Örn Gunnlaugsson
Örn Gunnlaugsson
Eftir Örn Gunnlaugsson: "Nær að stjórnvöld ráðist í launastyrk óháð vinnuframlagi efir að uppsagnarfrestur rennur sitt skeið."

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, skrifar grein í Morgunblaðið sem birtist 4. apríl síðastliðinn. Bara fyrirsögn greinarinnar gefur tilefni til að lesa alls ekki lengra þar sem fullyrðingin sem fram kemur í fyrirsögninni er svo fráleit og gefur sterkar vísbendingar um að efnistökin séu af sama meiði. Í fyrirsögninni segir: „Hlutastarfaúrræðið, styrkur til launafólks, ekki atvinnurekenda.“ Yfirlýstur tilgangur stjórnvalda er styrkur til launamanna sem þrátt fyrir allt hefðu átt rétt á launum út uppsagnarfrest hefði þeim verið sagt upp störfum þannig að fullyrðing Eyjólfs er í besta falli hálfsannleikur ef ekki hreinar og klárar rangfærslur. Hlutastarfaúrræðið tók gildi afturvirkt frá 15. mars þannig að löngu áður en nokkur launamaður hefur lokið störfum í uppsagnarfresti eru stjórnvöld byrjuð að dreifa peningum skattgreiðenda eins og áburði í skjóli þessara aðgerða. Rétt er að greiðslurnar fara beint frá Vinnumálastofnun til launamanna án milligöngu launagreiðenda en frá sama tíma lækka launagreiðslur frá launagreiðanda um allt að 75%. Þá hefur berlega komið í ljós að fjöldi fyrirtækja hefur hent sér á betlivagninn jafnvel þótt þau þurfi í raun enga aðstoð heldur séu aðeins að misnota þetta til að láta skattgreiðendur bera hluta launakostnaðar sem þeir sannanlega eiga að bera sjálfir. Ferðaþjónustufyrirtæki sem eru búin á búa við blússandi uppgang síðustu ára virðast ekki hafa búið í haginn og þykjast ekki eiga krónu með gati. Eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að leggjast með betlistafinn á þessa jötu er Bláa lónið sem hefur greitt eigendum sínum milljarða í arð á síðustu árum. Flestir fastráðnir launamenn eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest og því spara þeir launagreiðendur sem nýta sér þetta úrræði launakostnað afturvirkt frá 15. mars fram að þeim tíma sem launamaður hefði lokið störfum á uppsagnarfresti hefði honum verið sagt upp annars. Þar sem uppsögn miðast við mánaðamót hefðu flestir launagreiðendur verið bundnir af greiðslu launa til meginþorra launamanna sinna út júní næstkomandi en samkvæmt upplýsingum stjórnvalda til almennings ætti Covid-19-faraldurinn að vera yfirstaðinn að mestu þá og við skulum öll vona að það raungerist. Þá tekur hins vegar við að snúa atvinnulífinu í gang að nýju en einmitt þá verður þörf á að styðja við þau fyrirtæki sem lífvænleg eru og hafa sýnt burði til að komast gegnum fyrstu skaflana. Það er varlegt að áætla að fólk bíði í röðum eftir að ferðast þegar faraldrinum fer að slota og því munu erfiðleikarnir fara að gera vart við sig af alvöru fyrst þá. Hlutastarfaúrræði stjórnvalda er því fyrst og fremst styrkur við launagreiðendur a.m.k. meðan uppsagnarfrestur viðkomandi launamanns er að renna sitt skeið. Hvað tekur svo við þegar hlutastarfaúrræðið rennur sitt skeið? Dembist þá yfir hrina uppsagna þar sem launamönnum verður sagt upp 25% starfinu? Stjórnvöld ættu að afturkalla hlutastarfaúrræðið tafarlaust og ráðast í beina aðstoð við fyrirtækin með greiðslu hluta launa án minnkunar á starfshlutfalli sem tekur gildi eftir að uppsagnarfresti hefði lokið með þeim skilyrðum að launamönnum sem styrkurinn á að taka til sé ekki sagt upp. Í gegnum tíðina hafa samtök vinnuveitenda sýnt algjöran vanmátt og getuleysi í samningum við verkalýðshreyfinguna og aldrei staðið almennilega í lappirnar, í raun hefur allt verið gefið eftir að endingu. Ein af alvarlegustu eftirgjöfunum var þegar samið var um að launamenn ættu rétt á tveimur fyrstu veikindadögum á launum mánaðarlega en þetta ákvæði var held ég arfur frá fyrirrennara þeirra, Vinnuveitendasambandi Íslands. Þar fékk ég að kynnast örlítið þeirri linkind sem höfð var í frammi gagnvart verkalýðshreyfingunni þótt viðspyrnan hafi þó verið talsvert meiri þá en nú hjá SA. Áður fyrr fjallaði ráðningarsamband um réttindi og skyldur á báða bóga. Núorðið fjallar það meira og minna um réttindi launamanns og skyldur launagreiðanda. Hvers konar glóra er í því að samþykkja svona veikindadagaákvæði án þess að launamaður beri nokkra ábyrgð sjálfur? Þetta er svipað því að tryggingafélag greiði fyrst sjálfsábyrgð úr tjóni en tryggingataki rest. Í nágrannalöndum okkar þar sem ég þekki til eru ekki greidd laun fyrr en eftir fyrstu tvo daga í veikindafjarveru þannig að slíkt er letjandi til misnotkunar. Það má svo deila um hvort það er af linkind eða vorkunnsemi að ekki sé sett inn í kjarasamninga „force majeure“-ákvæði sem tekur til aðstæðna eins og nú eru uppi. Slíkt þykir sjálfsagt í ýmsum viðskiptaskilmálum. En SA, sem áður voru VSÍ, sjá enga ástæðu til að semja með ábyrgum hætti fyrir aðildarfélaga sína því þegar á bjátar banka þessi samtök upp á hjá stjórnvöldum með tárblautan reikninginn. Þau eru því engu skárri en grátkórar verkalýðshreyfingarinnar og spurning hvort þau ættu ekki bara að sækja um aðild að ASÍ og gráta svo með þeim á tyllidögum. Sameiginlega grétu þau hlutastarfaúrræðið í gegn. En er við öðru að búast í samfélagi þar sem enginn á að bera ábyrgð á sjálfum sér? Ríkið kemur alltaf til bjargar.

Höfundur er fyrrverandi atvinnurekandi. orng05@simnet.is

Höf.: Örn Gunnlaugsson