Snarpur jarðskjálfti, 3,7 stig, varð á Hengilssvæðinu klukkan 7.24 í gærmorgun, nánar tiltekið á 6,8 km dýpi 2,7 km austnorðaustur af Litlu kaffistofunni. Hann hafði ekki nein áhrif á rekstur Hellisheiðarvirkjunar, að sögn Orku náttúrunnar.

Snarpur jarðskjálfti, 3,7 stig, varð á Hengilssvæðinu klukkan 7.24 í gærmorgun, nánar tiltekið á 6,8 km dýpi 2,7 km austnorðaustur af Litlu kaffistofunni. Hann hafði ekki nein áhrif á rekstur Hellisheiðarvirkjunar, að sögn Orku náttúrunnar. Virkjunin framleiðir rafmagn og heitt vatn til húshitunar.

Skjálftinn fannst greinilega í byggð því hann varð ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Veðurstofunni bárust tugir tilkynninga um að skjálftinn hefði fundist víða. Auk höfuðborgarsvæðisins í Hveragerði og á Akranesi. Í kjölfarið mældust minni eftirskjálftar.

„Miðað við staðsetningu eru þetta líklega flekahreyfingar. Þetta er á mjög virku jarðskjálftasvæði,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands. Þessi skjálfti tengist ekki beint landrisi á Reykjanesi og mögulegri kvikusöfnun þar, að sögn Einars Bessa.