Þórir Kristjónsson fæddist á Hellissandi 25. júní 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn 31. janúar 2020.

Foreldrar hans voru Kristjón Árnason verslunarmaður, f. 17. september 1901, d. 4. janúar 1992, og Guðný Ásbjörnsdóttir verkakona, f. 20. september 1907, d. 8. mars 2014. Bróðir Þóris var Svavar, f. 4. júní 1927, d. 18. maí 2012.

Þórir fluttist 11 ára gamall með fjölskyldu sinni frá Hellissandi til Njarðvíkur og síðar til Reykjavíkur.

Þórir kvæntist Ingu Jónu Ólafsdóttur 8. ágúst 1953, f. 27. maí 1931 í Hafnarfirði. Þeirra börn eru 1) Ólafur, f. 1953, d. 1995, maki Júlía Sigurðardóttir, synir þeirra eru a) Sigurður Grétar, f. 1978, í sambúð með Úlfhildi Guðjónsdóttur. Þeirra börn eru Skarphéðinn Krummi, Kristín Hanna og Ylfa Matthildur. b) Kári, f. 1981, hans börn eru Ólafur Veigar og Eva Ísey. Móðir þeirra er Guðbjörg Hulda Einarsdóttir. c) Þórir Ingi, f. 1988. 2) Helga, f. 1955, maki Gísli Sveinbjörnsson, sonur hennar er Þórir f. 1979, giftur Kristjönu Þorbjörgu Jónsdóttur. Þeirra börn eru Ingvar Örn og Katrín Ása. Sonur Helgu og Gísla er Hlynur, f. 1993. 3) Inga Þóra, f. 1965, maki Guðmundur Helgason, þeirra sonur er Ýmir, f. 1997. 4) Guðný, f. 1969, maki Egill Sveinbjörnsson, synir þeirra eru a) Darri, f. 1994, b) Nökkvi, f. 2000 og c) Hugi, f. 2008. Fyrir átti Þórir dótturina Ásgerði, f. 1953, maki Kristinn Sigmundsson, synir þeirra eru a) Gunnar, f. 1979, hans sonur er Mikael Bjarni, b) Jóhann f. 1988.

Þórir hóf sjómennsku árið 1949 sem háseti á ýmsum fiskiskipum fram til ársins 1956. Þá réðst hann til Skipaútgerðar ríkisins og var háseti á strandferðaskipum útgerðarinnar. Frá því í júlí 1961, eða eftir að Þórir lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum, var hann stýrimaður á skipum útgerðarinnar. Árið 1965 varð Þórir fyrsti stýrimaður á ms. Önnu Borg og síðar skipstjóri á ms. Ísborgu til 1973. Stofnaði hann þá ásamt fleirum Fraktskip hf. og var skipstjóri á skipum félagsins, ms. Vegu og Hansa Trade, til ársins 1977 er hann gerðist framkvæmdastjóri félagsins til ársins 1979. Gerði Þórir út og var skipstjóri á fiskibátnum Árna frá Hafnarfirði til ársins 1982 er hann réðst til Sjóleiða hf. í Reykjavík og var skipstjóri á ms. Sögu til ársins 1985. Þórir hóf þá störf hjá Eimskipafélagi Íslands og var skipstjóri á ms. Selfossi allt þar til hann lét af störfum við 67 ára aldur.

Útför Þóris fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 10. febrúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 15.

Nú er komið að ferðalokum hjá tengdapabba mínum. Ég er fullur þakklætis fyrir þann tíma sem við fjölskyldan fengum með honum. Frá honum geislaði ávallt hlýja og ástúð sem fjölskylda og vinir fengu að njóta. Þegar ég kom inn í fjölskylduna varð ég þess strax áskynja að hann og Inga Jóna voru einstaklega samrýnd og samstiga í að hlúa að fjölskyldu og vinum og kunnu að njóta lífsins. Atvinna Þóris kallaði á fjarveru frá heimilinu svo mánuðum skipti en fljótlega eftir að ég kem inn í fjölskylduna hefur hann störf hjá Eimskip og þá voru túrarnir ekki eins langir og fríin reglulegri. Mér var fljótt ljóst að Þórir hafði lifað viðburðaríku lífi og oft á tíðum ævintýralegu. Það var alltaf sérstök hátíðarstemning þegar Þórir kom í land því þá slógu hjónin oft upp veislu fyrir sína nánustu, ef ekki samdægurs þá næsta dag. Við þessar aðstæður held ég að Þóri hafi liðið hvað best, umkringdur sínu fólki, höfðingi heim að sækja. Þarna sagði hann oft skemmtilegar sögur af ferðum sínu um heiminn og því sem hann hafði upplifað en um leið sóttist hann eftir því að fá fréttir af okkur.

