[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Okkur vantar meira af öllum tegundum,“ segir Guðni Hólmar Kristinsson, framkvæmdastjóri afurðasviðs Sölufélags garðyrkjumanna, um stöðuna á grænmetismarkaðnum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Okkur vantar meira af öllum tegundum,“ segir Guðni Hólmar Kristinsson, framkvæmdastjóri afurðasviðs Sölufélags garðyrkjumanna, um stöðuna á grænmetismarkaðnum. Litlar breytingar urðu í innflutningi og innlendri framleiðslu á síðasta ári og ekki útlit fyrir miklar breytingar á þessu ári.

Tölur liggja aðeins fyrir um framleiðslu á þeim grænmetistegundum sem beingreiðslur eru greiddar út á, það er að segja gúrkum, tómötum og papriku. Hagstofa Íslands safnar upplýsingum um allar tegundir og hefur ekki lokið þeirri vinnu. Framleiðsla á gúrkum og tómötum var í fyrra svipuð og á árinu áður en nokkur aukning er í papriku en lítill hluti sölunnar er framleiddur innanlands. Innflutningurinn er svipaður á milli ára. Þó hefur innflutningur á gúrkum og sveppum aukist.

26 ylræktarbændur njóta beingreiðslanna sem bændur semja um við ríkið í búvörusamningum og námu alls um 290 milljónum króna á síðasta ári.

Enn er verið að flytja út gúrkur og fleiri tegundir grænmetis, til Danmerkur, Færeyja og Grænlands, en það er í mjög smáum stíl vegna þess að þessar vörur vantar á markaðinn hér, að sögn Guðna.

Huga að aukningu

„Við upplifðum það í sumar að gríðarleg eftirspurn var eftir brokkólí og blómkáli. Allt var rifið út um leið og það kom úr görðunum og lítið hægt að setja í kæli til geymslu fyrir veturinn,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda. Hann segir að einhverjir garðyrkjubændur hyggist auka framleiðslu á þessum og öðrum káltegundum til þess að mæta þörfum markaðarins. Segir Gunnar að bændur hafi náð ágætis árangri í ræktun á gulrótum og þær séu enn til í búðum ásamt einhverjum tegundum káls frá síðasta hausti.

Gunnar segir að ef litið er til tíu söluhæstu grænmetistegundanna sé hlutur innlendra framleiðenda vel undir helmingi. Það sé dapurt en feli jafnframt í sér mikil sóknarfæri. „Það er mikil jákvæðni í garð íslenskrar framleiðslu,“ segir Gunnar.

Mesta uppbyggingin sem vitað er um er hjá salatframleiðandanum Lambhaga sem er að reisa stóra garðyrkjustöð í Mosfellsdal. Guðni segir að bændur séu að hugsa sér til hreyfings á fleiri sviðum, meðal annars að auka framleiðslu á gúrkum.