Róbert Jón Jack fæddist 15. september 1948. Hann lést 18. mars 2020.

Útför Róberts Jóns hefur farið fram. Minningarathöfn mun fara fram síðar.

Góður vinur er fallinn eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég þakka Róbert Jack trausta og gefandi vináttu um langt árabil. Það var svo ótal margt sem við tókum þátt í saman. Í tíu ár vorum við með sinn hvorn reksturinn í húsnæði við Ármúla í Reykjavík. Á þeim tíma tók Róbert Kalla son minn á samning í rafvirkjun og lauk hann námi sínu hjá honum. Þeir voru bestu vinir frá fyrsta degi og var þetta gæfuspor fyrir son minn. Þegar stund var milli stríða fengum við okkur kaffisopa og spjall. Róbert var alltaf með eitthvað spennandi á prjónunum og ég held að flestir framkvæmdadraumar hans hafi ræst. Róbert átti ættir að rekja til Skotlands og oft sagði hann: Ég þarf að sýna þér bæinn þar sem afi og amma áttu heima í Skotlandi. Ekki leið á löngu þar til við vorum lagðir af stað til Skotlands og þar áttum við saman skemmtilega viku. Við renndum á slóðir forfeðra hans við götu sem heitir: Hilside Drive og knúðum þar dyra og fengum að skoða húsið og fara inn í herbergið sem Róbert hafði þegar hann dvaldi sumarlangt hjá afa og ömmu. Við hittum fjölskylduvini og hann sýndi mér ýmislegt sem hafði heillað hann sem barn. Við störfuðum um árabil saman í stúkunni Einingunni og áttum þar sérlega ánægjulegar samverustundir með góðum vinum og á seinni árum eftir að þau sæmdarhjón Sigrún og Róbert höfðu fest kaup á jörðinni Geitafelli og byggt þar upp glæsilega aðstöðu, íbúðarhús, gistiaðstöðu og veitingahús að ógleymdum Manchester United-turninum sem jafnframt var glæsilegt safn. Þetta uppátæki fjölskyldunnar vakti athygli um víða veröld og voru veitingar lofaðar í hástert og barst þeim fjöldi þakkarbréfa og viðurkenninga. Á ferðum okkar hjóna um Norðurland renndum við gjarnan við á Geitafelli og heilsuðum upp á vini okkar Sigrúnu og Róbert. Mér og Iðunni minni er afar ljúft að þakka góðum vini yndislega og trausta vináttu sem aldrei bar skugga á. Einnig hlýhug og vináttu fjölskyldu þeirra við Kalla minn á vegferð þeirra saman á lífsins leið. Við sendum Sigrúnu og börnum þeirra okkar kærustu samúðarkveðjur og þakkir.

Iðunn og

Ólafur Gränz.