Þegar þau hjónin buðu fjölskyldunni í árlegt þorrablót þá hafði Þórir sérstaklega gaman af því að stofna til keppni meðal barnabarnanna. Keppni sem fólst í því að borða sem flesta hákarlsbita. Hann lagði fram ríflega peningaupphæð fyrir sigurvegarann. Eftir því sem börnin lögðu sig meira fram þeim mun meira var honum og öðrum skemmt. Þegar Þórir fór á eftirlaun notaði hann starfsorkuna í að byggja við sumarbústaðinn við Þingvallavatn. Þar dvöldu þau hjónin oft og iðulega yfir sumarið. Á vorin var alltaf stemning að setja bátinn á flot með barnabörnunum og fara út á vatnið til veiða. Auðvitað lauk deginum á því að borða læri og drekka eitthvað gott.

Fáir fara í gegnum langt líf án áfalla. Árið 1995 sáu þau hjónin á eftir Óla einkasyni sínum. Eitt af því síðasta sem Óli náði að gera áður en hann kvaddi þessa jarðvist var að mynda sumarbústað foreldra sinna úr lofti og færa þeim. Ég er viss um að hann tekur nú á móti pabba sínum og þar verða fagnaðarfundir.

Á tímabili var ég svo heppinn að vinna nærri heimil þeirra í Fellasmáranum. Ég hitti þau oft í hádeginu þar sem við náðum að ræða mál líðandi stundar og skiptast á skoðunum. Ég er fullur þakklætis fyrir samverustundirnar og þann hlýhug sem ég fann alltaf.

Þróttur Þóris minnkaði jafnt og þétt hin síðari ár en aldrei missti hann húmorinn. Hann sá alltaf spaugilegar hliðar á lífinu og tilverunni. Fyrir sjö mánuðum fluttist Þórir á Seltjörn þar sem honum var sérstaklega vel tekið af starfsmönnum og heimilisfólki. Þar leið honum vel. Aðstandendur Þóris standa í ævarandi þakkarskuld við það góða starfsfólk sem þar starfar og annaðist hann þessa síðustu mánuði. Það er erfitt að kveðja svo mætan mann en ég veit að hann naut lífsins á öllum stigum þess og skilur eftir sig gott starf hvort heldur litið er til starfsferils eða fjölskyldu. Ég kveð hann ánægður með að hafa verið hluti af hans lífi og hann af mínu.

Guðmundur Helgason.

Það eru forréttindi að fá að eiga afa – hvað þá jafn góðan afa og hann Þóri afa minn og nafna. Það var alltaf mikið um að vera í Fögrubrekkunni þar sem þau hjónin, afi Þórir og amma Inga Jóna, höfðu byggt sér heimili. Við frændurnir áttum alltaf víst skjól hjá ömmu og afa, hvort sem okkur langaði í bita eða spjall. Sumarbústaðaferðir, fjölskylduhittingar og allt hitt sem brallað var verður lengi í minnum haft. Sögurnar margar og sumar þannig að ég skildi aldrei hvernig amma og afi héldu þolinmæðinni fyrir öllum uppátækjunum, enda margt brallað. Hurðirnar í Fögrubrekku voru einkar vel til þess fallnar að festa í þær hurðasprengjur og eftir því sem við eltumst náðum við að fela þær betur, ömmu til nokkurrar armæðu.

Eitt mál leystist þó aldrei og það var rannsókn á því hver málaði nýja Volvo-inn hans afa. Við Siggi frændi vorum grunaðir en héldum því staðfastlega fram að Kári frændi hefði málað – þótt athugun leiddi í ljós að tæplega tveggja ára gamall Kári gæti varla haldið á málningarbrúsa, hvað þá málað bíl. Afi hló bara og var ekkert að stressa sig óþarflega á svona uppátækjum.

