Grindavík Rýmingaráætlun hefur verið uppfærð vegna faraldurs.
Grindavík Rýmingaráætlun hefur verið uppfærð vegna faraldurs. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Rýmingaráætlun fyrir Grindavík hefur verið uppfærð með tilliti til varúðarráðstafana vegna kórónuveirufaraldursins.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Rýmingaráætlun fyrir Grindavík hefur verið uppfærð með tilliti til varúðarráðstafana vegna kórónuveirufaraldursins. Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði að skipulaginu hefði verið breytt nýlega.

„Það er gert ráð fyrir því í skipulaginu í dag að fólk geti verið í sóttkví eða einangrun,“ sagði Rögnvaldur. Ef kæmi til rýmingar yrði þeim sem væru í einangrun haldið sér og eins þeim sem væru í sóttkví. Þannig ættu þessir hópar ekki að vera innan um fólk sem hvorki væri í sóttkví né einangrun. Þessi aðgreining á að gilda alveg frá því að fólk fer að heiman og alla leið á áfangastað þar sem þessum hópum verður haldið aðskildum.

Rögnvaldur sagði að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefði notið aðstoðar Rauða krossins, björgunarsveitanna og lögreglunnar við að endurskipuleggja rýmingaráætlunina. „Það voru allir mjög lausnamiðaðir og málið bara leyst,“ sagði Rögnvaldur.

Hann sagði að það hefði aðeins róast á stjórnstöð almannavarna eftir miklar tarnir í vetur, og menn kæmust nú heim úr vinnunni á skikkanlegum tíma. Rögnvaldur sagði að starfsmenn stjórnstöðvarinnar reyndu að lágmarka samskipti við fólk utan vinnunnar til að forðast kórónuveirusmit líkt og t.d. starfsfólk Landspítalans gerði.

„Konan mín er hjúkrunarfræðingur og það kemur enginn heim til okkar nema heimilisfólkið og við förum ekkert nema við þurfum þess nauðsynlega,“ sagði Rögnvaldur.