Þorsteinn Víglundsson
Þorsteinn Víglundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku og mun taka við sem forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. Hann hefur störf 16. apríl nk.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku og mun taka við sem forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. Hann hefur störf 16. apríl nk. ásamt því að láta samhliða af störfum sem þingmaður. Þetta kom fram í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í gær. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara, mun taka sæti Þorsteins á þingi.

Þorsteinn hefur starfað í stjórnmálum í tæp fjögur ár og tók sæti á Alþingi eftir kosningarnar í október árið 2016. Þá gegndi hann embætti félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017.

Eignarhaldsfélagið Hornsteinn ehf. á og rekur þrjú dótturfélög sem starfa við öflun hráefna, framleiðslu, sölu og þjónustu á byggingarmarkaði og við mannvirkjagerð á Íslandi. Fyrirtækin sem heyra undir Hornstein eru Björgun ehf., BM Vallá ehf. og Sementsverksmiðjan ehf.

Þorsteinn þekkir vel til starfsemi fyrirtækisins, en hann starfaði áður sem forstjóri BM Vallár á árunum 2002 til 2010.