Líkt og svo margir sinnir ljósvakaritari nú blaðamannsstarfi sínu heima hjá sér, tengdur um netið við umheiminn, samstarfsmenn, vini og vandamenn. Lífið minnir á vísindaskáldsögu nema hvað að fyrir utan gluggann er allt ósköp eðlilegt, fuglarnir syngja í trjánum og af og til bregður fyrir manneskju í heilsubótargöngu. Engir uppvakningar á ferli. „Sól tér sortna, sígur fold í mar, hverfa af himni heiðar stjörnur. Geisar eimi við aldurnara, leikur hár hiti við himin sjálfan,“ segir í Völuspá um ragnarök en slíkar hamfarir er ekki að sjá út um glugga. Sól sortnar jú af og til þegar gengur á með éljum en annars andar plánetan léttar þó að mannkyn geri það vissulega ekki.
Sem betur fer er ekki komið að ragnarökum og vonandi koma þau aldrei. En fyrir áhugamenn um heimsendi má mæla með mörgum kvikmyndum sem fjalla um slíkan endi, t.d. hinni hrollvekjandi Melancholiu, War of the Worlds og Armageddon. Af nægum er að taka og kvikmyndir um endalok siðmenningar og það sem við tekur eru sömuleiðis margar ágætar, t.d. Night of the Living Dead, 12 Monkeys og 28 Days Later. Vilji menn heldur „léttar“ myndir um uppvakninga má mæla með Zombieland og Shaun of the Dead. Njótið.
Helgi Snær Sigurðsson