Salbjörg H.G. Norðdahl fæddist 18. apríl 1928 á Brimnesi í Viðvíkursveit, Skagafirði. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 30. janúar 2020.

Foreldrar hennar voru Guðmann K. Þorgrímsson, f. 12. des. 1898, d. 27. nóv. 1984, og Þóra S. Þorvaldssdóttir, f. 8. mars 1902, d. 12. júní 1965.

Systkini Salbjargar: Þorgrímur Árelíus, f. 6. september 1930, d. 17. október 2018; Þorvaldur Sigurður, f. 30. september 1931, d. 4. júlí 1951; Höskuldur Eyfjörð, f. 18. desember 1932, d. 24. ágúst 2017; Kristín Guðrún, f. 13. apríl 1934; Hartmann Guðmundur, f. 26. maí 1935, d. 20. ágúst 2019; Hallgrímur Sigurvin, f. 7. júlí 1939; Rósa Sigríður, f. 15. ágúst 1941; Guðmann Þór, f. 9. september 1945.

Salbjörg var gift Karli V. Eggertssyni Norðdahl, bónda á Hólmi, f. 8. apríl 1898, d. 5. október 1983. Börn þeirra eru: 1) Karl Hólmkell, f. 1952, maki Ásdís Birna Ottesen. 2) Þorvaldur Sigurður, f. 1952. 3) Erla, f. 1954, börn Alva Linn og Mari. 4) Eggert, f. 1958, barn Bergdís. 5) Valur Þór, f. 1960, maki Marta Kristín Halldórsdóttir, börn Klara, Erna og Vilhjálmur Karl. 6) Heiða Björk, f. 1962, maki Jón Jóhannesson, börn Salbjörg Þóra og Matthías. Barnabarnabörnin eru orðin níu.

Útför Salbjargar verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag, 10. febrúar 2020, klukkan 14.

Móðir mín er látin á 92. aldursári og södd lífdaga, fæddist í norðlenskri sveit 1928 og fluttist suður á mölina um 1950.

Hún var trú sínum uppruna, hafði gaman af búskap og ræktaði sinn garð í bestu merkingu orðsins.

Hún hafði yndi af ræktun matjurta og garðagróðurs, ræktaði vöxtulegar stofuplöntur sem prýddu heimilið áratugum saman. Við húsið var garður með trjám og fjölæringum sem hún sinnti af alúð auk þess að sinna búskap og ala upp sex börn.

Á nútímamælikvarða væri hún eflaust talin „ofurkona“.

Á kvennafrídeginum 1975 tók mamma sér frí og fór á fjöldafund, pabbi eldaði og fórst það illa úr hendi, maturinn brann við, húsið fylltist af reyk og þegar ég kom heim var sá gamli plástraður eftir bjástur í kartöflugarðinum og vantaði sárlega hana mömmu.

Mamma var af trúuðu fólki komin og þegar árin liðu fann hún mikla stoð í trúnni, fór á samkomur og átti sér ríkulegt andlegt líf sem mótaði hana meira en margt annað.

Hún hafði gaman af tónlist, fór oft norður í land að heimsækja ættingja og vini, hélt rækt við ættaróðalið Tungufell í Svarfaðardal ásamt sjö systkinum, fór í göngur og réttir en afþakkaði pent réttarsjússinn. Mamma drakk aldrei vín og vildi helst blanda gosið með vatni.

Hún kom jafnan hlaðin berjum að norðan á haustin, gerði saft og sultur sem hún útdeildi til ættingja sinna.

Hún fór aðeins einu sinni utan í brúðkaup systur minnar í Noregi, kom heim með agnarlítinn hlyn sem var alinn upp í gjörgæslu og yfirvetraður í fjósinu á Hólmi.

Er núna stæðilegt tré í garðinum hennar 40 árum síðar.

Held að ræktunaráhugi hennar hafi kveikt á ævilangri skógræktardellu minni.

Takk fyrir það mamma.

Ég fékk dýradellu sem krakki og dró heim flest þau kvikindi sem teljast gæludýr, en mamma var skilningsrík og leyfði kanínur, hamstra, fiska, ketti, dúfur og eitt sinn hrafn, henni var þó lítt skemmt þegar krummi skeit á snúruþvottinn og varð illur viðureignar, kom hún þá krumma í fóstur í grenndinni.

Mamma var mikill lestrarhestur þegar um hægðist í búskapnum, við systkinin bárum bækur í hana sem hún las upp til agna.

Vildi helst fá bækur í jólagjöf og kláraði þær hratt.

Síðustu misserin var hún á hjúkrunarheimilinu Eir og fékk þar góða aðhlynningu.

Ég minnist með þakklæti margra gæðastunda í heimsóknum og við töluðum saman um heima og geima, minnið var ætíð gott þótt líkaminn hrörnaði og ég gat næstum því flett upp í mömmu og fræðst um atburði og ættingja lífs sem liðna.

Hún hélt ætíð góðu sambandi við systkini sín, var ættrækin og lét sig velferð fjölskyldunnar varða.

Þegar á bjátaði áttum við systkinin alltaf gott bakland í mömmu sem hélt stórfjölskyldunni saman eftir fráfall pabba 1983.

Kærar þakkir til allra á Eir sem önnuðust mömmu og fylgdu henni síðasta spölinn og allra ættingja minna sem heimsóttu hana og glöddu.

Ég veit að þú ert komin á þann áfangastað sem þú trúðir staðfastlega á allt þitt langa líf.

Takk fyrir allt elsku mamma, umhyggju þína og lífið sem þú gafst mér.

Þinn sonur,

Valur Þór Norðdahl.