Verkfallsvarsla Verkfallsverðir heimsóttu um 116 vinnustaði í vinnustöðvun á fimmtudag. Sólveig segir að eitt mögulegt brot hafi komið upp.
Verkfallsvarsla Verkfallsverðir heimsóttu um 116 vinnustaði í vinnustöðvun á fimmtudag. Sólveig segir að eitt mögulegt brot hafi komið upp. — Morgunblaðið/Eggert
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Engar samningaviðræður áttu sér stað á milli Eflingar og Reykjavíkurborgar um helgina vegna kjarasamninga félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Engar samningaviðræður áttu sér stað á milli Eflingar og Reykjavíkurborgar um helgina vegna kjarasamninga félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Næsti fundur Eflingar og borgarinnar er í dag klukkan tvö. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að af málflutningi borgarstjóra að dæma muni lítið koma út úr þeim fundi.

Ef samningar nást ekki í dag eða fyrir hádegi á morgun fer starfsfólk Eflingar sem vinnur hjá borginni, þar á meðal starfsfólk á leikskólum og hjúkrunarheimilum, í verkfall á morgun frá klukkan 12.30 til klukkan 23.59.

Sólveig Anna segir að á síðasta fundi hafi Efling krafist þess að samninganefnd Reykjavíkurborgar kæmi með nýjar lausnir á samningaborðið, á það hafi ekki endilega verið hlustað.

„Miðað við málflutning borgarstjóra í Silfrinu virðist hann því miður algjörlega genginn í björg og virðist alls ekki vera búinn að hlusta á okkar málflutning og heyra hvað við höfum að segja og spólar bara í sama farinu,“ segir Sólveig Anna.

Í Silfrinu í gær sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að ef borgin samþykkti kröfur Eflingar myndu laun ófaglærðra færast hættulega nálægt launum faglærðra. Við því segir Sólveig að hún vinni fyrir sína félagsmenn og faglært starfsfólk leikskólanna hafi sýnt kjarabaráttu þeirra mikinn stuðning.

Vinnustöðvanir
» Í komandi viku eru þrjár vinnustöðvanir fyrirhugaðar hjá starfsmönnum Eflingar.
» Auk vinnustöðvunarinnar á morgun verða vinnustöðvanir allan daginn á miðvikudag og fimmtudag.
» Semjist ekki í vikunni hefst ótímabundin vinnustöðvun mánudaginn 17. febrúar.