Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Ef grunur er um að sjúkraflutningamaður hafi komist í snertingu við sjúkling sem sýktur er af kórónuveirunni er hann tekinn af vakt og settur í „biðkví“ á meðan sýni úr sjúklingnum er greint. Ef sýnið reynist neikvætt fer hann aftur til vinnu.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lenti í því við upphaf faraldursins að starfsmenn sýktust. Tvö mál komu upp á sama tíma og áttu þar í hlut menn af sömu stöðinni. Annars vegar kom í ljós að slökkviliðsmaður sem var að slökkva eld í Pablo Discobar í miðbænum var sýktur. Hann hafði ekki fengið það smit í vinnunni, að talið var. Hins vegar sýktust sjúkraflutningamenn af sjúklingi sem fluttur var á milli heilbrigðisstofnana. Varð þetta til þess að þrír starfsmenn fóru í einangrun og fimm til viðbótar í sóttkví. Um þessar mundir eru starfsmennirnir að koma aftur til vinnu.
Verja sig vel
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir að fyrstu viðbrögð slökkviliðsins hafi verið að láta alla sem fari í sjúkraflutninga vera með hanska og andlitsmaska, sama hvernið útkallið sé. „Við höfum verið afskaplega lánsöm eftir þetta,“ segir Jón Viðar.
Ýmsar varúðarráðstafanir eru viðhafðar, að hans sögn. Sjúkraflutningamenn spyrja sjúklinga sem þeir sækja um kórónusmit og áður hefur Neyðarlínan gert greiningu í gegnum síma. Eins eru upplýsingar um mögulega sóttkví eða einangrun látnar berast til mannanna. Ef minnsti vafi leikur á um öryggið bakka menn út og fara í hlífðarbúninga og betri varnir.
Ef upp kemur grunur um smit, þrátt fyrir þessar varúðarráðstafanir, eru viðkomandi starfsmenn teknir til hliðar og settir í „biðkví“. Þeir fara í sturtu og þvo fötin sín og bíllinn er sótthreinsaður. Ef niðurstaðan úr greiningu á sýni úr sjúklingi reynist neikvætt fara mennirnir aftur til vinnu. Ef sýnið reynist jákvætt er farið að reglum heilbrigðisyfirvalda og farið í samtal við smitrakningateymið. Getur það leitt til þess að starfsmaðurinn þurfi að fara í sóttkví.
Jón Viðar segir að nokkrir starfsmenn hafi farið í „biðkví“ en sem betur fer hafi þeim tilvikum fækkað og þrátt fyrir einangrun og sóttkví hafi slökkviliðið náð að sinna þjónustu sinni á venjubundinn hátt.