Grímur Í fjöldabrúðkaupi í Suður-Kóreu í gær huldu margir vit sín til þess að forðast smit. Þar hafa 24 tilfelli veirunnar greinst. 260 eru í sóttkví.
Grímur Í fjöldabrúðkaupi í Suður-Kóreu í gær huldu margir vit sín til þess að forðast smit. Þar hafa 24 tilfelli veirunnar greinst. 260 eru í sóttkví. — AFP
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Að minnsta kosti 813 eru látnir af völdum kórónuveirunnar sem á upptök sín í Wuhan í Kína. Veiran hefur því dregið fleiri til dauða en hin mannskæða SARS-veira sem varð 774 að bana á árunum 2002 og 2003.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Að minnsta kosti 813 eru látnir af völdum kórónuveirunnar sem á upptök sín í Wuhan í Kína.

Veiran hefur því dregið fleiri til dauða en hin mannskæða SARS-veira sem varð 774 að bana á árunum 2002 og 2003.

Allir nema tveir þeirra látnu létust á meginlandi Kína, að því er fram kemur í frétt BBC.

Um 35.000 manns hafa sýkst af veirunni, langflestir í Kína.

Í gær var um 3.600 manns hleypt af skemmtiferðaskipi í Hong Kong sem höfðu verið þar í sóttkví í fjóra daga. Þeim var hleypt af skipinu eftir að rannsóknir leiddu í ljós að farþegar skipsins væru ekki sýktir.

Rasísk viðbrögð við veiru

Farþegar annars skemmtiferðaskips sem liggur við japanska höfn eru þó ekki jafn heppnir. Farþegar og áhöfn eru 3.711 talsins og hafa þau verið í sóttkví í sex daga. Tugir farþega skipsins eru smitaðir af veirunni og því ekki útlit fyrir að þeim verði hleypt frá borði í bráð.

Veiran hefur vakið rasísk viðbrögð víða um heim og eru dæmi um að fólk af asískum uppruna sé litið hornauga vegna hennar.

mbl.is greindi frá því um helgina að asískir íbúar Finnlands hefðu orðið fyrir aðkasti og upplifað ótta og óbeit á götum úti vegna veirunnar. Borið hefur á því að notendur almenningssamgangna forðist að sitja nálægt fólki af asískum uppruna, börn asískra innflytjenda verði fyrir aðkasti í skólum og vegfarendur hrópi fúkyrði að fólki af asískum uppruna.

Sömu sögu er að segja af Bretlandi en Guardian greindi frá því í gær að eigendur asískra veitingastaða í Bretlandi fyndu fyrir samdrætti eftir að umræða um veiruna komst í hámæli og fólk af asískum uppruna hefði orðið fyrir aðkasti.