Forvörn Gyða Kristjánsdóttir segir Siðferðisgáttina mikilvægt tæki.
Forvörn Gyða Kristjánsdóttir segir Siðferðisgáttina mikilvægt tæki. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við höfum fundið að forvarnargildið er mjög sterkt. Fólk veit að það verður tekið á málinu ef það kemst upp.

„Við höfum fundið að forvarnargildið er mjög sterkt. Fólk veit að það verður tekið á málinu ef það kemst upp. Og það er það sem þetta snýst um; að koma í veg fyrir málin áður en þau verða til,“ segir Gyða Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi.

Fyrirtækið kynnti fyrir ári til sögunnar Siðferðisgáttina, nýja þjónustu fyrir fyrirtæki svo þau geti boðið starfsmönnum sínum farveg ef þeir verða fyrir óæskilegri háttsemi á vinnustað. Er þar átt við kynferðislega áreitni, einelti, samskiptamál og annað sem getur valdið fólki vanlíðan á vinnustað. Kveikjan að þessu var #MeToo-byltingin og umræða um vinnustaðamenningu og leiðir til að breyta henni.

Gyða segir í samtali við Morgunblaðið að þjónustunni hafi verið vel tekið fyrsta árið og augljóst sé að þörf sé á þjónustu af þessu tagi. Um tíu fyrirtæki hafa nýtt sér þjónustuna fyrir starfsfólk sitt og segir Gyða að viðkomandi fyrirtæki hafi hjálpað starfsfólki Hagvangs að móta starfsemina. Bjartsýni ríki um að Siðferðisgáttin muni í framtíðinni styðja vel við öflugt forvarnarstarf hjá fyrirtækjum sem leggja sífellt aukna áherslu á heilbrigðara starfsumhverfi fyrir sitt fólk. „Því trúum við því að Siðferðisgáttin sé öflugt forvarnartæki. Það hafa alls konar mál komið inn á borð til okkar og við sjáum að þetta er komið til að vera. Þetta er ekki tímabundinn plástur,“ segir Gyða sem kveðst hafa orðið vör við áhuga á þjónustunni, jafnvel þótt hún hafi ekki verið auglýst sérstaklega. „Við höfum fengið fyrirspurnir frá þó nokkuð mörgum starfsmönnum fyrirtækja og stofnana um það hvernig hægt sé að koma þjónustunni á framfæri við stjórnendur þar. Það þykir þörf á því.“ hdm@mbl.is