Í sumarbústað þurfti að vinna mörg verk og bera margar vatnsfötur. Í minningunni vorum við frændurnir þar heilu og hálfu sumrin – ekkert sjónvarp, lítið rafmagn en hlustað á kvöldsögur Jónasar og gripið í spil. Okkur frændunum þótti afi ekki sérlega íþróttamannslega vaxinn og minntum hann stöku sinnum á það. Eitt skiptið sagði afi að nú væri kominn tími til að reyna á það – en það skyldi gert með spretthlaupi! Hlaupið fór fram á malarvegi fyrir utan sumarbústaðinn Fögrubrekku og skemmst er frá því að segja að gamli gat hlaupið og vann okkur unglingana, okkur til algerrar undrunar. Þrátt fyrir margar áskoranir lét hann aldrei hafa sig út í að taka aðra slíka keppni – og naut þess að vera fjölskyldumeistari í 50 m hlaupi með blandaðri aðferð.

Ein skemmtilegasta minningin er þó að hafa fengið að fara með afa í siglingu, en við sigldum með saltfisk til Spánar og Portúgal – þar var farið á strönd og enn man ég eftir því þegar ég stóð í brúnni með afa þegar siglt var að landi í Bilbao. Það eru forréttindi að hafa fengið að upplifa slíkt.

Í dag kveðjum við afa. Sú kveðjustund var raunar byrjuð. Afi greindist með alzheimer og var sjúkdómurinn búinn að taka hluta af honum. En gegnum alla þá göngu missti hann aldrei gleðina – sem var alltaf stærsti hlutinn af honum.

Þórir Ingvarsson.

Mig langar í fáum og fátæklegum orðum að minnast sæmdarmannsins Þóris Kristjónssonar en hann lést á heimili sínu Seltjörn 31. janúar sl. umvafinn elsku konu sinnar og dætra.

Það er mikilvægt í lífinu að kynnast góðu fólki og njóta þess að vera því samferða. Það er skemmtilegt frá því að segja hvernig kynni við Þóri og Ingu Jónu urðu til. Þórir var skipstjóri og vann við það í áratugi. Eitt sinn kom hann með skip sitt til Húsavíkur, hitti þar á afa minn sem tók á móti skipinu. Þórir segist þurfa að hringja trúnaðarsímtal og hvort afi geti útvegað sér síma. Afi tekur hann með sér heim til sín og ömmu minnar sem tók á móti Þóri, eins og öllum, af mikilli gestrisni. Úr þessu varð ævarandi vinátta sem ég og mín fjölskylda höfum öll fengið að njóta alla tíð. Þórir og Inga Jóna reyndust afa mínum ávallt einstaklega vel og ekki síst eftir að hann varð ekkill á besta aldri.

Heimili Þóris og Ingu Jónu stóð okkur öllum opið. Í áratugi bjó ég hjá þeim þegar ég kom suður, hvort sem ég var að vinna eða í fríi og máttum við fjölskyldan helst hvergi vera nema hjá þeim og aldrei var neitt nógu gott fyrir okkur. Með þeim höfum við átt alveg ómetanlegar stundir bæði á heimili þeirra, paradísinni í Grafningnum, og hér fyrir norðan. Minningarnar, þegar Inga Jóna var að töfra fram besta mat í heimi og Þórir að blanda drykk og segja skemmtilegar sögur, eru okkur dýrmætar. Hann sagði einstaklega skemmtilega frá og var mikill húmoristi. Gerði góðlátlegt grín að Ingu sinni og hló svo sínum dillandi hlátri. Þórir var farsæll í sínu einkalífi, dáður af fólkinu sínu og vel liðinn í starfi sínu sem skipstjóri.

Við Heiðar, Rebekka og Sif þökkum afa Þóri fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur. Elsku Inga Jóna og ykkar afkomendur, innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Þóris Kristjónssonar.

Margrét Þórhallsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku afi, takk fyrir minningarnar, takk fyrir að kenna mér að tefla, takk fyrir heimagerðu rúllupylsuna – hún var alltaf ansi góð hjá þér, takk fyrir að hlæja að misfyndnum sögum sem ég sagði, takk fyrir samveruna í sveitinni, og takk fyrir allar hinar stundirnar.
Ég vildi að þær hefðu orðið fleiri.
Darri.