Það á eiginlega að vera óþarfi að nefna það af því að það á auðvitað að vera sjálfsagt mál að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að hafa ekki fæði, klæði eða hvað þá húsnæði. En því miður, þannig er það ekki.

Það á eiginlega að vera óþarfi að nefna það af því að það á auðvitað að vera sjálfsagt mál að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að hafa ekki fæði, klæði eða hvað þá húsnæði.

En því miður, þannig er það ekki. Við eigum að stefna að því og sjá til þess að allir njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda, að eiga fyrir mat alla daga, klæði fyrir allar árstíðir og mannsæmandi húsnæði sem er á viðráðanlegu verði.

Allir hafa fengið leiðréttingu á kjörum vegna bankahrunsins nema þeir sem eru á lífeyrislaunum, öryrkjar og eldri borgarar. Nei, eina sem þeir hafa fengið frá ríkistjórn eftir ríkisstjórn eru smánarhækkanir á lífeyrinn og einnig skerðingar og keðjuverkandi skerðingar á honum.

Ef við setjum þetta í eitthvert samhengi þá eru skerðingar í dag um 60 milljarðar hjá eldri borgurum og öryrkjum. Þarna erum við að tala um fimm milljarða á mánuði.

Ef við gerum ekkert strax þá á róðurinn eftir að þyngjast verulega hjá þeim sem verst hafa það, vegna þess að það er hópurinn sem á ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum í lok hvers mánaðar.

Nú eru að koma mánaðamót og þá kemur inn sama upphæð og vanalega hjá þessum hópi sem er svo lág að hún er langt undir fátæktarmörkum, þ.e. sárafátækt. Það segir okkur hversu óskiljanlegt það er að við skulum aldrei hafa fundið út hversu há í krónum talið lífsnauðsynleg framfærsla þarf að vera.

Það var gert að vísu fyrir nokkrum árum en henni var stungið undir stól. Síðan hefur verið miðað við einhverja furðulega og undarlega lága upphæð sem ég hef oft spurt mig hvernig í ósköpunum var fundin út og hver gerði það, en ég hef auðvitað ekki fengið nein svör við því.

Sem er kannski ekkert undarlegt vegna þess að ef rétt væri gefið, og við þurfum ekki annað en að fara aftur til þess þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp og endurreikna bætur almannatrygginga frá þeim tíma til dagsins í dag, þá værum við ekki að tala um að einhver væri með 200.000 krónur á mánuði.

Nei, það væri komið í um 350.000 krónur á mánuði og það skatta- og skerðingarlaust. Þeir verst settu þurfa á þeirri upphæð að halda og það strax í dag.

Flokkur fólksins berst fyrir því að enginn þurfi að lifa við fátækt, en nú ætlar ríkisstjórnin að greiða öryrkjum skatta- og skerðingarlaust 20.000 króna eingreiðslu 1. júní og ekkert fyrir eldri borgara.

Hvað eigum við þingmenn og ráðherrar að fá í hækkun launa á mánuði og það afturvirkt til 1. janúar? Í því samhengi: þetta er þeirra réttlæti. gudmundurk@althingi.is

Höfundur er þingflokksformaður Flokks fólksins.

Höf.: Guðmundur Ingi Kristinsson