Noregur
Kristján Jónsson
kris@mbl.is „Ég held að lífið hérna sé svipað og hjá flestum öðrum um þessar mundir. Varðandi fótboltann þá megum við æfa fimm saman í einu. Þá eru gjarnan fimm leikmenn á einum vallarhelmingi og fimm á öðrum. Þjálfararnir standa fyrir utan völlinn. Tveggja metra reglan er svo í gildi og menn reyna að halda sér í formi á einhvern hátt,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, knattspyrnumaður hjá Vålerenga í Noregi, þegar Morgunblaðið tók hann tali.
„Reglurnar varðandi fótboltann hafa tekið nokkrum breytingum. Í byrjun mars máttu liðin æfa en það fór minnkandi þegar farið var að loka skólum og leikskólum. Á tímabili voru skipulagðar æfingar alveg bannaðar. Eins og stendur er alla vega þessi fimm manna regla í gangi en henni fylgja ýmis skilyrði. Búningsklefar eru ekki notaðir, við megum ekki skalla boltann né taka hann upp með höndunum út af smithættu.“
Frekari bið eftir leikjum?
Norska deildin ætti að vera nýhafin. Norðmenn settu á nýja dagsetningu og átti þá deildin að hefjast 23. maí. Samkvæmt umfjöllun í norskum blöðum gæti verið að Norðmenn bíði fram í júní með að hefja tímabilið í efstu deild.„Já, deildin átti að byrja síðustu helgi. Var fyrstu umferðinni síðan frestað til 23. og 24. maí. Nú þegar þú ert að hringja er ég nýbúinn að sjá frétt þar sem talið er að heilbrigðisyfirvöld leggi til að byrja ekki fyrr en 15. júní. Þetta er hins vegar ekki staðfest,“ benti Matthías á og þegar hann fær loksins að keppa á ný verður gamla góða leikgleðin væntanlega við völd.
„Já, heldur betur. Maður verður í raun bara ánægður þegar maður þarf að vakna snemma og gera hitt og þetta á ný. Hversdagslegu hlutina kann maður betur að meta núna.“
Félögin gætu lent í basli
Fyrir sum félög í Noregi er fjárhagsstaðan afar erfið eins og víða annars staðar en Matthías er einn af ellefu Íslendingum sem nú eru á mála hjá liðum í norsku úrvalsdeildinni.„Það er voðalega misjafnt hvernig liðin í efstu deildinni eru að takast á við stöðuna. Þegar ástandið vegna veirunnar fór versnandi hættu styrktaraðilar að styðja við félögin og þau misstu af alls kyns tekjum. Mörg lið hafa sagt leikmönnum upp tímabundið en ekki öll. Staðan er ótrúlega erfið fyrir mörg félög og leikmenn sem missa tekjur. Það er auðvitað mismunandi hvernig það hefur áhrif á fólk. Einnig er umræða um hversu mikið félögin eiga rétt á að láta leikmenn æfa í hverri viku þegar starfshlutfallið er misjafnt. Ef þetta ástand varir lengi eru líkur á því að mörg félög lendi í bölvuðu veseni.“
Burtséð frá veirunni og ástandinu sem henni fylgir kann Matthías ágætlega við sig hjá Vålerenga, en þangað kom hann í janúar í fyrra frá stórliðinu Rosenborg.
Æfði eins og brjálæðingur
„Núna finnst mér eins og það séu fimm ár síðan ég kom hingað. Fjölskyldan flutti til mín um sumarið og okkur líður vel hérna í Ósló. Fyrri hluti tímabilsins var góður fyrir liðið og mér gekk einnig vel. Um sumarið misstum við leikmenn og seinni hlutinn var dapur af okkar hálfu. Maður var því með hugann við það í vetur að koma sterkur til baka á þessu tímabili og ég æfði eins og brjálæðingur. Mér gekk vel í æfingaleikjunum og er heill heilsu. En svo kemur þessi staða upp og það er erfiðara að segja núna hvernig liðið mun standa sig,“ sagði Matthías, en þjálfaraskipti hafa orðið hjá liðinu. Fráfarandi þjálfari, Ronny Deila, tók við New York City FC, liðinu sem Guðmundur Þórarinsson samdi við í vetur.
Með samning út 2021
Matthías gekk í raðir Start árið 2012 og hefur verið í liðlega átta ár í Noregi. Er fjölskyldan orðin svolítið norsk eftir þessa dvöl?„Eitthvað smá en hugurinn er alltaf heima annað slagið. Sonur minn verður 12 ára í sumar og dóttirin varð 6 ára um daginn. Það er spurning hversu lengi maður á eftir að haldast í Noregi. Ég ætla ekki að fela það að ég er aðeins farinn að hugsa heim. Ég er hins vegar með samning við Vålerenga út 2021. Eftir það kemur alveg til greina hjá okkur að flytja heim,“ sagði Matthías enn fremur.