Það vill svo til að ég hef komið nokkrum sinnum í „Ríkið“ síðustu mánuði.

Það vill svo til að ég hef komið nokkrum sinnum í „Ríkið“ síðustu mánuði. Það er nefnilega risin flunkuný vínbúð við hliðina á stórmarkaðinum mínum og freistandi að kíkja þar inn eftir stórinnkaupin, sem eru orðin að léttri líkamsæfingu með beygingum og réttingum og sjálfs(af)greiðslu. Í nýju vínbúðinni er ekki sama tæknikeyrslan og allt rólegra, þó að engan sæi ég forma að draga upp tékkhefti. Hins vegar tók ég eftir því í öll skiptin sem ég beið við kassann að flestir borguðu með reiðufé. Tíndu fram misgljáandi þúsundkalla og alls kyns myntsláttu sem hefði sómt sér jafnvel á þjóðmenjasafninu.

Hvað skyldi valda því að fólk sem höndlar nýjustu innkaupatækni í markaðinum sínum skuli, þegar það kemur í vínbúðina, hverfa aftur til þess gamla; að leysa frá lúðri buddu og telja fram krónur og aura? Má heimsóknin í vínbúðina kannski ekki koma á yfirlitið í bankanum? Er verið að villa um fyrir tortryggnum maka, eða er hér komið þetta margfræga alþjóðlega peningaþvætti?

Sunnlendingur