Heydalakirkja
Heydalakirkja — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvíld er mikilvæg fyrir fólk, samfélag og náttúru. Hvað getum við lært á þessum fordæmalausu tímum um hvíld?

Í júlí 2019 tóku gildi breytingar á lögum nr. 32/1997 um frið vegna helgihalds er varðar helgidagafrið. Þessar breytingar voru lagðar fyrir Kirkjuþing til umsagnar og féllst Kirkjuþing á að helgidagafriður yrði afnuminn úr lögum. Nú á tímum heimsfaraldurs þar sem fólk er lokað inni í sóttkví og sumstaðar í heiminum þar sem útgöngubanni hefur verið beitt hefur friður færst yfir götur borga og bæja. Á þessum tíma hefur mengunarstig hríðfallið og náttúran tekið vaxtarkipp, eins og sjá má á síkjum Feneyja, en ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum þá urðu síkin tær og líf mátti sjá þar sem ekkert virtist áður. Það er eins og náttúran fái nú örlítið andrými fyrir endurnýjun og sjálfsheilun.

Nú er sá tími kirkjuárs sem kallaður er langafasta. Fastan hefst á öskudegi og nær hún til páska og er tími iðrunar, íhugunar og andlegrar ræktunar. Því til áhersluauka er litur þess tímabils fjólublár en hann táknar iðrun og dapurleika. Tilviljun eða ekki þá greindist fyrsta smitið á Íslandi tveimur dögum eftir öskudag og talið hefur verið að veiran nái hámarki á páskum. Þessi tími kirkjuársins þykir mér vera mjög táknrænn fyrir ástandið í heiminum. Það hefur sannarlega einkennst af dapurleika. Frá skírdagskvöldi og fram á páskadagsmorgun þjáðist Kristur, dó á krossinum og lá svo dauður í gröfinni í þrjá daga. En við megum ekki gleyma því sem fylgdi á eftir þjáningunni og dauðanum. Á páskadagsmorgun reis hann upp frá dauðum. Ljós upprisunnar getum við strax séð í endurnýjun náttúru jarðar og ég er sannfærður um að við munum sjá frekari merki upprisunnar í framhaldinu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeirri þjáningu sem heimsbyggðin og einstaklingar eru að ganga í gegnum, sú þjáning er raunveruleg og hana verður að annast.

Þetta eru erfiðir tímar þar sem við þurfum ekki bara að huga að líkamlegri velferð okkar heldur einnig andlegri velferð. Kvíði, ótti, streita og áhyggjur í lífi fólks eru nægilega miklar án COVID-19, en það er dagljóst að vírusinn ýti enn frekar undir þessa neikvæðu þætti andlegrar heilsu. Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að stunda andlega rækt.

Þá komum við aftur að helgidögunum, við erum að tala um daga eins og sunnudaga, föstudaginn langa og stórhátíðir kirkjunnar sem eiga að fara í það að sinna andlegri rækt. Eins og þetta blasir við þá virðist helgidagafriðurinn eiga sér mun djúpstæðari rætur heldur en að láta fólk setja í aðgerðar- og eirðarleysi. Hugmyndin er að nýta tímann til persónulegrar andlegrar ræktar en gæti jafnvel verið mun djúpstæðari og teygt sig út fyrir manneskjuna sjálfa. Í myndmáli sköpunarsögunar hvíldist Guð á sjöunda degi, náttúran sem hafði þarna verið að fæðast og samfélagið sem þarna hafði myndast fékk einnig hvíld. Náttúra og samfélag þarf einnig hvíld frá manneskjunni eins og manneskjan þarf hvíld frá vinnu.

Ef allir þessir helgidagar væru nú eins kyrrlátir og götur borga og bæja eru í ástandinu, væri hægt að nýta tímann til andlegrar rækta. Verslanir og fyrirtæki lokuð og fáir á ferli, einn dagur í viku yrði tekinn frá, óháð trúarbrögðum, til þess að leggja allt niður nema algjöra grunnþjónustu eins og Jesús gaf fordæmi um í Lúkasi 14.1-6. Hægt væri að rækta andann með því að leggja bílnum og fara út að ganga, stunda bænir og/eða íhugun, jafnvel sækja guðsþjónustur ef það hentaði fólki. Hægt væri að nýta tímann til heilbrigðrar tengslamyndunar innan fjölskyldunnar en það getur verið mjög mikilvæg forvörn fyrir börn að eiga uppbyggjandi stundir og samskipti með foreldrum sínum án þess að vera á þeytingi úti um allan bæ. Ég held að dýpri skilningur á helgidagafriðnum og ástundun þess að taka stund til hliðar og hafa hana einstaka gæti haft víðtækari áhrif og að fleiri myndu hafa hag af því heldur en við gerum okkur grein fyrir. Náttúran fengi einn og einn dag til andrýmis, við fengjum andlega uppörvun í algjörum friði frá ys og þys hversdagsins og fjölskyldur myndu styrkja tengsl.

Ég held að við séum að stíga inn í nýja tíma með nýtt gildismat, hvað er mikilvægt fyrir þig og mig, hvað er mikilvægt fyrir náungann, hvað er mikilvægt fyrir náttúruna og sköpunarverkið sem heild? Gildin verða frekar andleg heldur en veraldleg þegar fram líða stundir og við munum átta okkur á að hamingjan hefur aldrei verið talin og mun aldrei verða talin í veraldlegum gæðum en þannig er það ekki heldur með guðsríki. Með réttu sjónarhorni er hægt að sjá að allir hlutir verða og eru nýir og betri.

Höfundur er prestur í Heydölum. dagur.f.magnusson@gmail.com

Höf.: Dagur Fannar Magnússon