Dimmur Arnarhóll þykir illa lýstur.
Dimmur Arnarhóll þykir illa lýstur. — Morgunblaðið/Eggert
Margar gönguleiðir sem börn og unglingar fara um í miðbænum eru illa lýstar og þau því smeyk við að nota þær.

Margar gönguleiðir sem börn og unglingar fara um í miðbænum eru illa lýstar og þau því smeyk við að nota þær. Þetta kom fram á málþingi íbúasamtaka miðborgar nýverið og hefur íbúaráð miðborgar og Hlíða nú safnað saman upplýsingum um þau svæði sem þarf að lýsa betur.

„Ég sendi fyrirspurn í alla íbúahópa í miðborg og Hlíðum og bað fólk að segja okkur ef það væru einhverjir ákveðnir staðir sem þyrfti að lýsa betur. Við fengum virkilega fínar heimtur,“ segir Margrét M. Norðdahl, formaður íbúaráðs miðborgar og Hlíða.

Ráðið skráði staðina niður og sendi lista á umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Sem dæmi um svæði sem íbúum þykja illa lýst eru Arnarhóll og leiksvæði í grennd við hann.

Spurð hvort víða sé pottur brotinn í þessum efnum segir Margrét:

„Lengi má gott bæta. Núna í svartasta skammdeginu finnur maður öðruvísi fyrir því en þegar er bjart allan sólarhringinn og það er mikilvægt að geta komið því á framfæri ef það eru einhver ákveðin svæði sem fólk veit að mætti bæta. Maður þekkir best sitt nærumhverfi svo það var gott að fá ábendingar frá íbúunum sjálfum.“

ragnhildur@mbl.is