Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur: "Í hverju hverfi borgarinnar verður einn leikskóli opinn í allt sumar."

Það getur verið flókið mál að púsla sumarfríi foreldra og barna í kringum lokanir leikskóla. Þess vegna hefur Viðreisn í Reykjavík lagt áherslu á að foreldrar hafi sveigjanleika og val til að stjórna sínum sumarleyfistíma sjálf með því að bjóða upp á sumaropnun leikskóla.

Í hverju hverfi borgarinnar verður einn leikskóli opinn í allt sumar. Foreldrar leikskólabarna geta, fyrir 15. apríl, sótt um að börnin fari í einn af sex sumarleikskólum á meðan þeirra leikskóli er lokaður í júlí.

Foreldrar tæplega 130 barna nýttu sér sumaropnun leikskóla síðasta sumar, sem var fyrsta sumarið í þessu tilraunaverkefni. Fram fór mat meðal foreldra, barna og leikskólastjóra á því hvernig til hefði tekist og eru niðurstöðurnar í samræmi við það sem við í Viðreisn höfum sagt. Nánast allir foreldrar eða 97%, voru ánægðir með að einn leikskóli í hverjum borgarhluta væri opinn allt sumarið. Með sumaropnun er þjónustan bætt, ekki bara fyrir nema eða þær fjölskyldur sem hafa lítið val um sinn orlofstíma, heldur einnig allar þær fjölskyldur sem vilja geta verið saman í fríi. Eftir þá skrítnu tíma sem við erum að upplifa núna teljum við enn mikilvægara en ella að fjölskyldur geti notið sumarfrísins saman en þurfi ekki að púsla dögunum saman.

Reynsla síðasta árs sýnir okkur einnig að líðan barna í sumarleikskólunum var almennt góð. Börnin voru ánægð með það starf sem fram fór og nutu sín. Auðvitað voru einhver börn sem söknuðu leikfélaga sinna frá hinum leikskólanum en í sumarleikskólanum var nýja leikfélaga að finna. Starfsmaður þeirra leikskóla fylgdi líka yfir á sumarleikskólann til að tryggja ákveðna samfellu fyrir börnin.

Við hjá borginni eigum að stefna að því að bæta þjónustuna til að einfalda líf borgarbúa. Það eru ekki allir foreldrar í sömu aðstæðum og það er mikilvægt að reyna að mæta þörfum þeirra með því að bjóða upp á valmöguleika, til dæmis hvenær farið er í sumarfrí.

Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar.

Höf.: Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur