Samkvæmt frétt á vef The Telegraph um helgina eru ríki Evrópusambandsins enn að herða kröfurnar gagnvart veiðum í breskri lögsögu. Orðalag sem hingað til mun hafa verið í kröfugerð Evrópusambandsins, að áfram verði „byggt á“ þeim aðgangi sem ríki ESB hafa að breskum miðum, hefur sætt gagnrýni ríkja ESB og nú er krafan um að samningamenn sambandsins fari fram á að núverandi réttindi „haldi sér“ að fullu til framtíðar.

Samkvæmt frétt á vef The Telegraph um helgina eru ríki Evrópusambandsins enn að herða kröfurnar gagnvart veiðum í breskri lögsögu. Orðalag sem hingað til mun hafa verið í kröfugerð Evrópusambandsins, að áfram verði „byggt á“ þeim aðgangi sem ríki ESB hafa að breskum miðum, hefur sætt gagnrýni ríkja ESB og nú er krafan um að samningamenn sambandsins fari fram á að núverandi réttindi „haldi sér“ að fullu til framtíðar.

Nógu slæmt væri fyrir Breta, og auðvitað algerlega óviðunandi, að byggja ætti á fyrri aðgangi eftir að landið er sloppið úr sambandinu. Að gera kröfu um að engin breyting verði á aðgangi Evrópusambandsríkjanna að fiskveiðilandhelgi Bretlands er vitaskuld fráleitt, en sýnir hve langt ríki Evrópusambandsins eru reiðubúin að ganga gagnvart fullveldi annarra ríkja.

Krafan sýnir vitaskuld líka viðhorfið gagnvart því að sleppa ríkjum lausum úr neti sambandsins sem einu sinni hafa álpast í það.

Það er verulegt áhyggjuefni að hér á landi skuli enn vera starfandi stjórnmálaflokkar sem berjast, leynt eða ljóst, fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og þetta er enn alvarlega þegar haft er í huga að enginn þessara flokka hefur lýst efasemdum eða breytt stefnu sinni í þessum efnum við að fylgjast með hremmingum Breta við að reyna að koma sér úr klóm ESB.

Fram undan er líklega tæpt ár af átökum Breta við Brussel-elítuna um að reyna að koma á eðlilegum samskiptum. Samkvæmt frétt The Telegraph er þó jafnvel talið að harkan sé slík að upp úr viðræðunum kunni að slitna strax í vor. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig stuðningsflokkar Evrópusambandsins hér á landi munu bregðast við áframhaldandi óbilgirni sambandsins í garð Breta. Ef þeir telja áfram að hún skipti engu þá er það í meira lagi umhugsunarvert fyrir íslenska kjósendur.