnast landi, fólki, sögu og málefnum. Við fórum saman þvert og endilagt um Selfossbæ, Suðurland og seinna landið þvert og endilagt til að fræðast og skoða staði. Leiðsögnin var frábær og orðin höfðu alltaf innistæðu en voru sjaldan mörg, því pabbi var í verunni dulur og fremur lokaður maður. Undir skelinni bjó samt einlæg umhyggjusemi gagnvart fólkinu sínu.

Pabbi fæddist á Selfossi og bjó þar alla tíð. Dvaldist þó mikið vegna veikinda móður sinnar hjá föðurfólki sínu á bænum Syðra-Velli í Flóa og minntist daganna þar með gleði og þakklæti. Myndir frá liðnum árum segja frá skemmtilegum æskudögum í bænum við brúna. Pabbi var fjölfræðingur í sögu Selfoss enda mikið á ferðinni, tók marga tali og var áhugasamur um nærsamfélag sitt. Hafði rökstuddar skoðanir á mönnum og málefnum, sem hann lét í ljós ef honum þótti ástæða til. Þau tilefni voru ekki endilega mörg, en vel valin.

Á yngri árum starfaði pabbi mikið úti í sveitunum sem rafvirki og átti þar sína bestu daga í starfi. Tók þátt í að rafvæða dreifbýlið og sagði mér margt um straumhvörfin sem urðu til dæmis á afskekktum bæjum þegar blessað rafmagnið kom. Rafvirkinn var af lýsingunum að dæma rammgöldróttur og verkfæri hans töfrasprotar. Hann kynntist á þessum tíma fjölda fólks úti um sveitir og eignaðist þar með lífstíðarvini. Starfsvettvangurinn var þó lengst við rafveituna á Selfossi eða 38 ár. Lagði strengi, setti upp staura og skipti um perur í ljósastaurum. Og mörg voru þau aðfangadagskvöldin þegar rafmagn sló út, að hann var ræstur út til að kippa málum í liðinn. Ljósameistari jólanna.

Engan veit ég jafn nægjusaman og pabbi minn var. Skyr og brauðsneið nægðu svo úr yrði veisla, sjónvarpsfréttir, Rás 1 og Mogginn dugðu sem andleg næring og dagleg ferðalög náðu sjaldan út fyrir bæjarmörkin, að minnsta kosti síðustu árin. Heimsótti þá gjarnan Björn Jensen frænda sinn, en milli þeirra voru sterk bönd og vinátta til síðustu stundar.

Við systkinin og nánasta fjölskylda sátum hjá pabba síðustu dagana. Margt rifjaðist upp, góðar og glaðar stundir og bjartar minningar. Ég tók mér hlé frá vaktinni við sjúkrabeðinn og fór niður í fjöru við Stokkseyri, en þangað fórum við feðgar svo oft í gamla daga til að sjá svarrandi brimið og fylgjast með fuglum og bátum. „Vorið byrjar alltaf við sjóinn,“ sagði pabbi þá gjarnan, svo vel sem hann fylgdist með öllu í gangverki náttúrunnar. Og víst var ég ofurlítið meyr vitandi að stundaglasið væri að tæmast. Allt mun þó áfram streyma og nú er daginn farið vel að lengja og ástæða til bjartsýni. Pabbi hefði ekki tekið annað í mál nú þegar vorið er á næsta leiti.

Sigurður Bogi Sævarsson.

Í dag kveðjum við frænda okkar, vin og samferðamann, Sævar Sigursteinsson. Samfylgdin hefur varað öll okkar bernsku- og fullorðinsár. Bernsku- og æskuárin okkar Sævars bjuggum við í Múla á Selfossi. Uppi bjuggu Sigursteinn og Guðrún og Sævar einkabarn þeirra. Niðri bjó fjölskylda Jónu systur, Guðrúnar, ásamt Katrínu móður þeirra, Robert föður okkar og við þrjú systkinin. Húsnæðið var nú ekki stórt á mælikvarða nútímans en sambýlið var alla tíð hið besta. Við systkinin niðri nutum þess að eiga aukaforeldra uppi, því alltaf vorum við velkomin á loftið.

Síðar þegar búsetunni í Múla lauk höguðu atvikin því svo að systurnar fluttu báðar á Sunnuveginn í hús hlið við hlið, svo að fjarlægðin var aldrei mikil á milli þeirra, enda einstaklega samrýndar. Síðar byggði Björn sér hús við hlið Steina og Gunnu. Sævar hóf svo sinn búskap í húsi foreldra sinna. Þannig að þessi litla fjölskylda bjó lengi í góðu nábýli. Að leiðarlokum viljum við þakka samfylgdina öll árin.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Gerði, Sigga Boga, Steina og Ragnhildi og fjölskyldum þeirra.

Björn og Jóhanna Jensen.