Borgarnes Vinsælt er hjá íbúum að skokka á íþróttavellinum.
Borgarnes Vinsælt er hjá íbúum að skokka á íþróttavellinum. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Íbúar Borgarbyggðar geta tekið þátt í íbúafundum, bæði með því að mæta á fundi en einnig með því að fylgjast með á netinu og senda fyrirspurnir inn á fundinn úr stofusófanum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Íbúar Borgarbyggðar geta tekið þátt í íbúafundum, bæði með því að mæta á fundi en einnig með því að fylgjast með á netinu og senda fyrirspurnir inn á fundinn úr stofusófanum. Nýtt fundakerfi var fyrst reynt á íbúafundi um umhverfismál sem fram fór í Hjálmakletti á dögunum.

„Framkvæmdin á fundinum hefur vakið athygli. Fólk er almennt ánægt með að geta tekið þátt þó að það komist ekki á fundinn. Áhorfið hefur farið fram úr björtustu vonum,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar.

Senda inn fyrirspurnir

Um 70 íbúar sóttu fundinn. Honum var streymt í gegn um Facebook-síðu sveitarfélagsins, eins og mörg sveitarfélög gera, og horfðu 120 manns á hann í beinni útsendingu. Til viðbótar gafst fólki í Borgarbyggð sem fylgdist með á Facebook að tengjast fundinum í gegnum vefsíðuna slido. Gátu íbúar þá sent inn fyrirspurnir sem birtust strax á skjá fyrir aftan sveitarstjórnarfulltrúa, ásamt spurningum fundargesta. Þá gat fólk einnig líkað við góðar spurningar, sem færðust þá ofar í röðina og urðu líklegri til að ná athygli fulltrúanna sem sátu fyrir svörum.

Fólk heldur áfram að horfa á íbúafundinn og nú hafa um 2.000 manns horft á hann í fimmtán mínútur eða lengur.

Lilja segist ekki vita til þess að önnur sveitarfélög nýti þessa möguleika til að auka þátttöku á íbúafundum. Samband íslenskra sveitarfélaga hafi þó nýtt þetta kerfi á fulltrúafundum.