Mannlaus strönd Promenade des Anglais í Nice í Frakklandi er mannlaus en venjulega er fjöldi fólks þarna á gangi.
Mannlaus strönd Promenade des Anglais í Nice í Frakklandi er mannlaus en venjulega er fjöldi fólks þarna á gangi. — AFP
Heimsviðskipti gætu dregist saman um allt að þriðjung á þessu ári vegna kórónuveirufaraldursins, að mati Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þetta myndi hafa mikil áhrif á daglegt líf og hag almennings um heim allan.

Heimsviðskipti gætu dregist saman um allt að þriðjung á þessu ári vegna kórónuveirufaraldursins, að mati Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þetta myndi hafa mikil áhrif á daglegt líf og hag almennings um heim allan.

Í yfirlýsingu sem WTO sendi frá sér í gær sagði að samdrátturinn gæti numið frá 19-32% og hugsanlega stæði heimurinn frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu sem núlifandi fólk hefði upplifað.

WTO bendir á það í nýrri hagspá að þegar hafi verið farið að hægja á alþjóðaviðskiptum á síðasta ári áður en kórónuveirufaraldurinn hófst. En afleiðingar faraldursins væru að viðskipti víða um heim hefðu nánast stöðvast. Niðursveiflan nú væri dýpri en sú sem fjármálakreppan á árunum 2008 til 2009 olli. Stórir hlutar hagkerfa landa heims væru nánast óstarfhæfir, svo sem ferðaþjónusta, smásala og stór hluti framleiðslu, segir WTO.

Bjartsýn spá gerir ráð fyrir að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný á síðari hluta ársins. En einnig sé hugsanlegt að upphaflegi samdrátturinn hafi verið meiri en fyrstu mælingar sýndu og bataferlið verði langt og ófullburða.

„En báðar spár gera ráð fyrir að um allan heim dragist útflutningur og innflutningur saman um tveggja stafa tölu á árinu 2020,“ segir WTO og bætir við að Norður-Ameríka og Asía muni fara verst út úr þessari kreppu.

Mesti samdráttur frá lokum síðari heimsstyrjaldar

Tvö stærstu hagkerfi Evrópusambandsins, Þýskaland og Frakkland, búa sig nú undir erfiða tíma. Helstu hagfræðistofnanir Þýskalands sögðu í gær að útlit væri fyrir að verg landsframleiðsla myndi dragast saman um nærri 10% á öðrum fjórðungi ársins.

Og seðlabanki Frakklands sagði að á síðasta fjórðungi ársins 2019 hefði verið 0,1% samdráttur og vísbendingar væru um að samdrátturinn hefði numið 6% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Er það mesti samdráttur sem mælst hefur í Frakklandi frá lokum síðari heimsstyrjaldar árið 1945.