[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Stjórnvöld hafa boðað þá stefnu að fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 verði sveitarfélög með 250 íbúa og færri þvinguð til að sameinast öðrum og fjórum árum seinna verði lágmarkstala íbúa 1.000 manns.

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Stjórnvöld hafa boðað þá stefnu að fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 verði sveitarfélög með 250 íbúa og færri þvinguð til að sameinast öðrum og fjórum árum seinna verði lágmarkstala íbúa 1.000 manns.

Ráðgjafarfyrirtækið RR ráðgjöf sinnir verkefnisstjórn í fjórum sameiningarverkefnum um þessar mundir, en félagið var líka til ráðgjafar við sameiningu Sandgerðisbæjar og Garðs, sem nú mynda Suðurnesjabæ. Róbert Ragnarsson, framkvæmdastjóri RR ráðgjafar, segir að skriður sé kominn á sameiningarmál.

Róbert bendir á að fimmtán sveitarfélög, eða rúm 20% sveitarfélaganna í landinu, hafi ákveðið að taka frumkvæði og hefja viðræður um mögulega sameiningu við nágranna sína. Sveitarfélögin eru flest landstór og ná samanlagt yfir um 42% af landrými Íslands. Í þeim búa hins vegar aðeins tæp 4% íbúanna, eða rúmlega 13 þúsund manns. Samþykki íbúar sameiningartillögurnar mun sveitarfélögum fækka um 11 og verða sveitarfélögin þá 61 árið 2022.

Róbert var áður bæjarstjóri í Vogum og í Grindavík. Samstarfsmaður hans, Jón Hrói Finnsson, var sveitarstjóri á Svalbarðsströnd. Segir Róbert að í þeim stóru sameiningarverkefnum sem nýlega séu farin af stað, Þingeyjarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu og fimm sveitarfélögum á Suðurlandi, sé horft til þess að kosið verði um sameiningu um mitt næsta ár eða í lok ársins. „Það eru allir að miða við niðurstöðu árið 2021. Þá er hálft ár eða ár fram að reglubundnum kosningum. Ég held að búast megi við því að það verði talsvert um kosningar árið 2021.“

Tillögur um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum hafa mætt nokkurri andstöðu fulltrúa fámennari sveitarfélaga. Telja margir að lögþvingun sameiningar brjóti á sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga og óttast að íbúar fái ekki næga aðkomu að ákvarðanatökunni. Helsti ávinningur sameiningar er jafnan talinn vera rekstrarhagræði sem skili sér í aukinni þjónustu. Hins vegar eru dæmi þess að íbúar í jaðarbyggðum í sameinuðum sveitarfélögum þurfi að búa við skerta þjónustu, svo sem að skólum eða sundlaugum hafi verið lokað. Þá telja þeir gjarnan að áhrif þeirra séu minni í ákvarðanatöku sameinaðra sveitarfélaga.

Róbert segir að horft hafi verið til þessa sjónarmiða þegar hann vann að sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Hann segir að á grunni lærdóms af fyrri sameiningum og rannsóknum á þeim hafi verið ákveðið að skipa þriggja manna heimastjórnir í sveitarfélaginu. Þær starfa á tilteknum svæðum innan þess og stjórna ákveðnum þjónustuverkefnum á hverjum stað. Íbúar hvers svæðis kjósa sér fulltrúa í heimastjórn en einn er skipaður af sveitarstjórn.

„Okkar reynsla er að íbúarnir vilja tryggja ákveðna nærþjónustu eins og skóla, íþróttahús og menningarstarf á hverjum stað, auk þess að eiga fulltrúa í beinum tengslum við sveitarstjórnina. Þeir vilja raunverulegt lýðræði og áhrif. Heimastjórnir koma til móts við þær óskir. Menn þurfa að finna að þeir hafi enn þá áhrif. Að mínu mati ætti Alþingi að skoða breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um kosningar til sveitarstjórna til að koma enn betur til móts við þessi sjónarmið,“ segir Róbert.