Jón Valmundsson fæddist 9. júní 1929. Hann lést 19. janúar 2020.

Útför Jóns fór fram 1. febrúar 2020.

Jón var 16 ára þegar hann starfaði við byggingu Ölfusárbrúarinnar 1945 ásamt föður sínum, Valmundi Björnssyni brúarsmið. Eftir það varð ekki aftur snúið með lífsstarfið. Hann lauk námi í húsasmíði við iðnskóla og starfaði síðan alla starfsævina við húsa- og brúarsmíðar.

Í föðurætt var Jón fjórði maður frá Sveini Pálssyni (1762-1840) hinum kunna lækni og náttúrufræðingi. Meðal afkomenda Sveins voru bræður kenndir við Svínadal í Skaftártungu en margir þeirra voru völundar á tré og járn. Einn þeirra var Valmundur faðir Jóns. Í móðurætt var hann af svonefndi Heiðarætt sem kennd var við Litlu-Heiði í Mýrdal. Af þeirri ætt var Jón Brynjólfsson, afi Jóns, sem var trésmiður og mikill dugnaðarmaður.

Þeir feðgar Valmundur og Jón unnu saman við brúarsmíðarnar ásamt flokki brúarvinnumanna. Eiga margir sem í þeim hópi voru ánægjulegar minningar frá þeim tíma. Undirbúningsvinna við brúarsmíðar var oft mikil og þegar kom að því að steypa hljóp þeim feðgum kapp í kinn. Valmundur hafði þann sið þegar mikið var í húfi að taka í der húfu sinnar og færa húfuna sitt á hvað til hliðanna nokkrum sinnum.

Valmundur var góður verkstjóri og vel liðinn. Þegar hann hætti brúarsmíðum tók Jón við brúarvinnuflokknum. Brýr sem hann byggði ásamt flokki sínum voru fjölmargar. Síðasta stóra brúin sem hann byggði var Markarfljótsbrúin nýja. Bygging hennar gekk afar vel og var hún vígð í október 1992. Til viðbótar byggðu þeir nýjar brýr á Seljalandsá og Álana. Þessum verkum öllum var lokið fyrir jól sama ár.

Auk brúarsmíðanna var Jón mikilvirkur húsasmiður og byggði hann fjölmörg hús bæði í Mýrdal og víðar. Eftir að formlegu ævistarfi hans við brúarsmíðar lauk hélt hann áfram að starfa við trésmíðar lengi vel og hjálpaði mörgum við byggingar og innréttingar.

Jón var félagslyndur og hlóðust á hann ýmis félags- og trúnaðarstörf svo sem við sveitarstjórn. Eiginkona hans í um 60 ár er Steinunn Pálsdóttir, hinn mesta dugnaðarkona. Dæturnar eru Steinunn og Guðrún.

Jón var meðalmaður á hæð, stæltur og grannvaxinn, yfirleitt glaður í bragði, kraftmikill og röskur og þoldi illa leti og seinagang. Hann var við hestaheilsu alveg fram á allra síðustu ár. Hann átti heima í Vík alla ævi.

Eftir áratuga kynni er hans nú minnst með virðingu. Eiginkonu, dætrum og fjölskyldum þeirra eru færðar samúðarkveðjur.

Ólafur Jónsson.