Töluverður munur er á afstöðu félagsmanna Félags atvinnurekenda til aðgerða til stuðnings fyrirtækjum vegna kórónuveirufaraldursins eftir því hvort um er að ræða aðgerðir ríkisins eða aðgerðir sveitarfélaganna. Fyrirtækin eru mun ánægðari með aðgerðir ríkisins samkvæmt niðurstöðum könnunar sem FA gerði meðal félagsmanna sinna.
Þannig voru 64% annaðhvort mjög ánægð eða ánægð með aðgerðir ríkisins, 25% voru hvorki ánægð né óánægð og 11% voru óánægð eða mjög óánægð.
Aftur á móti voru einungis 17% mjög ánægð eða ánægð með aðgerðir sveitarfélaganna, 40% sögðust hvorki ánægð né óánægð en 43% fyrirtækja voru óánægð eða mjög óánægð.
Þrátt fyrir erfiðleika sem steðja að fyrirtækjum vegna heimsfaraldursins ríkir nokkur bjartsýni meðal forsvarsmanna fyrirtækja um framhaldið og telja 88% þeirra mjög líklegt eða líklegt að fyrirtæki þeirra komist í gegnum erfiðleika í rekstri. Tímabundin niðurfelling tryggingagjalds og fasteignaskatta sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði eru úrræði sem fyrirtækjastjórnendur telja að muni hjálpa þeim mest. Í ljós kom að 53% fyrirtækja hafa leitað til viðskiptabanka síns vegna erfiðleika af völdum heimsfaraldursins og af þeim voru samtals 46% mjög ánægð eða ánægð með viðbrögð bankans.
Könnunin var gerð dagana 6. til 8. apríl sl. og var send til 158 fyrirtækja með beina aðild að FA. Af þeim svöruðu 75 fyrirtæki eða 47,5%.