Þuríður Unnur Björnsdóttir fæddist 22. febrúar 1930. Hún lést 13. janúar 2020.

Útför Þuríðar fór fram í kyrrþey 24. janúar 2020.

Það er dálítið erfitt að skrifa nokkur orð til tengdamömmu sem nú hefur kvatt þessa tilvist okkar. Didda, eins og hún var yfirleitt kölluð, var sterka manneskjan í sinni fjölskyldu. Didda var sú sem allir leituðu til og sú sem hvatti og studdi alla sem til hennar leituðu með sín mál og erfiðleika. Ég kom inn í Stóragerðis-fjölskylduna þegar við Birna fundum hvort annað og ákváðum að ganga saman lífið. Didda tók mér strax með opnum faðmi og þó við ættum okkar stundir í upphafi þar sem stálin mættust stinn, enda tveir sterkir persónuleikar, þá þótti okkur ætíð vænt hvoru um annað og bárum virðingu hvort fyrir öðru. Didda var manneskja með stóra sál og var persóna sem allt gat gert enda var hún mjög greind. Didda bar kannski ekki tilfinningar sínar á borð fyrir alla. Hún ræddi almennt sín mál ekki við ókunnuga eða yfirleitt aðra en sína nánustu og að þessu leyti vorum við kannski ólík. Didda vann ætíð fyrir sínu og skuldaði engum neitt en margir skulduðu henni fyrir hennar gjörðir en á móti ætlaðist hún ekki til launa fyrir sín góðverk. Þær mæðgur Birna og Didda áttu mjög sterkt og fallegt samband sem gott var að fylgjast með og dást að.

Didda þurfti mjög snemma að sjá á eftir föður sínum sem lést langt fyrir aldur fram og var það henni sennilega mjög erfið lífsreynsla en hún var víst mikil pabbastelpa. Á síðari hluta lífskeiðs síns barðist Didda við vondan óvin, parkinsonsveiki. Í þessari baráttu gerði hún allt til að lifa með reisn, sem óbeygð manneskja. Það er þó eitt sem við ekki getum flúið og að lokum nær sá sem okkur öllum nær. Didda kvaddi þetta jarðlíf í faðmi sinna kærustu ástvina og þó alltaf sé sárt að þurfa kveðja sitt fólk þá held ég að Didda hafi kvatt okkur í sátt við að þessu jarðlífi væri lokið. Sumarlandið bíður hennar og vissan um að Anton muni taka á móti henni með opinn faðminn.

Sveinbjörn.