Afleikur Starfslok Tidjanes Thiams hafa valdið titringi í Sviss.
Afleikur Starfslok Tidjanes Thiams hafa valdið titringi í Sviss. — AFP
Stjórn Credit Suisse ákvað á föstudag að Tidjane Thiam skyldi láta af störfum sem bankastjóri.

Stjórn Credit Suisse ákvað á föstudag að Tidjane Thiam skyldi láta af störfum sem bankastjóri. Thiam hefur stýrt bankanum frá 2015 og greinir FT frá að það sé mat margra stórra hluthafa að hann hafi unnið þrekvirki með því að koma skikki á reksturinn, auk þess sem honum tókst að leysa farsællega úr erfiðum málum sem fyrri stjórnendur skildu eftir sig hjá þessum næststærsta banka Sviss.

Er það hins vegar mat stjórnarinnar að Thiam hafi sýnt of mikið taktleysi í viðbrögðum sínum við njósnahneyksli sem kom upp í september þegar í ljós kom að starfsmaður bankans hafði fengið njósnara til að vakta fyrrverandi stjórnanda sem hafði fært sig yfir til keppinautarins UBS. Í desember var svo upplýst að einnig hefði verið njósnað um fyrrverandi starfsmannastjóra Credit Suisse.

Innanhússrannsókn hreinsaði Thiam af allri sök en stjórnin leit svo á að hann hefði engu að síður brugðist rangt við málinu og ekki sýnt nægilegan skilning á alvöru þess, og þannig skaðað orðspor bankans.

Thomas Gottstein tekur við af Thiam en hann hefur stýrt starfsemi Credit Suisse innanlands.

Nú er talið mögulegt að hluthafar snúist gegn stjórninni og kjósi burtu formanninn Urs Rohner á næsta hluthafafundi, en skipunartíma hans á að ljúka 2021. ai@mbl.is