Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Gífurleg fjölgun hefur orðið á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun (VMST) á seinustu vikum, sem að stórum hluta er til komin vegna umsókna um atvinnuleysisbætur samhliða skertu starfshlutfalli. Fjölgun einstaklinga sem misst hafa vinnuna að fullu og sótt um almennar atvinnuleysisbætur er þó einnig mikil eftir að áföllin riðu yfir með faraldri kórónuveirunnar. Eru núna um 16 þúsund manns á almennu atvinnuleysisskránni og hefur þessum atvinnuleitendum fjölgað um sex þúsund frá því í lok febrúarmánaðar.
Að sögn Ögðu Ingvarsdóttur, sérfræðings á upplýsingatækni- og rannsóknarsviði Vinnumálastofnunar, hefur hægt verulega á innkomnum umsóknum um bætur á síðustu dögum samanborið við umsóknaflóðið í síðari hluta mars. Síðdegis síðastliðinn þriðjudag höfðu borist um 31 þúsund umsóknir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá VMST. „Eins og staðan er eru komnir tæplega 50 þúsund einstaklingar á skrá hjá okkur, þá bæði um minnkað starfshlutfall og svo almennar umsóknir,“ segir Agða.
Gríðarlegt álag er á starfsfólki VMST en þar hafa nú verið teknar saman upplýsingar um skráningar atvinnuleysis í marsmánuði. Að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá VMST, er ástandið nokkurn veginn í takt við það sem búist var við og að atvinnuleysi hafi að öllum líkindum verið á bilinu 8,5-9% yfir allan mánuðinn þegar taldir eru með þeir launþegar sem sóttu um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, en opnað var fyrir umsóknir um þau réttindi 23. mars.
Sérfræðingar VMST gera núna ráð fyrir að atvinnuleysið fari upp í 15 til 16% þegar líður á aprílmánuð. Skráð atvinnuleysi á almennu atvinnuleysisskránni var 5,7% í mars og er áætlað að fjöldi þeirra sem skráðu sig í skert starfshlutfall nemi um þremur prósentum til viðbótar. Síðan er að sögn Karls gert ráð fyrir að almenna atvinnuleysið fari upp í 7,5% í apríl og þá komi umsóknirnar um hlutabætur fram af fullum þunga og hækki atvinnuleysisprósentuna um átta prósent til viðbótar. Því megi ætla að skráð atvinnuleysi gæti farið upp í 16% í yfirstandandi mánuði. Spurður um fjölda einstaklinga á bak við þessar tölur segir Karl að gera megi ráð fyrir að nálægt 35 þúsund manns fái greiddar atvinnuleysisbætur fyrir marsmánuð og að í aprílmánuði fjölgi þeim í samtals um 50 þúsund manns sem fái greiddar ýmist almennar bætur eða hlutabætur.
Stór hluti umsókna að undanförnu kemur frá launþegum sem starfað hafa í ferðaþjónustunni og í greinum sem tengjast henni auk verslunarstarfsemi og segir Karl að ætla megi að hlutfall þeirra sé um það bil 42% allra sem bæst hafa á skrána að undanförnu. Mun færri koma úr frumframleiðslugreinum og byggingariðnaði. Dreifing umsækjenda eftir þjóðerni er nokkurn veginn í samræmi við skiptingu þeirra á vinnumarkaði. Útlendingar hafa verið um það bil 20% af vinnuafli á vinnumarkaðinum en þeir eru nálægt 24% þeirra sem skráðir eru án atvinnu hjá Vinnumálastofnun. Karlar eru heldur fleiri án atvinnu en konur skv. atvinnuleysisskrám en verulegur munur er á aldurshópunum. Að sögn Karls er ungt fólk áberandi margt meðal umsækjenda um almennar atvinnuleysisbætur að undanförnu og ef litið er á nýskráningar um hlutastarfabætur í mars má sjá að um 33% umsækjenda eru 30 ára eða yngri. Ungt fólk hefur verið áberandi í þjónustustörfum og verður illa fyrir barðinu þegar fyrirtæki draga saman seglin þar sem það hefur áunnið sér minni starfsreynslu á vinnumarkaði og minnst réttindi.
Í gegnum þrengingar
Flóðbylgja umsókna um atvinnuleysisbætur að undanförnu minnir um margt á ástandið eftir hrunið fyrir rúmum áratug en staðan núna er eðlisólík því sem þá var.Karl Sigurðsson segir að á þeim tíma hafi fyrirtæki að langmestu leyti gripið til almennra uppsagna en þeir sem skráðir voru með skert starfshlutfall fóru aðeins yfir tvö þúsund.
„Menn vonast til að þetta sé tiltölulega skammvinnt ástand og fyrirtækin komist í gegnum þetta án þess að segja starfsfólki endanlega upp störfum þótt það sé líka töluvert um almennar uppsagnir um þessar mundir,“ segir hann.
„Þessar aðgerðir miða að því að halda fyrirtækjum á lífi og að þau komist í gegnum þessar þrengingar og geti í framhaldinu tekið upp fyrri starfsemi. Í hruninu var þetta mun alvarlegra til lengri tíma litið nema þetta fari allt á versta veg núna og við réttum ekki úr kútnum fyrr en eftir eitt eða tvö ár. Þá værum við að horfa upp á uggvænlega þróun en ég held að menn sjái það ekki fyrir sér sem betur fer.“