Jóhann J. Ólafsson
Jóhann J. Ólafsson
Eftir Jóhann J. Ólafsson: "Meiri eignajöfnuður í þjóðfélaginu gæti verið þáttur í að milda afleiðingar fjórðu iðnbyltingarinnar og gefa fólki meira svigrúm og tíma til þess að bregðast við."

Um mannlega hegðun er fjallað í stóru ritverki eftir Ludwig von Mises, „Human Action“. Mannleg hegðun er vilji, val í framkvæmd. Frjáls maður getur valið. Hann velur yfirleitt það sem bætir stöðu hans í hinu stóra og víða samhengi lífsins.

En menn hafa ekki allir alltaf verið frjálsir. Hin mikla stéttaskipting leyfði aðeins litlum meirihluta – yfirstéttinni – að búa við frelsi. Allt of margir voru þrælar. Þrællinn var háður alræði húsbónda síns og átti ekkert val til að bæta stöðu sína. Hann gat bara dregið úr vinnuframlagi sínu, en þá var svipunni beitt miskunnarlaust. Þrællinn hafði engan hvata til að bæta vinnu sína, eða auka afköst sín. Þrælahald var sóun mannlegra hæfileika. Þrælavinna varð því með tímanum úrelt og stóðst ekki samkeppni við launaða vinnu, þar sem aðilar skiptu með sér afköstum vinnunnar og greitt var fyrir betri afköst og hugvit. En þróunin var víða hæg vegna einokunar aðalsmanna á landi og eignum lénsskipulagsins. Eignarréttur var ekki viðurkenndur né verndaður nema hjá yfirstéttinni, aðlinum, með valdi. Í frönsku byltingunni 1789 eru forréttindi aðalsins afnumin og mannréttindi lögleidd með stjórnarskrá. Ein þýðingarmestu mannréttindin eru eignarrétturinn, því eignir eru sem fyrr segir (Mbl. 23.1. 2020) mikil undirstaða valda og betra lífs. Í þeim liggur máttur eigandans til þroska og framfara. Í bókinni „Auðfræði“ (Hið ísl. bókmf. 1880, bls. 28) eftir Arnljót Ólafsson, fyrsta hagfræðing landsins, segir: „Vér höfum séð og vér höfum reynt, að vér hljótum að vinna, og það oftlega þunga vinnu og erfiða, til þess að fá bætt úr þörfum vorum. Nú mundi enginn vilja leggja á sig erfiði, nema hann fengi sjálfur að njóta ávaxtanna af vinnu sinni, allra þeirra fjármuna er hann ávinnur sér með henni. Eignarrétturinn er því nauðsynlegt skilyrði þess, að vér viljum leggja á oss vinnu og erfiði. Nauðsyn og gagn eignarréttarins viðurkenna nú eflaust allir.“

Þegar fyrirkomulagið er þannig hjá hinu opinbera að allir eiga, óháð frammistöðu, að vinna fyrir sömu laun í viðkomandi launaflokkum og allir eiga að vita um launakjör allra, er minna svigrúm til að umbuna fyrir meiri gæði og afköst. Þess vegna fara sumir opinberir starfsmenn gjarna í störf hjá einkageiranum.

Ein helsta ástæða fátæktargildru millistéttarinnar er sú staðreynd að hún fær ekki að draga neinn kostnað frá tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti, svo sem vaxtakostnað, viðhald, læknisþjónustu, menntunarkostnað og ýmsan kostnað sem leiðir til betri efnahags og framfara. Skattleysismörk ákveðin af nánös duga engan veginn til að skapa einstaklingum það svigrúm og frelsi sem hann á rétt á til að þroskast og efnast. Auk þess er skattheimta sífellt meir að færast yfir í flata, beina og ósýnilega skatta. Var einhver að tala um gagnsæi?

Fjórða iðnbyltingin?

Sjálfvirknivæðing er grundvöllur fjórðu iðnbyltingarinnar. Stóraukin sjálfvirkni á öllum sviðum hefur mikil áhrif á stöðu launþega, sem óttast atvinnuleysi. Sjálfvirkir róbótar vinna ýmis störf sem fólk vann áður. Launþeginn eignast hvorki róbótann, sem leysir hann af hólmi, né tekjur af honum. Róbótinn er bara ný vél í verksmiðjunni. Það þarf víðtæka lausn á þessu vandamáli og snúa framförum sjálfvirkninnar inn á jákvæða braut fyrir alla. Meiri eignajöfnuður í þjóðfélaginu eins og ég hef lagt til áður gæti verið þáttur í að milda afleiðingar fjórðu iðnbyltingarinnar og gefa fólki meira svigrúm og tíma til þess að bregðast við. Atvinnuleit, endurmenntun, stofnun fyrirtækja og fleira. Í fámennu landi eins og Ísland er alltaf þörf fyrir störf manna og þjónustu. Borgaralaun leysa ekki vandann.

Höfundur er fv. stórkaupmaður.