Framkvæmdir Kórónuveiran hefur veruleg áhrif á efnahagslífið.
Framkvæmdir Kórónuveiran hefur veruleg áhrif á efnahagslífið. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is „Eins og staðan er núna erum við ekki enn byrjuð að sjá botninn né vitum við hvar hann er.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Eins og staðan er núna erum við ekki enn byrjuð að sjá botninn né vitum við hvar hann er. Frekari björgunaraðgerðir eru því nauðsynlegar,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins (SA). Vísar hún í máli sínu til stöðunnar sem nú er uppi í atvinnulífinu sökum útbreiðslu og áhrifa kórónuveirunnar á efnahagslífið hér á landi.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ráðgerðu SA og önnur félagasamtök í Húsi atvinnulífsins að senda stjórnvöldum tillögur fyrir næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í gær. Verður pakkinn kynntur eftir páska, en að því er heimildir blaðsins herma svipar tillögum SA um margt til þeirra leiða sem farnar hafa verið m.a. í Sviss og annars staðar á Norðurlöndunum.

Aðspurð segist Ásdís ekki vilja tjá sig um hvort eða hvenær SA hyggist senda ríkisstjórninni tillögur. Ljóst sé hins vegar að brýn þörf sé á frekari aðgerðum af hálfu ríkisins. Þá verði stöðugt að meta hvernig finna megi leiðir til að lágmarka efnahagslegt tjón.

„Fyrsti aðgerðapakkinn var mikilvægur á þeim tíma og við vorum ánægð með skjót viðbrögð stjórnvalda og þær aðgerðir sem þá voru kynntar. Hins vegar hefur staðan versnað til muna og nú er ljóst að efnahagslegu áhrifin verða mun dýpri og alvarlegri en í fyrstu var talið. Þessi versnandi staða einskorðast ekki við Ísland heldur heiminn allan,“ segir Ásdís.

Verði að horfa af raunsæi

Spurð hvort grípa hefði þurft til öflugri aðgerða strax, sambærilegt við það sem gert var í Bandaríkjunum, kveður hún nei við. Stjórnvöld verði þó að horfa raunsætt á stöðuna sem upp er komin. „Í næsta aðgerðapakka þarf að horfa til þess hvernig þær aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar hjálpa fyrirtækjum og til hvaða aðgerða þurfi nú að grípa. Fyrirtæki eru að lenda í verulegum tekjusamdrætti, jafnvel 90-100%, og við blasir að hlutastarfaleiðin hentar ekki slíkum fyrirtækjum þegar mörg hver geta ekki einu sinni haft opið. Allar aðgerðir miða að því að aðstoða fyrirtæki sem eru að glíma við tímabundinn lausafjárvanda vegna veirunnar,“ segir Ásdís og bætir við að frestun opinberra gjalda og skatta dugi ekki.

„Staðan er mjög alvarleg og nokkuð sem við höfum ekki séð áður. Það endurspeglast líka í þeim aðgerðum sem við sjáum erlendis. Nú leggja flest ríki allt kapp á að aðstoða fyrirtæki sem verða fyrir þyngsta högginu. Hafa skal þó í huga að það er ekki hægt að hjálpa öllum,“ segir Ásdís.

Hagræða verði í ríkisrekstri

Sökum útbreiðslu kórónuveirunnar hefur fjöldi einstaklinga á einkamarkaði þurft að taka á sig miklar skerðingar. Enn sem komið er hafa engar slíkar skerðingar náð til starfsmanna ríkisins. Spurð hvort ekki sé eðlilegt að ríkisstarfsmenn taki á sig sambærilegar lækkanir segir Ásdís að horfa verði heildstætt á ríkisreksturinn þegar ástandið er yfirstaðið.

„Við erum stödd í miðri krísu og allt kapp er nú lagt á að finna skynsamlegar lausnir til að hjálpa fyrirtækjum í gegnum þetta tímabil, verja störf og stuðla að sem heilbrigðustu atvinnulífi þegar allt er yfirstaðið. Það er ljóst að þegar við förum að sjá til sólar á ný og viðspyrnan hefst þarf að horfa til þess hvar hægt er að hagræða í ríkisrekstri, auka skilvirkni og nýta betur fjármagn skattgreiðenda. Ríkissjóður verður fyrir verulegu tekjutapi og fyrr en síðar þarf að finna leiðir til að loka hallarekstri ríkissjóðs,“ segir Ásdís.