Viðar H. Guðjohnsen
Viðar H. Guðjohnsen
Eftir Viðar Guðjohnsen: "Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður í kringum kröfu um frjálsa þjóð í frjálsu landi."

Það er ekki að ástæðulausu að fylgi Sjálfstæðisflokksins er okkur flokksmönnum hugleikið þessa dagana. Fylgið hefur helmingast á tiltölulega skömmum tíma og mörg góð flokkssystkin hafa yfirgefið flokkinn. Fyrir þessari alvarlegu stöðu eru nokkrar ástæður en stórsókn breska Íhaldsflokksins sýnir að hægt er að snúa við af vondri leið með góðum áherslum og virðingu fyrir upprunanum. Með vilja flokksmanna og forystu er hægt að sigra á ný en þá verður forystan að átta sig á því að eitthvað þarf að breytast. Í umræðunni um þriðja orkupakkann var vilji flokksmanna hafður að engu og flokksmenn uppnefndir einangrunarsinnar og gamalmenni því þeir voru mótfallnir innleiðingunni.

Hvað sem stjórnmálamenn reyna að telja mönnum trú um hefur stefna Evrópusambandsins nú tekið yfir málaflokkinn. Það er mjög alvarlegt að við megum ekki lengur hafa okkar eigin orkustefnu nema í þeim tilfellum sem hún fellur inn í flókna stefnu sambandsins. Varla er hægt að tala um sjálfstæða orkustefnu í slíku árferði og allt tal um annað eykur vantraust á þeim sem því heldur fram. Menn geta stofnað nefndir eða skrifað fallegar skýrslur hér heima til að fegra en staðreyndirnar í regluverkinu breytast ekki.

Orkustefna Íslands gekk alltaf út á það að hið opinbera átti og sá um rekstur orkuvera en með þeirri stefnu dreifðist auðurinn til fyrirtækja og almennings með lágu orkuverði. Sátt ríkti um að náttúrunni yrði stundum fórnað því dreifingin á auðnum var með slíkum hætti. Dreifikerfið og framleiðslan gátu jafnframt lifað góðu samlífi og ekki þurfti risastóran eftirlitsiðnað. Það þurfti heldur ekki hina nýju stétt orkumiðlara til þess að taka einhverja hlutdeild og orkan var sú ódýrasta sem völ var á.

Stjórnmálamenn þurfa að gæta sín betur og jafnframt huga að upprunanum, sérstaklega á tímum þegar falsfréttir fjölmiðla og múgmennska spúir eitri inn í hjörtu fólks.

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður í kringum kröfu um frjálsa þjóð í frjálsu landi. Sú krafa hvarf ekki við lýðveldisstofnun. Jón Þorláksson benti á, stuttu eftir stofnun flokksins, að það er ekki nóg að berjast fyrir sjálfstæðinu. Ávallt þarf að halda vörð þar um þegar sjálfstæðið er fengið. Með öðrum orðum. Það er ekki nóg að berjast fyrir frelsinu, fengið frelsi þarf að verja.

Sjálfstæðisflokkurinn er frjálslyndur íhaldsflokkur. Íhaldsstefnan, eða varðveislustefnan eins og hún hefur stundum verið nefnd, byggist á hugarfari um að varðveita það sem vel hefur gefist, að varðveita fullveldið, að varðveita það sem sameinar okkur sem þjóð; hið fallega tungumál, hina einstöku mannanafnahefð, hinn hreina og mannúðlega landbúnað, hinn sterka sjávarútveg, kirkjuna sem ver og ræktar tengsl okkar við Guð, hjónabandið sem er burðarstoð fjölskyldunnar og fjölskylduna sem er grunnur samfélagsins.

Þetta þarf að varðveita, jafnvel þótt það kosti átök og að menn verði uppnefndir og lítillækkaðir sem brotamenn óljósra tjáningarglæpa. Ísland er eina samfélagið í veröldinni sem við getum kallað heimili. Klakinn kann að vera kaldur en hann er samt okkar. Stjórnmálamenn hafa engan rétt á því að tefla öryggi eða samstöðu þjóðarinnar í tvísýnu fyrir stundarávinning gervigóðmennsku eins og gerst hefur hjá nágrönnum okkar og allir vita en ekki má víst nefna.

Það er mikilvægt að ítreka og vekja athygli á þessum gildum Sjálfstæðisflokksins því ekki hefur verið hugað að þeim upp á síðkastið. Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins voru lögfestar margskonar varnir sem bæði efldu frelsisvitund og samheldni á meðal landsmanna. Það var á slíkum gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn sigraði hug og hjörtu þjóðarinnar og á þeim getur hann unnið til baka hið glataða fylgi enda eru það þessi gildi sem eiga undir högg að sækja nú þegar hverslags umrót er framkvæmt undir frjálslyndum merkjum.

Umrót, sú tilhneiging að vilja umturna í stað þess að varðveita, er andstæða íhalds og tengist ekki á nokkurn hátt frjálslyndi eins og oft er haldið fram. Þennan hugtakamisskilning þarf að leggja mikla áherslu á að leiðrétta því hann á sinn þátt í sókn stjórnlyndra umrótsflokka sem þykjast frjálslyndir. Andstæða frjálslyndis er stjórnlyndi og lýsir sér í tilhneigingu að vilja gerast annarra manna forráðamaður.

Stjórnmálamaður sem hefur litla þekkingu á upprunanum er óviss um hvað hann vill eða á hvaða gildum flokkurinn sinn var stofnaður, mun alltaf missa fótfestuna og leitast við að þóknast öllum þegar hinar og þessar falsfréttir birtast. Að lokum mun hann þó ekki þóknast neinum en með atferli sínu kynda undir múgæði og ósamstöðu. Rétt eins mun útsjónarsamur stjórnmálamaður sem veit hvað hann vill, þekkir og temur sér tryggð við grunngildi flokksins síns, auka velvild og traust í sinn garð. Slíkur stjórnmálamaður skeytir ekki um pólitíska vinda; hann siglir vindinn, hlúir að sannfæringu sinni og sýnir grunngildunum hollustu. Grunngildin eru hans hái turn sem gegnir hlutverki vitans í hinu síbreytilega pólitíska veðurfari. Með þeim hætti getur hann brotið niður illt umtal og falsfréttir á þeim stað sem það skiptir máli – í hjörtum landsmanna.

Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.