Ólöf Sigríður Rafnsdóttir fæddist 13. júlí 1946 í Reykjavík. Hún lést 30. janúar 2020. Foreldrar hennar voru Auður Pálsdóttir, f. 10. september 1928 í Reykjavík, d. 1. maí 1947 í Reykjavík, og Rafn Sigurvinsson, f. 14. mars 1924 í Ólafsvík, d. 13. janúar 1996 í Reykjavík. Systkini Ólafar samfeðra eru Sveinn og Björg.

Ólöf giftist 15. nóvember 1969 Halldóri Þorláki Sigurðssyni, f. 11. október 1947. Þau skildu. Dætur þeirra eru: Sólveig, f. 10. júní 1971, og Kristín Auður, f. 28. október 1975, eiginmaður Þorsteinn Sigurður Guðjónsson. Börn þeirra eru Atli Rafn, f. 16. febrúar 2012, og Baldur Orri, f. 29. júlí 2015. Ólöf giftist 8. júní 1985 Hrafni Ingvari Gunnarssyni, f. 2. október 1950. Þau skildu. Börn þeirra eru: Gunnar Páll, f. 7. maí 1982, og Ólöf Jóhanna, f. 4. mars 1988, maki Mats Anderson. Börn þeirra eru Saga Ólöf, f. 15. nóvember 2014, og Theo Hrafn, f. 17. júní 2017. Ólöf giftist Arnóri Þórðarsyni, f. 18. október 1932, d. 31 ágúst 2015. Dætur Arnórs eru Erna og Hulda.

Ólöf lauk kennaranámi frá Kennaraskóla Íslands og starfaði sem grunnskólakennari meðal annars í Kársnesskóla og Fossvogsskóla. Ólöf lét af störfum vegna veikinda.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 10. febrúar 2020, klukkan 13.

Ég heyrði þá syngja, ég sá er þeir flugu

mót svalandi blænum,

þá grænt var í hlíðum og geisladýrð hvíldi

sem gull yfir sænum.

En loftvegir blánuðu, laðandi fjarri,

hve langt var að ströndum.

Og vorskýin mændu, sem

marmarahallir,

í morgunsins löndum.

Ég bað, er þeir hurfu mér hátt yfir fjöllin

og hreimarnir eyddust,

að þeir mættu líða eins langt út í geiminn

og litirnir breiddust.

– Í hafið þeir féllu – og hljótt er nú orðið

að háfjallabaki,

þar heyrist ei bergmál af blíðróma söngum

né blikvængjataki.

En loftvegir blána í laðandi fjarska;

hve langt er að ströndum!

Og hver veit þó nema að svanir þeir syngi

í sólfegri löndum?

(Hulda)

Sólveig

Halldórsdóttir.

Mig langar til að minnast Ólafar, fyrrverandi mágkonu minnar, með nokkrum orðum, hæfileikaríka kennaranemans sem kom inn í líf okkar þegar ég var barn að aldri. Hún var fyrsta tengdabarnið í fjölskyldunni og fannst mér, krakkanum, hún einstaklega spennandi. Hún var líka dálítið framandi þar sem hún kom úr umhverfi listrænna bóhema og úr fjölskyldu þar sem flækjustigið var mun meira en við áttum að venjast okkar megin. Hún var á fyrsta ári þegar ung móðir hennar lést. Hún var öllum harmdauði. Fyrstu árin ólst Ólöf upp hjá móðurömmu sinni, sem reyndist henni alla tíð afar vel.

Ólöf var frjó í hugsun, skemmtileg, viðræðugóð, listræn en viðkvæm. Hún hafði stundað nám í píanóleik í Tónlistarskólanum og myndlistarnám og ég leit mjög upp til þessarar flottu ungu konu og reyndi að apa teikningarnar eftir henni með misgóðum árangri. Hún tengdist einnig inn í flugið, en Rafn faðir hennar, sá ljúfi maður, hafði unnið sem loftskeytamaður á vélum Flugfélags Íslands.

Eftir að hún lauk kennaranámi kenndi hún eitt ár í grunnskólanum í Hveragerði. Síðan kenndi hún um tíma í Kársnesskóla áður en hún hóf störf í Fossvogsskóla sem var starfsvettvangur hennar lengst af meðan heilsa leyfði. Þetta var á upphafsárum Rauðsokkahreyfingarinnar og auðvitað var ég sammála henni um að hæfileikar kvenna ættu að blómstra rétt sem karla. Þetta var líka á fyrstu árum Listahátíðar í Reykjavík og voru sóttir á þessum árum fjölmargir tónleikar sem nú eru komnir á spjöld sögunnar.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Ólöfu og örlaganornirnar spunnu sína snörpu þræði sem skildu eftir ör á fjölda sálna. Erfiðar aðstæður í lífi hennar urðu til þess að leiðir skildi þegar elstu dætur hennar tvær voru ennþá börn. Þær fylgdu föður sínum sem ól þær upp og naut við það aðstoðar foreldra okkar fyrstu árin og einnig okkar systranna. Ef það væri ekki fyrir hana Ólöfu þá ætti ég ekki yndislegu, hæfileikaríku og duglegu frænkurnar sem leikið hafa stór hlutverk í lífi mínu frá því að ég var táningur.

Innilegar samúðarkveðjur til barna Ólafar, barnabarna, systkina og móðursystur. Það er ósk mín að góðir kraftar hafi tekið vel á móti henni og muni varðveita hana.

Kristín.