Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félag sitt verði í góðri stöðu til að styrkja sig á leikmannamarkaðnum þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í sumar.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félag sitt verði í góðri stöðu til að styrkja sig á leikmannamarkaðnum þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í sumar. Fjárhagsstaðan er góð þrátt fyrir hremmingar kórónuveirunnar og félagið varð það fyrsta á Englandi til að þess að hafna þeim möguleika að fá ríkisaðstoð til að greiða starfsfólki sínu laun.

„Fótboltinn kemst aftur á eðlilega braut á einhverjum tímapunkti og það er mjög mikilvægt að þá verðum við klárir í slaginn. Við viljum alltaf vera bestir og nú gefst auðvitað tækifæri til að verja meiri tíma til að ræða um leikmenn, gera áætlanir og meta hvað við höfum þörf fyrir. Hver veit hvernig markaðurinn kann að breytast og bregðast við eftir þetta? Hver veit hvaða félög þurfa að selja leikmenn? Það getur komið upp staða sem hægt er að nýta sér og ég veit að við hjá Manchester United erum í einna bestu fjárhagsstöðunni,“ sagði Norðmaðurinn við Sky Sports.