[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
9. apríl 1960 Ármann tryggir sér Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik í þriðja sinn á fimm árum með því að sigra KR 11:4 í síðasta leik mótsins á Hálogalandi. Sigríður Lúthersdóttir skorar sex marka Ármenninga í leiknum.

9. apríl 1960

Ármann tryggir sér Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik í þriðja sinn á fimm árum með því að sigra KR 11:4 í síðasta leik mótsins á Hálogalandi. Sigríður Lúthersdóttir skorar sex marka Ármenninga í leiknum. FH tryggir sér meistaratitil karla með sigri á KR, 22:20, í hreinum úrslitaleik.

9. apríl 1966

Ísland vinnur dramatískan sigur á Dönum, 68:67, í framlengdum leik í Kaupmannahöfn og tryggir sér bronsverðlaunin á

Norðurlandamóti karla í körfuknattleik. Kolbeinn Pálsson, 19 ára gamall fyrirliði liðsins, á stórleik og tryggir sigurinn með tveimur vítaskotum. Hann er stigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig en Gunnar Gunnarsson skorar 18.

9. apríl 1970

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vinnur Norðmenn örugglega, 86:64, í fyrsta leik Norðurlandamótsins sem haldið er í Noregi. Þórir Magnússon skýtur norska liðið í kaf á lokasprettinum og skorar 27 stig alls en Kristinn Stefánsson skorar 16.

9. apríl 1984

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik sigrar Frakka, 23:21, í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni. Guðríður Guðjónsdóttir skorar 9 mörk fyrir Ísland, Erna Lúðvíksdóttir og Margrét Theódórsdóttir 4 hvor.

9. apríl 1991

„Þetta er mikið áfall og segir mönnum að nú megi lemja dómara. Mann langar mest til að hætta þessu en það eru bara ekki neinir til að taka við,“ segir Leifur Garðarsson körfuboltadómari við Morgunblaðið. Ástæðan er sú að Njarðvíkingar fá aðeins áminningu eftir að stuðningsmenn liðsins veittust að dómurum að loknum leik liðsins gegn Keflavík.

9. apríl 2000

Rúnar Alexandersson nær besta árangri íslensks fimleikamanns á Norðurlandamóti frá upphafi þegar keppt er í Helsinki. Hann vinnur þrefaldan sigur á mótinu og er Norðurlandameistari á bogahesti, á tvíslá og í fjölþrautinni.