Sterkur Róbert Aron Hostert lék vel í sigri á toppliðinu í gærkvöldi.
Sterkur Róbert Aron Hostert lék vel í sigri á toppliðinu í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
Handbolti Jóhann Ingi Hafþórsson Kristófer Kristjánsson Bjarni Helgason Valsmenn unnu sannfærandi 32:26-sigur á toppliði Hauka í 17. umferð Olísdeildar karla í handbolta í gærkvöld.

Handbolti

Jóhann Ingi Hafþórsson

Kristófer Kristjánsson

Bjarni Helgason

Valsmenn unnu sannfærandi 32:26-sigur á toppliði Hauka í 17. umferð Olísdeildar karla í handbolta í gærkvöld. Valur náði mest ellefu marka forskoti í seinni hálfleik og gat leyft sér að slaka á síðasta korterið án þess að Haukar ógnuðu forskotinu. Síðasta tap Vals í deildinni kom 12. október á síðasta ári, einmitt gegn Haukum. Þá höfðu Valsmenn leikið fimm leiki í röð án þess að vinna og tapað fjórum sinnum. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, á mikið hrós skilið fyrir að rífa sína menn upp og finna lausnir á því sem betur mátti fara. Nú munar aðeins einu stigi á Val og Haukum, eftir tíu sigra í síðustu ellefu leikjum.

Ýmir Örn Gíslason er farinn til Þýskalands en Valsmenn söknuðu hans ekki neitt. Þorgils Jón Svölu Baldursson spilaði virkilega vel í hans stað og Róbert Aron Hostert lék betur í vörninni en oft áður. Menn þjappa sér betur saman þegar lykilmaður hverfur á braut. Hreiðar Levý Guðmundsson lék allan leikinn í markinu og lék glæsilega vel, enda með lúxusvarnarleik fyrir framan sig. Í sókninni hjá Val fór Anton Rúnarsson á kostum og gerðu stórskytturnar Magnús Óli Magnússon, Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron sitt. Allir spiluðu vel í sannfærandi sigri á útivelli toppliðsins.

Haukar eru búnir að tapa þremur af síðustu fjórum deildarleikjum. Þeir áttu enga möguleika í Valsmenn í gær og geta þeir þakkað frændfélaginu fyrir að slaka á undir lokin, annars hefði sigurinn orðið miklu stærri.

Adam Haukur Baumruk spilaði ágætlega síðasta korterið, en annars var lítið jákvætt hjá Haukamönnum. Leikmenn eins og Tjörvi Þorgeirsson, Atli Már Báruson og Heimir Óli Heimisson verða að spila miklu betur. Haukar mæta sjóðheitu liði ÍBV á útivelli í næsta leik og svo Aftureldingu, sem hefur verið í toppbaráttu í allan vetur. Þar verða Haukar að spila miklu betur, ætli þeir sér að halda í toppsætið. johanningi@mbl.is

Eyjamenn að komast á skrið

ÍBV er að komast á skrið á Íslandsmótinu, en liðið vann sterkan 32:26-sigur á Aftureldingu í íþróttamiðstöðinni að Varmá í Mosfellsbæ í gær. Eyjamenn unnu sannfærandi sigur á Íslandsmeisturum Selfoss í síðustu umferð og voru verðskuldaðir sigurvegar í gær, gegn liðinu sem hefur verið í öðru sæti nærri allan vetur.

Það leit hreinlega út fyrir að Eyjamenn myndu stinga af snemma leiks í gær, svo góðir voru þeir í byrjun, eða svo slakir voru heimamenn, sem tóku fljótt tvö leikhlé til að rétta kútinn. Gestirnir voru mest sex mörkum yfir í fyrri hálfleik en Afturelding kom þá með áhlaup. Spilaði þar inn í rauða spjaldið sem Fannar Þór Friðgeirsson fékk en við það riðlaðist leikur ÍBV aðeins. Mikið var um stimpingar í leiknum, nokkuð um brottvísanir og mörg vítaköst.

Aftureldingu tókst að jafna metin snemma í síðari hálfleik á góðum kafla. Guðmundur Árni Ólafsson var markahæstur heimamanna með átta mörk, fimm úr vítum, og Birkir Benediktsson skoraði sjö. Að lokum hrukku Eyjamenn hins vegar aftur í gang, Hákon Daði Styrmisson skoraði 11 mörk, fimm úr vítum, og Dagur Arnarsson skoraði níu, þar af sjö í síðari hálfleik. Eyjamenn virðast verða betri og betri eftir slitrótta byrjun á mótinu og gætu því verið að toppa á réttum tíma. Lið Aftureldingar hefur verið sterkt í allan vetur og takist Mosfellingum að tryggja að leikurinn í gær hafi verið óheppilegt frávik ættu þeir að geta fundið sitt besta form á ný. kristoferk@mbl.is

Átján ára fór á kostum

FH er komið í fjórða sæti deildarinnar eftir öruggan fimm marka sigur gegn Fjölni í Dalhúsum í Grafarvogi í gær. Leiknum lauk með 26:21-sigri Hafnfirðinga sem náðu mest tólf marka forskoti í síðari hálfleik.

FH er nú í fjórða sæti deildarinnar með 22 stig, eins og ÍR sem á leik til góða á FH, en Fjölnismenn eru í ellefta sætinu með 5 stig, einu stigi meira en botnlið HK.

*Haukur Þrastarson og hinn 18 ára gamli Alexander Hrafnkelsson áttu báðir stórleik fyrir Íslandsmeistara Selfoss gegn KA á Akureyri á laugardaginn. Haukur skoraði ellefu mörk og Alexander varði 20 skot í markinu í 31:26-sigri Selfyssinga sem eru í sjötta sæti deildarinnar með 21 stig. KA er í níunda sætinu með 11 stig.

*Þá styrkti Stjarnan stöðu sína í áttunda sæti deildarinnar með 27:22-sigri gegn HK í Kórnum.

Stjarnan er nú fjórum stigum á undan KA í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. HK er á botninum með fjögur stig, sex stigum frá öruggu sæti. bjarnih@mbl.is