Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Kórónuveiran og aðgerðir stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar hafa gjörbreytt ásýnd og verslun við Laugaveg í Reykjavík. Þar sem eitt sinn var fjölbreytt mannlíf og ferðamenn í hópum eru nú fáir á ferli og auð bílastæði.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, undrast að Reykjavíkurborg leggi sig ekki meira fram við að bæta aðgengi að verslunargötunni og auðvelda þannig kaupmönnum að ná til viðskiptavina. Nefnir hún í því samhengi m.a. breytta akstursstefnu á hluta Laugavegar sem tók gildi í maí 2019. Segir hún borgina eiga að gera Laugaveg að einstefnu á ný enda hafi einkabíllinn styrkt stöðu sína mjög nú þegar fólk forðast almenningssamgöngur og fjölmenni.
Fyrst meirihlutinn nú veiran
„Þegar borgin sneri einstefnunni á sínum tíma var það hrein og klár ögrun við kaupmenn. Og það sér ekki nokkur maður tilganginn með þessari aðgerð. Það eina sem hún gerir er að rugla fólk og búa til stjórnleysi að ástæðulausu,“ segir Vigdís og bætir við að hún hafi lagt til fulla opnun og einstefnu á Laugavegi á fundi borgarráðs í mars sl. Þeirri tillögu var hins vegar hafnað. Vigdís segir marga kaupmenn hafa haft samband og lýst erfiðri stöðu.„Staðan er orðin algjörlega óbærileg hjá þessu fólki sem er að reyna að halda þarna úti rekstri. Fyrst þurfti þetta fólk að glíma við þráhyggju meirihlutans fyrir lokunum og svo skellur veiran á,“ segir hún og heldur áfram: „Þetta svæði verður dauðs manns gröf. Það sést þarna varla maður á ferli.“
Morgunblaðið setti sig í samband við nokkra kaupmenn. Sögðu þeir allir þörf á því að gera götuna að einstefnugötu á ný. Slíkt myndi auka líkurnar á komum fólks þangað.
„Það er fáránlegt að snúa götunni svona við nú þegar ástandið er eins og það er í þjóðfélaginu. Auðvitað á að taka af þessa hringavitleysu sem enginn botnar neitt í,“ segir Brynjólfur Björnsson, eigandi Brynju.
Jón Sigurjónsson gullsmíðameistari segir ruglinginn með akstursstefnuna vera algjört hneyksli.
„Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á svona bull og að ekki sé búið að taka þetta af núna er ótrúlegt,“ segir hann og bætir við að Laugavegur muni að líkindum breytast mjög vegna ástandsins í þjóðfélaginu. „Túrismanum, veitingastöðum og hótelum var óhindrað hleypt af stað hérna. Núna er þetta allt að hrynja og eftir munu standa tóm pláss,“ segir Jón.