Óhapp Rannsókn stendur yfir á því hvað olli því að hjólabúnaðurinn gaf sig.
Óhapp Rannsókn stendur yfir á því hvað olli því að hjólabúnaðurinn gaf sig. — Ljósmynd/Aðsend
Guðni Einarsson Þór Steinarsson Lendingarbúnaður þotu Icelandair sem hlekktist á í lendingu á Keflavíkurflugvelli á föstudag var settur nýr undir flugvélina í janúar sl. Flugfréttavefurinn The Aviation Herald greindi frá þessu.

Guðni Einarsson

Þór Steinarsson

Lendingarbúnaður þotu Icelandair sem hlekktist á í lendingu á Keflavíkurflugvelli á föstudag var settur nýr undir flugvélina í janúar sl. Flugfréttavefurinn The Aviation Herald greindi frá þessu. Þar var sagt að bolta, sem hélt lendingarbúnaðinum saman, hefði vantað.

Flugvélin var flutt í flugskýli síðdegis á laugardag. Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) vinnur að rannsókn á flugvélinni og því sem fór úrskeiðis.

„Rannsókninni miðar ágætlega,“ sagði Ragnar Guðmundsson, flugvélaverkfræðingur hjá RNSA og stjórnandi rannsóknarinnar. Hann sagði að RNSA myndi afhenda Icelandair flugvélina þegar frumrannsókn lyki. Reynt yrði að vinna verkið fljótt og vel.

„Það var ekki mikilvægur bolti sem vantaði,“ sagði Ragnar þegar hann var spurður um það sem The Aviation Herald hélt fram. Hann kvaðst ekki vera tilbúinn til að tjá sig nánar um einstök atriði rannsóknarinnar. Að sögn The Aviation Herald var flugvélin búin að fljúga um 70 leggi frá því að skipt var um lendingarbúnaðinn.

Von á erlendum aðilum

„Þegar verða annaðhvort slys eða alvarleg flugatvik eru nokkur ríki sem alltaf taka þátt í rannsókninni. Það er ríki framleiðanda sem í þessu tilviki er Bandaríkin. Við erum búnir að tilkynna þetta til NTSB (rannsóknarnefndar samgönguslysa í Bandaríkjunum). Við höfum einnig tilkynnt þetta til systurstofnana okkar í öðrum ríkjum sem að öllum líkindum koma einnig að rannsókninni þar með talin Bretland og Kanada,“ sagði Ragnar. Hann sagði of snemmt að segja hvort þeir sem skiptu um hjólabúnaðinn komi hingað eða hvort hlutir verða sendir til þeirra.

Ómögulegt er að segja til um það á þessu stigi hvað fullnaðarrannsókn atviksins mun taka langan tíma. Ragnar sagði það hafa áhrif á gang hennar ef senda þyrfti hluti í ítarlegar greiningar og rannsóknir. Slík vinna gæti verið mjög sérhæfð. Hann sagði að skipt væri um hjólabúnað í flugvélum samkvæmt fyrirframgerðri áætlun. Fyrirtæki sem veittu slíka þjónustu ynnu samkvæmt áætlun og væru bókuð langt fram í tímann. Því gæti þurft að bíða til að komast að með svona verkefni.

RNSA mun ekki leggja mat á það hvort hægt verður að laga flugvélina og gera hana flughæfa á ný. Ragnar sagði það vera á ábyrgð flugrekandans. Hann þyrfti að afla heimilda hjá flugmálayfirvöldum sem þyrftu að votta slíka viðgerð.